Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   mið 03. ágúst 2022 18:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kópavogsvelli
Blikar séu ekki að mæta lötum lúxusleikmönnum
Blikar fagna marki í sumar.
Blikar fagna marki í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Istanbul Basaksehir mætir á Kópavogsvöll á morgun.
Istanbul Basaksehir mætir á Kópavogsvöll á morgun.
Mynd: Getty Images
Breiðablik spilar við Istanbul Basaksehir frá Tyrklandi í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar á morgun. Fyrri leikur liðanna fer fram á Kópavogsvelli.

„Það er tilhlökkun og eftirvænting. Ég er klár, heldur betur," sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, þegar hann sat fyrir svörum á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í dag.

Með honum á fundinum var þjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson.

Þetta verður gríðarlega erfitt verkefni fyrir Blika. Basaksehir vann 2-1 sigur gegn Manchester United í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir rúmlega 20 mánuðum.

„Það er gríðarleg tilhlökkun og þetta er frábært tækifæri fyrir liðið að máta sig við lið sem er í hæsta gæðaflokki í evrópskum fótbolta. Basaksehir er gríðarlega öflugt og vel mannað. Þetta er alvöru próf sem verður lagt fyrir okkur á morgun. Það er gríðarleg eftirvænting," sagði Óskar.

Hversu sterkt lið er þetta nákvæmlega, eru þeir mikið sterkari en önnur lið sem Blikar hafa mætt?

„Ég held að það sé óhætt að segja það. Þeir eru margfalt sterkari en þau lið sem við höfum spilað við hingað til og þau lið sem við spiluðum við í fyrra. Þeir voru í riðlakeppni Meistaradeilarinnar og eru búnir að styrkja sig verulega fyrir þetta tímabil. Á pappír og miðað við það hvernig þeir spiluðu gegn Maccabi Netanya í síðustu umferð þá er þetta öflugt lið og vel mannað."

„Það kemur kannski á óvart, en þetta eru ekki latir lúxusleikmenn sem nenna ekki að hlaupa og vilja bara hafa boltann. Þetta eru harðduglegir gæjar, vel skipulagðir, öflugir og er þetta sterkt lið varnarlega. Þeir eru með mikil einstaklingsgæði."

„Þeir eiga eftir að koma hérna - okkur líður vel hér - en erfiðir andstæðingar eru þeir," sagði Óskar.

Hvar eru þeirra veikleikar? „Þeir eru að koma í umhverfi sem þeir eru ekki vanir. Þeir eru að koma á lítinn leikvang með gervigrasi. Veðrið verður vonandi ekki upp á sitt allra besta, vonandi klassískt júlíveður. Við erum frekar að horfa í styrkleika okkar. Við þurfum að spila á okkar styrkleikum, okkar allra besta leik varnarlega og sóknarlega. Við þurfum að vera hugrakkir, með kassann úti og keyra á þá."

„Við megum ekki gefa jafnmargar feilsendingar og í fyrri hálfleiknum gegn Skaganum. Það er alveg ljóst. Við þurfum að vera betri á boltanum. Pressan þarf að vera frábær og við þurfum að nýta þau færi sem við fáum til að spila í gegnum þá. Það er ekkert annað en okkar besti leikur sóknarlega og varnarlega sem gerir það að verkum að við fáum eitthvað úr þessum leik."

Breiðablik mætti Aberdeen frá Skotlandi á þessu stigi keppninnar í fyrra og féll þá úr leik. Núna er liðið að mæta mun betri andstæðingi en þá.

„Já, fyrirfram myndi ég halda að þeir séu mikið sterkari andstæðingur með miklu sterkari einstaklinga og öflugra lið að öllu leyti. Ég myndi halda að þeir séu mikið sterkari," sagði Óskar.

Höskuldur segir að andinn sé góður og Blikar séu vongóður um að ná í góð úrslit á morgun. Viðtal við hann birtist hér á síðunni á eftir.

Leikurinn á Kópavogsvelli á morgun hefst klukkan 18:45.
Athugasemdir
banner
banner