Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   þri 09. maí 2023 21:16
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Blikar keyrðu yfir tíu leikmenn Keflavíkur
Mynd: Sigurður Ingi Pálsson
Mynd: Sigurður Ingi Pálsson
Keflavík 0 - 6 Breiðablik
0-1 Andrea Rut Bjarnadóttir ('1 )
0-2 Kristrún Ýr Holm ('23 , sjálfsmark)
0-3 Agla María Albertsdóttir ('26 , víti)
0-4 Katrín Ásbjörnsdóttir ('39 )
0-5 Taylor Marie Ziemer ('49 )
0-6 Hafrún Rakel Halldórsdóttir ('64 )
Rautt spjald: Júlía Ruth Thasaphong, Keflavík ('27) Lestu um leikinn

Breiðablik vann annan leik sinn í Bestu deild kvenna á þessu tímabili er liðið kjöldró Keflavík, 6-0, í Nettó-höllinni í kvöld.

Blikar voru ekki lengi að komast í gírinn. Andrea Rut Bjarnadóttir skoraði eftir aðeins 50 sekúndur.

Kristrún Ýr Holm kom boltanum í eigið net á 23. mínútu eftir fyrirgjöf Öglu Maríu Albertsdóttur og aðeins þremur mínútum síðar fengu Blikar vítaspyrnu eftir að Júlía Ruth Thasaphong braut á Taylor Marie Ziemer í teignum.

Júlía fékk gula spjaldið fyrir og skoraði síðan Agla María úr vítaspyrnunni. Stuttu eftir vítaspyrnuna fékk Júlía sitt annað gula spjald og þar með rautt og það í sínum fyrsta leik í sumar fyrir olnbogaskot.

Fjórða markið gerði Katrín Ásbjörnsdóttir. Hafrún Rakel Halldórsdóttir átti þrumuskot í slá og var Katrín fyrst að átta sig og skoraði úr frákastinu.

Taylor Marie Ziemer gerði fimmta markið. Hún fékk boltann eftir innkast, snéri sér við og skaut af löngu færi og í netið fór boltinn. Magnað mark.

Blikakonur voru ekki hættar og héldu áfram að þjarma að Keflavíkurliðinu. Hafrún Rakel rak síðasta naglann í kistu Keflvíkinga með öðru glæsilegu marki. Hún fékk boltann hægra megin við vítateigshornið og skoraði í fjærhornið.

Annar sigur Blika af þremur mögulegum og liðið með 6 stig eftir þrjá leiki. Keflavík tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu en liðið er með 4 stig.
Athugasemdir
banner