Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 11. mars 2014 10:30
Guðjón Heiðar Valgarðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Nenniði plís að hætta að tala um fótbolta!
Guðjón Heiðar Valgarðsson
Guðjón Heiðar Valgarðsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: FM
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar ég var yngri fóru pabbi minn og afi með mig á næstum alla fótboltaleiki hjá Breiðabliki og ég hafði mjög gaman að. Ég byrjaði sjálfur að æfa 5 ára og þetta var eitt af mínum aðaláhugamálum þegar ég var krakki. Ég fylgdist æsispenntur með HM 94 í Bandaríkjunum og vissi allt um leikmennina, liðin og hvað var í gangi.

Um svipað leyti fór mér að ganga mjög vel í skák og það gaf mér takmarkaðan tíma til að vera í fótbolta líka en ég æfði alltaf eitthvað inn á milli. Afi minn var einhver verðmætasti stuðningsmaður minn, hann skutlaði mér á allar æfingar og skákmót, beið eftir og skutlaði mér síðan heim. Svo beið amma með heitt súkkulaði og vöfflur eftir alla leikina. Þessi hugrenningatengsl úr æsku hafa eflaust eitthvað um það að segja að ég tengi fótbolta við góðar stundir, þó að Breiðabliki hafi ekki gengið sérstaklega vel á þessum tíma.

Eftir að afi dó þegar ég var 12 ára þá fjaraði áhuginn minn á skák smám saman út. Ekki endilega vegna þess að hann dó en kannski bara því ég var að verða unglingur og það var meira töff og spennandi að spila á gítar en að hreyfa peð og riddara þar til ég yrði gamall. Um 15-16 ára lagði ég skákmennina ofan í kassa og æfði fótbolta í síðasta sinn.

Það var svo nokkrum árum síðar, um 2003 að ég fór að verða meira og meira hneykslaður á öllu óréttlætinu, misskiptingunni og stríðum í heiminum. Þetta voru hlutir sem ég hafði ekki skilið til fullnustu áður. Um það leyti þegar Íraksstríðið byrjaði þá fór ég að fatta hvernig poppmenningin, þar á meðal fótbolti virkar til þess að dreifa athygli almennings svo við einbeitum okkur að öðrum hlutum en t.d. mótmælum eða aktivisma. Í kjölfarið missti ég nánast allan áhuga á íþróttinni og leit á hana sem peninga og tímasóun.

Fótbolti er merkilegur leikur fyrir þær sakir að þetta er vinsælasta íþrótt í heimi, en um leið sú óvinsælasta, þeas. sú íþrótt sem flestir þola ekki. Fólk skiptist yfirleitt í tvær tiltölulega öfgafullar fylkingar og lítið um milliveg.

Eftir að hafa hætt að fylgjast með fótbolta í um það bil 10 ár þá var ég farinn að "lenda" oftar og oftar í að vera að hanga með góðum vinum mínum, tveimur, sem báðir höfðu mikinn áhuga á Arsenal. Þarna sátu þeir, sjúklega krúttlegir, leik eftir leik og það skipti þá miklu máli hvernig leikurinn fór.

Ég gat lauslega haft gaman af því að fylgjast með, en mundi samt hvað það var fjarri því að ég væri að njóta þess eins og þegar ég var yngri. Ég áttaði mig síðan á því að aðalástæðan var að þá vissi ég miklu meira um hvað var í gangi.

Þegar ég horfði á fótbolta í gamla daga þá þekkti ég alla karakterana, sögu þeirra og liðanna, gengi þeirra og væntingar. Í hvert skipti sem einhver fékk boltann var það byrjun á nýrri sókn sem var spennandi að sjá hvernig myndi fara.

Þegar einhver sem veit ekkert um fótbolta horfir á leik, er ekki skrítið að viðkomandi sjái bara fullt af fólki hlaupa um og detta um hvorn annan. Og svo er kannski bara ekkert mark allan leikinn! Ég fíla handbolta betur! Þar er miklu meira af mörkum. Þetta hef ég td oft heyrt. Og svo eru aðrir sem fíla bara nánast engar íþróttir.

En þá er fólk einfaldlega ekki að átta sig á hversu ólík dýnamíkin í fótbolta og handbolta er. Já það eru færri mörk í fótbolta, en það þýðir líka að hvert mark er miklu dýrmætara. Þar af leiðandi er hvert færi miklu dýrmætara, hver mistök kostnaðarsamari og þar fram eftir götum.

Allt getur verið áhugavert.

Því meira sem þú veist um eitthvað því áhugaverðara getur það orðið.

Ef ég hefði fæðst á Indlandi myndi ég líklega fíla krikket mun betur en ég geri. Ef ég hefði fæðst í Kanada hefði ég örugglega gaman af hokkí. Það hefur ekkert með persónu mína að gera heldur bara það að ég hefði orðið fyrir barðinu á mun meiri upplýsingum varðandi þær íþróttir en aðrar.

Þá væri hokkíleikur ekki bara fullt af gaurum að skauta um og reyna að skora, heldur myndi ég þekkja hvaða leikmenn væru bestu skautararnir og skjótararnir. Hvaða taktík væri verið að nota og allar þessar upplýsingar sem maður þarf til að njóta þeirra.

Svo ég tók mjög einfalda ákvörðun. Vinir mínir voru að skemmta sér vel yfir boltanum, ég var hvort sem er oft að hanga þarna með þeim á meðan þeir horfðu á hann... af hverju að neita mér um ánægjuna sem þeir voru að upplifa?

Það eina sem ég þyrfti að gera væri að vita meira um hvað væri í gangi. Svo ég byrjaði leik í Football Manager, tölvuleik þar sem maður er þjálfari liðs og þarf að kaupa leikmenn og stilla upp liðinu. Hljómar ekki mjög spennandi fyrir suma en ég var alvarlega háður honum í æsku og ekki sá eini, en það er t.d. mjög algengt að þessi tölvuleikur sé nefndur sem ástæða fyrir skilnuðum í Bretlandi.

Með því að spila leikinn lærði ég mun fleiri nöfn á leikmönnum og sérstaka eiginleika þeirra. Hverjir eru hraðir, teknískir, sterkir, með mikið úthald og svoleiðis. Það leið ekki á löngu þar til fótboltaleikirnir voru aftur farnir að lifna við fyrir framan nefið á mér.

Í samræðum um þetta um daginn var einn sem fór að tala um Formúlu 1 í þessu samhengi. Fyrir mér gæti ég alveg eins verið að horfa á málningu þorna þegar ég horfi á formúlu 1 svo mér fannst frábært að hann skyldi taka það dæmi og spurði hvað það var sem gerði þetta áhugavert fyrir honum.

Hann sagði að á meðan kærastan hans sér bara gaura keyra í hring eftir hring þá er hann að spá í öll smáatriðin. Hann veit hvað einn gaurinn á mikið af bensíni eftir í tanknum og hvað það er langt í að hann þurfi að taka pit-stopp. Hann veit hvernig brautir henda aksturslagi einstakra ökumanna og hvaða aðstæður henta þeim best. Hann þekkir muninn á eiginleikum ökutækjanna frá mismunandi liðum og svona mætti lengi telja.

Ef ég gæti dánlódað öllum upplýsingunum sem hann hefur um formúlu 1 í hausinn á mér þá er nánast öruggt að ég myndi njóta þess margfalt betur að horfa á þetta.

Fordómar eru alltof algengir. Við sjáum þá núna skjóta upp kollinum í tengslum við Morfís, gjarnan hjá fólki sem hefur varla séð heila ræðukeppni eða ákvað að eina lélega ræðukeppni sem það sá sé lýsandi fyrir allar ræðukeppnir sem eru haldnar. Nú síðast sjáum við fólk sem veit ekkert um hugmyndirnar og pælingarnar á bakvið UFC.

Á vissan hátt skiljanlega líta þau á íþróttina sem lítið annað en villimennsku og úthrópa Gunnar Nelson fyrir að skara fram úr í henni. Flestar bardagaíþróttir leggja mikla áherslu á að vera einungis ætlaðar í sjálfsvörn og keppni í þeim fer fram í mjög stjórnuðu og öruggu umhverfi. Þeir sem kynna sér t.d. ævi Bruce Lee myndu sjá að þar var stórbrotinn listamaður á ferð sem átti ekkert skilt við ofbeldi eða villimennsku.

En höldum áfram að taka dæmi, það er svo gaman! Það sama á við um sjónvarpsþætti. Það þarf að koma sér aðeins inn í seríur til að hafa gaman að þeim, þekkja forsöguna, karakterana og pælingarnar. Þetta er svona með allt! ALLT!

Almennt er líka oft mikil hroki fólginn í orðalagi fólks varðandi svona hluti. Eins og að fullyrða "fótbolti er svo heimskulegur, bara einhverjir gaurar að sparka tuðru á milli sín" og annað slíkt orðalag. Þetta er heimskulegt, bara vegna þess að þú skilur ekki eitthvað þýðir ekki að þeir sem geri það séu heimskir eða skrítnir. Það er hrokafullt, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða vinsælustu íþrótt í heimi.

Íþróttir snúast um færni og hæfileika og þegar við skiljum hversu sérhæfða færni þarf til að ná árangri í vissum íþróttum er heillandi að fylgjast með þeim sem skara fram úr í því. Þetta á líka við um tónlist. "Ég þoli ekki rapp" Nei, þú veist ekkert um rapp. Þú hefur aldrei gefið þig á tal við einhvern vin þinn sem er annt um rapp, beðið hann um að benda þér á eitthvað sem hann telur skara fram úr, og hlustað af athygli á hana með textana fyrir framan þig. Eða hvað?

Auðvitað eru til dæmi um að eitthvað sé hreinlega ekki heillandi í manns huga, en að ákveða að það geti ekki verið án þess að gefa sér neinn tíma til að skilja hvað það er sem heillar aðra við hlutinn er fordómafullt. Það er það! Alveg sama hvaða rök þú ætlar að koma með. Þetta virðist augljóst, en það virðist ekki vera það, miðað við hvernig við tölum.

Á eftir er Arsenal að spila við Sunderland. Fyrir tveimur árum síðar þá hefði ég ekki hugsað um þann viðburð í eina sekúndu. Mér hefði verið nákvæmlega sama. En núna er þetta eitthvað sem ég er spenntur fyrir og mun veita mér ánægju. Reyndar er leikurinn búinn núna, en upprunalega setningin er úr facebook færslu sem ég uppfærði og hreinskrifaði fyrir fotbolti.net. Nú get ég staðfest að mér fannst afar ánægjulegt að fylgjast með Arsenal spila Sunderland sundur og saman.

Í sumar verður HM í fótbolta. Nú eru eflaust margir sem kvíða fyrir því fótboltaæði sem mun tröllríða heiminum í þann tíma. Þeir munu fussa, jafnvel mögulega sveia, yfir öllu fótboltatalinu og segja hluti eins og "nenniðið plís að tala um eitthvað annað en fótbolta" á meðan einhverjir félagar eru í heitum rökræðum um eitthvað sem gæti allt eins verið umræður um veggfóður fyrir viðkomandi.

Ef þú ert einn af þeim þá legg ég til að þú gerir sjálfum þér þann greiða að hætta þessu. Þú ert bara að eyðileggja fyrir sjálfum þér.

Í sumar verður veisla fyrir öll skilningarvitin, ef maður veit hvað er í gangi. Ef maður veit hversu mikil pressa er á leikmönnum og hvaða stórkostlega hæfileikaríku einstaklingar munu spila með og á móti hvorum öðrum. Þetta mun vera í gangi í kringum þig, af hverju ekki að vera með? Allavega bara smá? Kynna þér hlutina á einhvern lágmarkshátt. Tala við þá vini þína sem fíla fótbolta og spjalla um það við þá, sjá hvort þeir nái að vekja einhvern áhuga hjá þér. Ég lofa því að bara við að spyrja einfaldrar spurningu mun manneskjan kunna að meta það.

Við kunnum öll að meta þegar einhver virðir okkur og vill tengja við okkur. Síðan ég ákvað að horfa á fótbolta með þessum vinum mínum höfum við átt fjölmargar áhugaverða og skemmtilegar rökræður um leiki og góðar samverustundir þar sem við hittumst og horfum á boltann.

Nú, auðvitað ef þú vilt vera eins og ég var, og telja allt tímasóun sem er ekki með það að markmiði að fólk kynni sér byggingu 7 og seðlabankasvindlið í bandaríkjunum, þá máttu mín vegna endilega halda áfram að berjast fyrir því. En miðað við hvað ég hitti fáa sem hugsa svoleiðis allan þennan tíma sem ég var að skrifa fyrir gagnauga og rífa kjaft í Harmageddon ætla ég að giska á að það sé ekki ástæðan fyrir áhugaleysinu. Ég er búinn að gefast upp á því. Allavega í bili, enda er ég búinn að segja nánast allt sem ég hef að tjá um það mál einhversstaðar í orði eða riti... 'Eg nenni ekki að berja hausnum mínum utan í vegg endalaust.

En til að undirstrika, ég vildi óska þess að fleiri hugsuðu svona um alla hluti. Ekki fordæma og ákveða strax að eitthvað sé heimskulegt, sérstaklega þegar vinur þinn eða vinkona er að tala um eitthvað sem viðkomandi finnst áhugavert. Það er vanvirðing. Ég ákvað um daginn að vinna markvisst að því, ef ég ber kennsl á fordóma í hausnum á mér, að uppræta þá.

Í hvert sinn sem ég hugsa... "Ég skil ekki hvernig fólk getur fílað Lil Wayne" Þá fer ég og tala við einhvern sem ég þekki sem fílar hann og spyr hvað sé málið. Maðurinn seldi milljón plötur á einni viku! Það er smá hrokafullt að ákveða að allt það fólk sé bara skrítið. Svo ég horfði á heimildarmynd um hann og hlustaði á nokkrar plötur með honum. Vinur minn sagði "hann er með bestu orðaleikina"... þá hugsaði ég... ó! Ég vissi það ekki. Strax eitthvað. Svo fór ég að stúdera það, og fleira sem tengist pælingum um flæði og framkomu. Nú skil ég miklu betur hvað það er sem fólk heillast af við tónlistina hans.

Ég lenti í því sama þegar ég var unglingur og Bítlarnir voru bara eitthvað sixtís boyband í mínum huga. Eftir að ég las Bylting Bítlanna þá gjörbreyttist sýn mín á þá. Svo horfði ég á Anthology DVD diskana og nú nýt ég þess mun betur að hlusta á tónlistina þeirra. Aðallega vegna þess að ég fékk meira af upplýsingum og meira af sögum til að tengja við hana.

Fyrrverandi kærastan mín hafði gaman að fimleikum. Ég lærði mikið af því að fá hana til að útskýra betur hvað væri í gangi og horfa á leikna mynd um Nadíu, fyrstu fimleikakonuna til að fá hreinar tíur á Ólympíuleikunum fyrir fimleikaæfingu. Það var áhugavert. Ég hafði engan áhuga á fimleikum, en ég hef áhuga á sögum.
Eftir öll þessi dæmi býst ég við að þú sért farinn að ná punktinum, mögulega varstu búinn að ná honum fyrir löngu. En til að hamra hann heim er ég hér með skjal sem var unnið af Andrés Villas Boas, sem var nýverið rekinn sem þjálfari Tottenham. Á þessum tíma var hann aðstoðarþjálfari José Mourinho hjá Chelsea. Þetta er úttekt á liði Newcastle á tíma þar sem Alan Shearer og Michael Owen voru að spila fyrir þá.

Ég legg til að þið kíkið á það, bara til að sjá hversu ótrúlega hárfín smáatriði menn eru farnir að velta fyrir sér þegar þekkingin er orðin mikil. Getiði hugsað ykkur hve mikla ánægju menn eins og hann fá út úr einum fótboltaleik? Hversu mikið af hugsunum og pælingum eru virkjaðar á meðan leikurinn á sér stað!

Þetta er kannski bara leikur þar sem 20 menn hlaupa um á grasi sparkandi í tuðru fyrir sumum, en þeir sem lesa þetta ættu að sjá að fyrir öðrum þá er þetta eitthvað allt annað og miklu stórbrotnara.

Sjá tengil

Ég veit ekki með þig, en ég ætla að slafra í mig alla spennuna úr HM í sumar.. Ég ætla að spila bolta með vinum mínum í góða veðrinu og spekúlera fram og til baka um leikina.

Munu Luis Suarez og félagar í Urugay ásamt Ítölum ná að koma í veg fyrir að England komist upp úr riðlinum sínum? Ná Messi eða Ronaldo, tveir af bestu knattspyrnumönnum sögunnar að fullkomna arfleið sína með því að sigra HM? Stendur Þýskaland undir væntingum og vinna fyrsta titilinn sinn síðan V-Þýskaland gerði það 1990? Nær Brazilía að sigra keppnina í eigin heimalandi? Tekst Spáni hið ótrúlega og nær að vinna fjórðu stóru keppnina í röð og verða í leiðinni fyrsta landið síðan Brasilía 1962 til að verja heimsmeistaratitilinn. Hver verður hetjan? Skúrkurinn?

Þetta eru allt sögur, og ólíkt Hollywood handritum er engin mannleg vitund sem fær að stýra því hvernig þær enda. Þessar sögur munu eiga sér stað í beinni útsendingu og það er engin trygging fyrir hamingjusamlegum endi fyrir neinn. Það finnst mér heillandi og spennandi.

Ef þér finnst það ekki og ekkert sem hér hefur komið fram hefur sannfært þig um að þig langi að gefa þessu séns þá er það fullkomlega löglegt líka. En verum allavega kurteis hvort við annað, það algjör óþarfi að fara í fýlu þó aðrir séu að njóta einhvers sem þú gerir ekki!

Þið afsakið villandi fyrirsögnina á greininni, mér datt í hug að hún myndi allavega lyfta augabrúnum og fá einhverja til að lesa sem hefðu annars aldrei gert það. Vel gert ef þú nenntir að lesa þetta allt! Takk fyrir það og megirðu eiga gott og fordómalaust sumar óháð litarhafti, kynhneigð, tónlistarsmekk eða áhugamálum!

Með bestu kveðju, Guðjón Heiðar Valgarðsson
Athugasemdir
banner
banner