
„Mér fannst á köflum leikurinn mjög góður, ég veit auðvitað að við töpuðum 6-0, mér fannst það fullstórt. Ég hefði alveg viljað sjá okkur ná 1-2 mörkum á þær," sagði Ívar Ingimarsson, annar af þjálfurum KR, eftir stórt tap gegn Þór/KA í Mjólkurbikarnum í dag.
Lestu um leikinn: Þór/KA 6 - 0 KR
„Nokkur af mörkunum voru af ódýrari kantinum hjá okkur og við vitum að við þurfum að laga það. Við erum að spila við eitt af toppliðunum í Bestu deildinni, fyrir okkar lið er frábært að fá þessa reynslu og máta sig við þær. Við vinnum í því að minnka bilið."
„Við sögðum þeim að fara út og njóta þess að spila. Við gerðum smá breytingar á liðinu en gerðum það alveg skýrt að við ætluðum að fara í leikinn til þess að reyna vinna hann. Á blaði er Þór/KA miklu sterkara lið en við, en það fallega við fótboltann er að hann er spilaður á vellinum. Við gáfum þessu leik fram á síðustu mínútu."
„Nú er það bara deildin, við erum ekki að fara spila við mörg lið af þessum gæðum í okkar deild. En þetta er þangað sem við viljum komast."
„Planið hjá okkur var að tryggja liðið á þessu ári í deildinni. Fyrstu leikirnir hafa lofað góðu.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst. Í lok viðtals var Ívar, sem er fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður, spurður út í sig sjálfan.
„Mér finnst æðislega gaman að þjálfa, nýt þess að geta einbeitt mér alfarið að því. Ég var svolítið til hliðar, en alltaf í kringum fótboltann. Þegar tækifærið kom að þjálfa með Gunna og hjá KR - þetta var búið að kitla mig - þá henti ég mér í þetta. Þetta er alveg krefjandi en mjög gaman," sagði Ívar.
Athugasemdir