Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 11. nóvember 2024 15:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Vildi ekki missa af uppskerunni - Auðveldara svar eftir að Birkir hætti
Vinstri bakvörðurinn samdi út tímabilið 2026.
Vinstri bakvörðurinn samdi út tímabilið 2026.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Már Einarsson er þjálfari Aftureldingar.
Magnús Már Einarsson er þjálfari Aftureldingar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson er fluttur til Svíþjóðar, hann var að leika sitt síðasta tímabil á Íslandi.
Birkir Már Sævarsson er fluttur til Svíþjóðar, hann var að leika sitt síðasta tímabil á Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliði Aftureldingar er 27 ára og er uppalinn Valsari.
Fyrirliði Aftureldingar er 27 ára og er uppalinn Valsari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Maggi er alveg duglegur að hamra menn niður, við erum strax byrjaðir að lyfta. En heilt yfir verða menn sennilega í skýjunum, sama hvernig gengið verður, á meðan við erum í Bestu allavega," segir Aron Elí Sævarsson, fyrirliði Aftureldingar, við Fótbolta.net í dag.

Aron var spurður hvort að Mosfellingar væru komnir niður úr skýjunum eftir að hafa tryggt sér sæti í Bestu deildinni, í fyrsta sinn í sögunni, í haust. Aron skrifaði undir nýjan samning í Mosfellsbæ á föstudag, verður þar áfram næstu tímabilin.

Næsta tímabil uppskeran af vegferðinni
„Ég tók mér minn tíma í að hugsa mig um, þetta var ekkert alltof flókið, en ég vildi gefa mér smá tíma að melta síðasta tímabil og hvað ég vil gera á næstu árum; fyrst ég var samningslaus að nýta tímann aðeins í að hugsa."

„Ég hóf þessa vegferð með Aftureldingu, liðsfélögunum og Magga, ég kom fyrir fimm árum en vegferðin hefur verið í gangi kannski síðustu þrjú. Mér líður eins og ég sé að taka verðlaunin af þeirri vegferð með því að leiða liðið í Bestu deildinni."


Auðveldara að segja nei eftir að Birkir hætti
Fram kom að Aron hefði sagt nei við Val, uppeldisfélagið sitt. „Ég var búinn að hitta þá, heyra hvað þeir hefðu að segja og var með samningstilboð. Það var að einhverju leyti erfitt að segja nei, en miðað við stöðuna sem ég var búinn að koma mér sjálfur í hjá Aftureldingu þá gerði það einhvern veginn svarið auðveldara. Kannski líka að bróðir minn var að hætta, það hjálpaði aðeins."

„Það voru fleiri möguleikar í stöðunni, án þess að fara nánar út í það. Ég skoðaði í rauninni bara þessa tvo; Aftureldingu og Val."


Birkir Már Sævarsson er eldri bróðir Arons og var tímabilið í ár hans síðasta á Íslandi.

Meira spennandi að spila í Bestu deildinni
Aron Elí fór til Danmerkur snemma árs, spilaði æfingaleik með Næstved sem þá var í dönsku B-deildinni.
   15.01.2024 14:00
Skemmtilegra að mæta Lyngby en að spila í Boganum - „Er ekkert að fara fram úr mér"

„Það voru tvö félög sem höfðu áhuga á mér fyrir tímabilið 2024 á Íslandi. Ég var ekki að ýta aftur á hvort það væri áfram áhugi erlendis frá, enda meira spennandi að prófa spila í Bestu deildinni. Ég á ekki einn leik í Bestu, það hefur verið markmið lengi og þar voru bestu möguleikarnir."

„Ég fékk samningstilboð eftir veru mína úti, fór á reynslu og það gekk frekar vel, en ég neitaði boðinu. Það lið féll niður um deild og er núna að berjast um að komast aftur upp úr C-deildinni. Ég var á samningi þá hjá Aftureldingu og það hefðu nokkrir hlutir þurft að ganga upp svo þetta færi í gegn. Það var ákveðin klásúla í samningnum við Aftureldingu sem hefði þurft að uppfylla. Samningstilboðið var svo, burtséð frá því, líka svolítið frá því sem ég var að hugsa."


Hljómar ansi vel, en líka skringilega
Hvernig hljómar það að spila með Aftureldingu í efstu deild?

„Það hljómar dálítið skringilega, maður er alinn upp í Val og sá klúbbur er alltaf í efstu deild. Maður heyrir alltaf hvaða lið eru að spila á móti Val og það passar kannski ekki alveg í hugsuninni fyrir litla mig að vera að spila með Aftureldingu í þessari deild. Mér finnst það samt hljóma ansi vel, klúbburinn hefur sýnt - varð bikarmeistari í handbolta - að við getum alveg verið að keppa við öll þessi félög. Það er bara kominn tími á að Afturelding spili í efstu deild á móti öllum stærstu liðunum."

Væri heiður að spila fyrir Val
Leitar hugurinn í að spila með Val í meistaraflokki áður en ferlinum lýkur?

„Það er eitthvað sem ég mun skoða í framtíðinni. Maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast. Maggi og Afturelding hafa alltaf vitað að ég kom úr Val og það hefur alltaf verið klúbbur sem ég ætlaði að spila fyrir. Hlutirnir breytast og ég mun bara sjá til þegar þar að kemur, ég reyni oftast að hugsa ekki of langt fram í tímann, einbeiti mér að því sem ég er með á borðinu og er að vinna að."

„Það væri heiður að spila með Val í framtíðinni,"
segir Aron Elí.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner