Bayern og Real vilja Dalot - Liverpool að vinna í Kerkez - Newcastle ætlar að reyna við Delap
   mið 12. mars 2025 12:36
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ánægður með komu Lundemo - „Kerfi sem við teljum að henti okkur vel"
Túfa tók við Val í ágúst í fyrra og er á leið í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari liðsins.
Túfa tók við Val í ágúst í fyrra og er á leið í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marius Lundamo samdi við Val í vikunni. Hann er fyrrum leikmaður Lilleström, APOEL og Rosenborg.
Marius Lundamo samdi við Val í vikunni. Hann er fyrrum leikmaður Lilleström, APOEL og Rosenborg.
Mynd: Valur
'Gott að hann er kominn til baka og á fullt'
'Gott að hann er kominn til baka og á fullt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norski miðvörðurinn Markus Nakkim samdi við Val í vetur.
Norski miðvörðurinn Markus Nakkim samdi við Val í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðinn Hólmar Örn er mættur til baka eftir að hafa glímt við meiðsli.
Fyrirliðinn Hólmar Örn er mættur til baka eftir að hafa glímt við meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Heimis er mættur aftur í Val eftir eitt tímabil með Þór.
Birkir Heimis er mættur aftur í Val eftir eitt tímabil með Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjamaðurinn Tómas Bent samdi við Val í vetur.
Eyjamaðurinn Tómas Bent samdi við Val í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það eru frábærir vellir hérna og stemningin mjög góð eins og venjan er í æfingaferðum," sagði Srdjan Tufegdzic, Túfa, þjálfari Vals, við Fótbolta.net eftir fyrri æfingu Vals á Spáni í gær.

Þjálfarinn ræddi um stöðuna á Val, leikmannahópinn og ýmislegt annað nú þegar um þrjár vikur eru í að Besta deildin fari af stað. Hann er að endurheimta leikmenn úr meiðslum og er ánægður með stöðuna á hópnum.

„Það eru langflestir orðnir heilir, Jakob Franz er sá eini sem er aðeins á eftir þar sem hann fór í aðgerð í lok janúar. Hann tekur þátt í hluta af æfingum liðsins og ég vona að það séu bara nokkrir dagar í að hann fari að æfa 100% með liðinu. Siggi Lár er búinn að vera aðeins inn og út, smá vesen í baki og mjöðm og Aron missti aðeins út eftir leikinn gegn Vestra. Það eru bara lítil meiðsli sem fylgja undirbúningstímabili. Ögmundur er byrjaður að æfa núna á fullu og spilaði fyrri hálfleikinn gegn HamKam sem er mikil gleði fyrir okkur. Gott að hann er kominn til baka og á fullt."

„Tryggvi og Lúkas eru komnir á fullt, sama með Hólmar og Kidda. Þetta er allt á réttri leið."

„Mér finnst núna, síðustu 2-3 vikur, við hafa náð að þjappa okkur vel saman og nánast allir farnar að æfa á fullu. Þá gerast góðir hlutir. Við erum búnir að leggja gríðarlega mikla vinnu á okkur, sérstaklega í janúar og febrúar þar sem við æfðum tvisvar á dag. Leikmenn sem hafa verið að koma til baka hafa lagt mikið á sig og starfsfólkið líka."

„Ég tel að við eigum mikið inni, þetta er bara rétt að byrja hjá okkur. Þegar undirbúningstímabilið okkar var að byrja og í fyrstu leikjunum þá vorum við án 7-10 leikmanna, eiginlega fleiri í Lollastúku heldur en inn á vellinum."

„Mér finnst við stöðugt hafa tekið lítil skref fram á við í rétta átt og stefnan er að halda því áfram. Það er mikil vinna framundan,"
sagði þjálfarinn.

Tækifæri fyrir hann að upplifa eitthvað nýtt
Valur krækti í öflugan leikmann í vikunni. Marius Lundemo, sem síðast lék með Lilleström í Noregi, samdi við félagið. Lundemo er 31 árs djúpur miðjumaður sem varð á sínum tíma norskur meistari í tvígang með Rosenborg.

„Hann er einn af nýju leikmönnunum sem við höfum fengið eftir að síðasta tímabil kláraðist, allt leikmenn sem tikka í okkar box. Við lögðum mikla áherslu að setja upp hvernig leikmenn við vildum fá og hann passar inn í það. Hann er fyrst og fremst góður fótboltamaður, með mikla reynslu á háu getustigi. Hann var t.d. í Rosenborg þar sem hann vann titla. Hann kemur inn með sigurhugarfar inn í liðið og er frábær karakter. Við unnum mikla vinnu í að kynna okkur hann og fengum jákvæð svör frá fyrrum þjálfara og samherjum. Eftir að hafa tekið þessa ákvörðun að koma til okkar er hann mjög mótiveraður."

„Þetta var ein staða á vellinum sem við vildum styrkja. Hann kom í gær og æfði í dag í fyrsta skipti með liðinu, mjög flott að hann hafi náð að koma inn í æfingaferðina okkar þar sem leikmenn eru saman allan daginn. Það hjálpar honum að komast sem fyrst inn í hópinn og ná að kynnast leikmönnum og starfsfólkinu. Ég er mjög ánægður að fá hann, frábær karakter og flottur leikmaður."


Af hverju er leikmaður eins og hann, sem var orðaður t.d. við önnur félög í norsku úrvalsdeildinni, að koma í Val?

„Leikmenn á hans aldri, með hans feril, eru stundum að bíða eftir einhverju stóru tækifæri t.d. í Asíu eða í Bandaríkjunum. Þeir eru kannski ekki tilbúnir strax að semja við hvaða lið sem er í sama landi og þeir hafa verið. Við höfum verið í sambandi við hann og verið þolinmóðir þar til þetta allt púslaðist saman og allir aðilar voru ánægðir með að þetta yrði lendingin. Þetta er líka tækifæri fyrir hann að upplifa eitthvað nýtt, kemur inn í topplið á Íslandi."

„Við erum með annan Norðmann í hópnum og einn frá Svíþjóð. Það hjálpar til að vera með aðra sem tala sama tungumál og búa yfir svipaðri reynslu. Það hjálpar til, þeir geta vonandi verið eitthvað saman utan æfinganna. Ég þekki þetta sjálfur frá mínum tíma sem erlendur leikmaður á Íslandi, það hjálpar að vera með einhverjar tengingar og maður kemst þannig fljótar inn í samfélagið og kúltúrinn."


Þarf að tikka í öll box
Eftir komu hans, eruð þið þá sáttir eða eruð þið að leita að fleiri leikmönnum?

„Við erum í rauninni búnir að vera sáttir frá fyrsta degi. Við vildum að þeir leikmenn sem við fengjum myndu tikka í þau box sem við töldum þurfa. Númer eitt, tvö og þrjú tengist það karakter og persónuleika - og að sjálfsögðu þurfa þessir leikmenn að hafa nægileg gæði til að spila með Val."

„Við vildum fá inn hungur í hópinn og hvatningu á þá leikmenn sem voru fyrir með því að fá inn nýja öfluga leikmenn. Markus Nakkim og Marius Lundemo eru búnir að spila á hæsta leveli í Noregi og þeir koma með reynslu og fagmennsku inn í hópinn sem blandast við þá reynslu sem við höfðum fyrir. Við töldum okkur þurfa að fá inn leikmenn til að styrkja varnarleikinn og þeir tveir búa líka yfir þeim kosti að gera leikmenn í kringum sig betri."

„Tómas Bent og Birkir Heimisson, sem komu fyrr í vetur, tikka líka í öll þau box sem við vorum að leita eftir. Mikil hlaupageta, góðir fótboltamenn og liðsmenn sem hafa tekið framförum í vetur. Við fengum svo unga stráka, Kristján Odd og Birki Jakob, sem búa yfir lítilli meistaraflokksreynslu en eru hæfileikaríkir. Þeir eru með hausinn rétt skrúfaðan á, mikill vilji til að bæta sig, æfa rétt, hlusta á og læra."

„Við erum ánægðir með hópinn, höldum öllu opnu. Við unnum okkar heimavinnu mjög vel áður en við sömdum við þá sem eru komnir og munum halda áfram að vinna mikla vinnu, sama hvort leikmenn koma í sumar eða næsta vetur. Við viljum gera hlutina rétt, fá réttu leikmennina sem passa inn í liðið og gera það betra."


Eru í þriggja miðvarða kerfi
Valsarar hafa spilað í þriggja miðvarða kerfi í vetur. Hver er hugsunin á bakvið það?

„Við fórum í vinnu í undirbúningnum fyrir tímabilið og hugmyndin á bakvið það er byggð á okkar greiningu eftir síðasta tímabil. Við teljum að þriggja miðvarða kerfi henti okkur vel og persónulega vil ég bara koma sem flestum leikmönnum í þeirra bestu stöður til að ná því besta úr þeim."

„Ég er ekki hrifinn af því að færa marga leikmenn til í liðinu, en veit að það þarf stundum að gera það ef það er mikið um meiðsli. Það er ekki tilvalið að vera með leikmenn sem eru t.d. frábærir í tíunni en eru allt í einu orðnir djúpir miðjumenn eða hafsent. Ég er ekki mikið fyrir það. Heilt yfir finnst mér við vera að taka lítil skref fram á við í öllu sem við erum að æfa."


Með þriggja miðvarða kerfum fylgja oftast vængbakverðir. Birkir Heimisson, sem spilar yfirleitt fyrir miðju á vellinum, hefur sem dæmi verið öðru hvoru megin í vængbakverði og leyst inn á völlinn. Eru Valsarar að skoða markaðinn í leit að vængbakvörðum?

„Með þá leikmenn sem við höfum þá finnst mér þetta kerfi henta okkur vel varnar- og sóknarlega. Hugsunin er bara að fá það besta út úr þeim leikmönnum sem við höfum."

„Í dag erum við ekki lengur með Vindinn, Birki Má, sem var að taka 100 spretti fram og til baka í leik, þurfum aðeins að breyta hlutum í okkar leik."

„Fram að móti erum við opnir varðandi möguleikann að fá inn nýja leikmenn en þeir leikmenn þurfa að tikka í öll box og gera liðið betra. Það er ekki þannig að við séum að leita að ákveðinni stöðu í dag."

„Mér finnst liðið flott, sérstaklega eftir að leikmenn eru byrjaðir hægt og rólega að koma til baka eftir meiðsli. Það er mikil stemning í hópnum og mikið hungur. Hingað til er ég ánægður með þá sem hafa spilað leikina og við eigum ennþá inni frá þeim sem eru að koma til baka úr meiðslum,"
sagði Túfa.

Framundan hjá Val er undanúrslitaleikur í Lengjubikarnum gegn ÍR næsta þriðjudag. Fyrsti leikur í Bestu deildinni verður svo 6. apríl á heimavelli gegn Vestra.
Athugasemdir
banner
banner
banner