„Tilfinningin er fyrst og fremst mjög góð. Skrítið líka því þetta var ekki alveg partur af handritinu. Maður vildi fara aftur út og sanna sig en svo kom einhver stuttur aðdragandi í janúar þar sem Skaginn vildi fá mig alveg yfir. Ég tók fund með umboðsmönnunum og við töldum þetta best fyrir minn feril. Það er fyrst og fremst mjög gott að koma aftur heim," segir Haukur Andri Haraldsson sem er mættur aftur heim á Akranes eftir dvöl hjá Lille í Frakklandi.
ÍA keypti Hauk Andra aftur heim fyrir um tveimur vikum síðan. Haukur er uppalinn hjá ÍA en þessi 19 ára gamli leikmaður gekk til liðs við Lille frá ÍA árið 2023. Hann spilaði með U19 liði félagsins áður en hann snéri aftur á láni til ÍA síðasta sumar.
Hann hafði skrifað undir nýjan samning við Lille um leið og hann kom á láni til ÍA en hann hefur ákveðið að snúa alfarið til liðs við félagið.
Var það erfið ákvörðun að fara frá Lille?
„Já og nei. Þetta er mjög hart umhverfi og mikil samkeppni. Það er erfitt að búa þarna. Maður vildi innst inni sanna sig, fara aftur út þegar lánssamningur rann út. En eftir þennan fund með umboðsmönnunum þá tók ég þessa ákvörðun og ég stend með henni. Ég held að þetta sé góð ákvörðun."
„Af hverju telurðu að það sé best að koma heim á Akranes á þessum tímapunkti?
„Ég var kannski ekki alveg að fara að fá margar mínútur í Frakklandi og ég vonaðist eftir. Fyrsta árið var smá vonbrigði. Maður spilaði mikið með U19 liðinu þegar maður átti að spila með varaliðinu. Mjög lærdómsríkt ár samt að baki. Þetta snerist fyrst og fremst um spilatíma. Ég vil halda áfram að þróa minn leik og ég tel að ég fái töluvert fleiri mínútur með ÍA en varaliði Lille. Það er líka kannski aðeins stærra svið að vera í Bestu deildinni en í einhverri 5. deild með varaliði í Frakklandi. Ég vil að mér líði aftur vel að spila fótbolta og fá að spila, það er mikilvægast," segir Haukur.
Erfitt en lærdómsríkt
Haukur fer ungur í erfitt umhverfi í akademíu í Frakklandi. Þarna eru ekki allir vinir þar sem samkeppnin um að komast lengra er gríðarleg.
„Þetta var mjög erfitt. Það kom virkilega á óvart hversu erfitt þetta var. Maður var mjög ungur. Þetta tækifæri kom upp úr þurru og ég var aldrei að fara að segja nei við því. Eftir að maður prófaði þetta kom það virkilega á óvart hversu erfiður heimur þetta er, sérstaklega í akademíubolta í Frakklandi," segir Haukur.
„Þetta var mjög lærdómsríkt ár og ég veit núna hverju ég á að búast við ef annað tækifæri kemur upp."
Í akademíunni var nánast engin enska töluð, bara franska, og þurfi Haukur því að vera fljótur að læra.
„Þetta var svona 'allir fyrir sjálfan sig' umhverfi. Það hjálpaði líka ekki að það var nánast engin enska töluð. Það var bara franska. Maður þurfi að aðlagast því. Í Frakklandi eru þetta 'allir fyrir sjálfan sig' og mjög erfitt að komast þarna í gegn," segir Skagamaðurinn ungi sem lærði mikið í þessu erfiða umhverfi.
„Maður er mun sterkari og reynslumeiri eftir þennan tíma."
Ætlar ekkert að stoppa
Haukur segir að markmiðið sé að koma heim og standa sig vel. Svo er draumurinn að fara aftur út.
„Það er alltaf markmiðið. Maður er kominn heim og ætlar ekkert að stoppa. Ég ætla að komast aftur út, hvort sem það er eftir tímabilið núna eða næst. Maður verður líka að velja rétt núna og taka rétt skref," segir Haukur.
Það eru spennandi tímar framundan á Skaganum.
„Ég er mjög bjartsýnn miðað við hvernig okkur gekk á síðasta tímabili. Við vorum spútnikliðið í deildinni. Ég er mjög bjartsýnn og mér líst mjög vel á liðið sem við erum með. Ég held að þakið sé mjög hátt hjá okkur í sumar og við ætlum okkur stóra hluti," sagði hann að lokum.
Í viðtalinu að ofan ræðir Haukur meira um tíma sinn í Frakklandi og framhaldið á Skaganum. Hann ræðir líka svolítið um bróður sinn, Hákon Arnar, sem leikur með aðalliði Lille.
Athugasemdir