Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
   þri 06. ágúst 2024 11:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Virkilega krefjandi ár í Frakklandi - „Vonandi kemur annað tækifæri"
'Þetta er alls ekkert búið, ég held áfram á mínu striki og held áfram að sanna mig'
'Þetta er alls ekkert búið, ég held áfram á mínu striki og held áfram að sanna mig'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur á að 16 leiki fyrir yngri landsliðin, þar af komu tveir með U20 landsliðinu í mars.
Haukur á að 16 leiki fyrir yngri landsliðin, þar af komu tveir með U20 landsliðinu í mars.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
'Maður þarf að vera bjartsýnn'
'Maður þarf að vera bjartsýnn'
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fór með U19 til Möltu í fyrra og tók þar þátt í lokamóti U19.
Fór með U19 til Möltu í fyrra og tók þar þátt í lokamóti U19.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
'Það var því ekki mikið sem maður gat gert, var því aðallega inn á mínu herbergi'
'Það var því ekki mikið sem maður gat gert, var því aðallega inn á mínu herbergi'
Mynd: Lille
'Ég var mjög heppinn að hafa Hákon með mér'
'Ég var mjög heppinn að hafa Hákon með mér'
Mynd: Getty Images
'Markmiðið hjá mér er allavega að koma heim, sýna hvað ég get og gera allt sem ég get svo ÍA nái eins góðum árangri og hægt er'
'Markmiðið hjá mér er allavega að koma heim, sýna hvað ég get og gera allt sem ég get svo ÍA nái eins góðum árangri og hægt er'
Mynd: Lille
Markmiðið hjá Hauki er svo að mæta aftur til Frakklands og stimpla sig inn sem lykilmaður í varaliði Lille.
Markmiðið hjá Hauki er svo að mæta aftur til Frakklands og stimpla sig inn sem lykilmaður í varaliði Lille.
Mynd: Lille
'Ég hlakka til að spila aftur í gulu og svörtu'
'Ég hlakka til að spila aftur í gulu og svörtu'
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Tilkynnt var um heimkomu á Akranes í lok síðasta mánaðar; Haukur Andri Haraldsson er mættur aftur í ÍA og mun leika með liðinu á láni frá Lille næsta árið.

Haukur er fæddur árið 2005 og var hluti af U19 landsliðinu sem fór á lokamót EM í fyrra. Hann var keyptur síðasta sumar til franska félagsins Lille. Hann er miðjumaður sem verður 19 ára seinna í þessum mánuði. Hann ræddi um heimkomuna við Fótbolta.net.

„Það er alltaf gott að vera kominn, en það er samt skrítið að vera mættur aftur og þurfa sanna sig aftur í mínum heimaklúbb. Ég hlakka til að spila aftur í gulu og svörtu," segir Haukur.

Eru einhver vonbrigði að vera kominn aftur á sama stað árið síðar?

„Ég vildi náttúrulega halda áfram úti, en þetta var miklu erfiðara og meira krefjandi þarna úti heldur en ég bjóst við.Ég myndi ekki segja vonbrigði, það er bara gott að vera kominn aftur heim. Þetta er alls ekkert búið úti, ég held áfram á mínu striki og held áfram að sanna mig. Vonandi kemur bara annað tækifæri úti í Frakklandi."

Sameiginleg ákvörðun
Hvernig þróast hlutirnir þannig að Haukur er kominn í ÍA?

„ÍA hætti aldrei að fylgjast með mér eftir að ég fór út. Þeir voru alltaf að tékka á mér og kanna hvernig mér liði. Svo komumst við; ég, Lille og ÍA, að samkomulagi um að ég færi aftur heim. Menn vildu ólmir fá mig aftur."

Varst þú að leitast eftir þessu sjálfur?

„Það voru eiginlega báðir aðilar (Lille og Haukur) um að þetta væri best fyrir mig. Þetta var mjög erfitt umhverfi fyrir mig úti, verandi ekki frönskumælandi og þeir lítið í enskunni. Það var sameiginleg ákvörðun að þetta væri besta skrefið fyrir mig."

Lánssamningurinn gildir í eitt ár. Hver er hugsunin á bakvið það?

„Ég kom í raun ekkert að því, það var bara samkomulag milli Lille og ÍA. Þetta varð bara niðurstaðan og ég er sáttur með hana."

Haukur er nú genginn upp úr U19 liði Lille og er metið að best fyrir hans þróun sé að taka eitt ár á Íslandi.

Óheppinn með meiðsli strax í byrjun
Hvernig gekk að komast inn í franskan kúltúr og nýtt tungumál?

„Það var miklu erfiðara en ég bjóst við. Þegar ég heyrði fyrst að Lille vildi fá mig, þá var ég aldrei að fara segja nei við því og bara hoppaði á þetta tækifæri. Það kom mér svo virkilega á óvart hversu krefjandi þetta var. Það var mjög erfitt að venjast þessu. Öll akademían var eiginlega bara frönskumælandi og lítil enska töluð, ég var því eiginlega einn á báti í heilt ár; maður þurfti sjálfur að bjarga sér og finna út úr hlutum. Það var virkilega erfitt innan vallar sem og utan vallar."

„Já, ég fékk mjög mikið að spila með U19 liðinu, gekk mjög vel með þeim, en það var ekki markmiðið mitt að spila mikið með þeim. Ég var fenginn út til þess að spila með varaliðinu. Ég varð fyrir því óláni að meiðast eftir einungis tvær æfingar út af miklu álagi. Þeir voru þá á undirbúningstímabili en ég var að koma úr miðju tímabili með ÍA. Ég varð frá í tvo mánuði og því tók enn meiri tíma að venjast hlutunum."

„2005 árgangurinn er virkilega góður og þeir sáu mig ekki í hlutverki þar, vildu að ég myndi spila meira og ég var því færður niður í U19 liðið og myndi æfa með fram því með varaliðinu. Það svo sem endaði mjög vel, gekk vel og ég spilaði nánast allar mínútur með U19; fín lausn til að fá spila. Það hélt manni gangandi að vera að spila í hverri viku."


Erfitt en hjálpaði að hafa Hákon
Hversu erfitt var lífið utan fótboltans?

„Þetta var mjög erfitt, sérstaklega fyrtu fimm mánuðina. Ég fór beint inn á heimavist í akademíunni. Það voru mjög erfiðir fimm mánuðir. Akademían er staðsett úti í sveit og ekki mikið sem hægt er að gera í kring. Það var lítið hægt að gera nema reyna spjalla við hina í akademíunni, en það var mjög erfitt þar sem ég talaði mjög litla frönsku og þeir litla ensku. Það var því ekki mikið sem maður gat gert, var því aðallega inn á mínu herbergi."

„Ég var mjög heppinn að hafa Hákon með mér. Ég gat af og til farið með honum til Lille og heim til hans - gert eitthvað með honum. Það hjálpaði mjög mikið til að hafa hann með mér."


Hákon Arnar er eldri bróðir Hauks og er hann leikmaður aðalliðs Lille.

Meiri enska töluð í aðalliðinu síðast vetur
Akademían hjá Lille og aðalliðið, er þetta alveg aðskilið?

„Ég myndi segja að þetta sé sitthvort batteríið."

„Það er mjög lítið verið að sækja leikmenn í akademíuna sem eru ekki frönskumælandi. Ég held að ég hafi verið sá eini. Markmið akademíunnar er að þróa leikmenn og vona að þeir geti tekið skrefið upp í aðalliðið."

„Hjá aðalliðinu var mun meiri enska töluð á síðasta ári þar sem Fonseca var að stýra liðinu. Núna hefur það svo breyst eftir að það kom frönskumælandi þjálfari."


Fljótur að komast inn í fótboltamálið
Franskan hjá Hauki hefur snarbatnað.

„Ég var fljótur að pikka upp hluti því ég fór í einkakennslu og var alltaf í kringum hina leikmennina. Kennarinn var mjög góður og ég var fljótur að komast inn í hvað var verið að segja inn á vellinum og í klefanum. Ég skil frönskuna frekar vel, en það er ennþá vesen að tala hana."

Miklar kröfur
Hver er munurinn á því að vera leikmaður í akademíu Lille samanborið við að vera leikmaður ÍA?

„Þetta er allt annað dæmi. Það eru mjög miklar kröfur í Lille og þeir eru harðir á sínum prinsippum og hvernig fótbolta þeir vilja spila. Það er eiginlega alveg eins fótbolti spilaður frá U15 og upp í aðalliðið. Sama kerfið spilað og sami fótboltinn kenndur."

„Ég er búinn að læra mjög mikið af því að vera þarna. Þeir vilja eiginlega spila úr öllu og leysa pressu; óhræddir við að menn geri einhver mistök."


Átti að bæta líkamlegan styrk
Hvað segja menn við þig að þú þurfir að laga mest í þínum leik þegar þú komst út?

„Þeir voru alltaf að tala um líkamlega styrkinn; segja mér að ég þyrfti styrkja mig líkamlega og létu mig lyfta mjög mikið aukalega. Það var það helsta sem þeir vildu; að ég myndi styrkjast."

Sjá hvert það fleytir liðinu
Er skýrt hjá ÍA núna að markmiðið er Evrópusæti?

„Ég svo sem veit það ekki. Ég býst við því að markmiðið sé að vinna alla leiki og sjá hvað það fer með okkur. Markmiðið hjá mér er allavega að koma heim, sýna hvað ég get og gera allt sem ég get svo ÍA nái eins góðum árangri og hægt er."

Stefnir á að vera mikilvægur leikmaður í varaliðinu
Haukur kom í miðjum félagaskiptaglugga. Ef hann hefði komið um leið og glugginn opnaði þá hefði hann náð tveimur leikjum til viðbótar með ÍA.

„Það var alveg einhver pæling um að koma fyrr. Ég vildi klára tímabilið með Lille og ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Það gekk mjög vel með U19 liðinu."

Haukur framlengdi samning sinn við Lille fram á sumarið 2026. Hann mun því eiga eitt ár eftir af samningi sínum þegar hann fer út til Frakklands næsta sumar.

Þegar komið er að undirbúningstímabilinu fyrir tímabilið 2025/26. Hvar vilt þú þá vera?

„Ég vil þá vera í færi til þess að stimpla mig inn sem mikilvægur leikmaður í varaliðinu hjá Lille. Þannig sé ég þetta í dag. Eftir það þá vonandi fer ég upp í aðalliðið. Það er svo sem mjög bjartsýnt. Maður þarf að vera bjartsýnn," segir Haukur.

Hann er kominn með leikheimild fyrir leikinn gegn Vestra sem fram fer á miðvikudag. ÍA er sem stendur í 5. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá FH sem er í 4. sæti.
Athugasemdir
banner
banner