Tómas Ingi Doddason heiti ég og er United maður.
Ég las frétt Kolbrúnar Bergþórsdóttir “Gamall maður hættir í vinnu”. “Gamli maðurinn” í þessu tilfelli er Sir Alex Ferguson. Þar undrar Kolbrún sig á því af hverju karlkynsvinnufélagar hennar breyttust í “vælandi hjörð” þegar Sir Alex tilkynnti um brotthvarf sitt frá Leikhúsi Draumanna.
Kæra Kolbrún.
Ég skal útskýra fyrir þér af hverju þeir og ég, tökum þetta svona nærri okkur.
Ég fæddist 11.febrúar 1987, aðeins nokkrum mánuðum eftir að Sir Alex Ferguson tók við hjá Manchester United. Ég hef því ekki upplifað neitt annað en Ferguson við stjórnartaumana á Old Trafford. Ég hef alist upp við það að horfa á United með pabba og bræðrum mínum hverja helgi. Þetta er eitthvað sem við eigum saman feðgarnir og getum alltaf talað um. Jafnvel þótt eitthvað bjáti á, þá höfum við alltaf United. Pabbi minn les mikið og hefur honum, þrátt fyrir að sjá hvern einasta United leik, tekist að sameina þetta tvennt. Eitthvað sem að á ekki að vera hægt samkvæmt þínum kokkabókum.
Leikmenn hafa komið og farið, en Sir Alex hefur alltaf verið til staðar. Hann hefur stjórnað með harðri hendi í 26 ár. Hann hefur unnið allt sem hann getur unnið, búið til einhverjar stærstu stjörnur sem fótboltinn hefur kynnst, og skilur eftir sig met ofan á met sem að verða aldrei slegin.
Hann gefur sér einnig alltaf tíma til þess að gefa aðdáendum eiginhandaráritanir og sinnir aðdáendum liðsins vel. Hann hefur í öll þessi ár lifað sig inn í hvern einasta leik. Hann fagnar hverju einasta marki innilega og samt kominn á áttræðisaldurinn. Það er þessi ástríða sem hann hefur fyrir leiknum sem að smitar út frá sér og gerir það ómögulegt fyrir aðra að kunna illa við hann.
Enda segja allir það sem tengjast knattspyrnu á einhvern hátt (nema einn spænskur staðreyndarmaður) að hann sé einhver mesti toppmaður og þjálfari sem að fótboltinn hefur átt. Hann er dáður og elskaður út um allan heim og örugglega á fáum stöðum jafn mikið og á mínu heimili. Hann er án efa hluti af fjölskyldunni.
Þannig að já, Kolbrún, ég tók þetta nærri mér. Enda þýðir þetta að stór hluti af mínu lífi breytist. Ég er hræddur við framhaldið og ég veit að ég er ekki einn um það.
Ég er ekkert reiður út í þig og ég ætla ekki að reyna að koma með eitthvað sambærilegt dæmi sem að þú getur tengt þetta við, enda þekki ég þig ekki neitt.
Ég er ekki að reyna að hefja eitthvað stríð við alla sem hata fótbolta eða skilja ekki þessa umræðu.
Ég hef gert mitt besta að útskýra fyrir þér af hverju þetta er okkur svona mikilvægt. Leyfðu okkur núna að kveðja fjölskyldumeðliminn í friði.
Með vinsemd og virðingu
Tómas Ingi Doddason
Athugasemdir