Fótbolti.net ræddi við Pál Kristjánsson og spurði hann út í þjálfaramál KR. Páll er formaður knattspyrnudeildar félagsins.
„Við erum að flýta okkur hægt og vanda okkur. Það verða einhverjar fréttir á næstu tveimur vikum eða svo," sagði Palli. „Við erum með ákveðinn lista og erum að hlera menn."
Verður yfirmaður fótboltamála
Er KR að fara í það að vera með yfirmann fótboltamála?
„Það gæti orðið, við erum bara að skipuleggja okkar starf í rólegheitum. Við ætlum að gefa okkur nokkrar vikur í að endurskoða hlutina. Við erum að reyna betrumbæta okkur í þeim efnum."
Geta ekki beðið of lengi
Er eitthvað að frétta í leikmannamálum, eða bíður það eftir þjálfararáðningu?
„Ekkert beint, ég hugsa að það muni eitthvað gerast í þeim efnum á næstu 2-3 vikum líka."
„Auðvitað skiptir máli þegar leikmenn eru að melta hvort þeir vilji koma til félags, þá vilja þeir vita hver er þjálfari. Við getum ekki beðið of lengi."
Nokkrir menn á lista
Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur verið orðaður við starf hjá KR og mikið hefur verið rætt um Óskar Hrafn Þorvaldsson varðandi þjálfarastarfið hjá KR.
„Við höfum listað upp nokkra menn og verið í sambandi við nokkra," sagði Palli aðspurður um Sigga Ragga.
„Ég held að það sé ekkert leyndarmál að Óskar er alltaf velkominn í Vesturbæinn," sagði formaðurinn að lokum.
Athugasemdir