Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 15. maí 2019 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Halldór Orri: Alveg sama hvað aðrir segja
Halldór Orri fagnar einu af mörkum sínum í sumar.
Halldór Orri fagnar einu af mörkum sínum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH-ingar fara á Skagann í kvöld og heimsækja þar ÍA í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar.

Halldór Orri Björnsson er einn af markahæstu leikmönnum deildarinnar en hann skoraði tvö mörk í 3-2 sigri liðsins á KA í síðustu umferð.

Hann var í símaviðtali í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu síðasta laugardag. Þar var hann til að mynda spurður út í hlutverk hans í leiknum gegn KA þar sem hann var fremstur á vellinum og byrjun hans á tímabilinu.

„Maður hefur ekki oft spilað þarna en þó eitthvað. Þetta var taktískt hjá Óla. Það er gaman að vera þarna frammi og þetta er auðvitað algjör lúxus staða þarna frammi. Maður þarf ekkert að hlaupa neitt," sagði Halldór Orri á léttu nótunum og hélt áfram.

„Það var skemmtilegt að prófa þetta og þetta gekk nokkuð vel."

Hann segir að Óli hafi tilkynnt sér það daginn fyrir leik að hann myndi spila fremstur í leiknum gegn KA.

„Við fórum vel yfir þetta á æfingunni fyrir leik og Óli fór yfir hvernig hann vildi að ég myndi spila. Það heppnaðist heilt yfir fannst mér nokkuð vel," sagði Halldór Orri sem skoraði eins og fyrr segir tvö mörk. Hann hefði viljað skora fleiri.

„Þau hefðu mátt vera þrjú en ég kvarta ekki. Það var gaman að geta skorað tvö mörk."

Fyrir tímabilið hafði Halldór Orri ekki enn náð að skora mark fyrir FH.

„Ég var meðvitaður um það að ég ætlaði að breyta því á þessu tímabili. Það er gaman að vera kominn með þrjú mörk í fyrstu þremur umferðunum og ná að hjálpa liðinu á sama tíma."

FH-liðið hefur byrjað tímabilið vel, eru með sjö stig eftir þrjár umferðir og unnu Val í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Hann segir að það sé heilt yfir miklu meiri gleði í hópnum miðað við síðasta tímabil. Það sé að skila betri árangri.

„Hjá mér persónulega er maður farinn að vera alveg sama hvað aðrir segja. Ég hef kannski verið að hugsa of mikið um hvað aðrir segja. Ég hef hætt að pæla of mikið í hlutunum. Síðan um leið og maður byrjar að skora þá kemur sjálfstraustið með."

„Það er miklu betri stemning í hópnum og svo erum við komnir með þrjá vitleysinga aftur í hópinn. Það var mjög mikilvægt að fá svona gamla FH-ing aftur heim. Í fyrra vorum við með rosalega stóran hóp og kannski með of mikið af erlendum leikmönnum eftir á að hyggja. Það er gleði yfir þessu núna og við þurfum að halda áfram á sömu braut," sagði Halldór Orri.

Viðtalið í heild sinni við Halldór Orra má hlusta á hér

Leikir 4. umferðar:
KA - Breiðablik (19:15 í kvöld)
ÍA - FH (19:15 í kvöld)
Víkingur R. - Stjarnan (19:15 í kvöld)
HK - ÍBV (18:45 á fimmtudag)
Fylkir - Valur (19:15 á fimmtudag)
Grindavík - KR (19:15 á fimmtudag)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner