Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   lau 15. júní 2013 12:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Velkomnir í hópinn Fylkismenn
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Gunnar Gunnarsson.
Gunnar Gunnarsson.
Mynd: KOX
Úr leik hjá Fylki.
Úr leik hjá Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri fagnar marki.
Sindri fagnar marki.
Mynd: Gunnar Stígur Reynisson
Ánægjulegt að fá Fylki í lið með okkur til að vekja athygli á ferðakostnaði íþróttafélaga. Við höfum barist fyrir því að Alþingi standi við gefin fyrirheit um framlög í ferðasjóð íþróttahreyfingarinnar og fögnum hverjum þeim sem leggst á árarnar með okkur.
Fótbolti.net greindi frá því í víkunni að leikmenn karlaliðs Fylkis í knattspyrnu þyrftu sjálfir að borga hluta af fargjaldinu bikarleik gegn Sindra á Höfn. Valið stóð á milli tíu tíma rútuferðar fyrir 335 þúsund eða skottúrs með flugi á 690 þúsund.

Haft er eftir leikmanninum Tryggva Guðmundssyni að þeir hafi valið flugið til að geta undirbúið sig betur fyrir leikinn. Talsmenn liðsins tala um „erfiðan rekstur“ og „mikið peningaleysi.“

Flugferðin til Hafnar er Fylkismönnum ekki auðveld. Erfitt er að koma hópnum öllum fyrir í einni vél úr flota Ernis sem flýgur þangað. Ekki er heldur sérsamningur um afsláttarkjör íþróttafólks við Erni líkt og við Flugfélag Íslands.

Ekki gaman fyrir gjaldkerann
Reglugerð KSÍ um bikarkeppnina ætti að hjálpa. Tekjur af útsendingarétti og aðgöngumiðum skiptast jafnt á milli liðanna. Liðin deila líka með sér fargjaldi gestaliðsins, fyrir allt að 22 menn. Gestaliðið skal gæta hagkvæmni í ferðakostnaði.
Reglan þýðir að þótt gaman sé að fá stóru liðin að sunnan í heimsókn er það ekki endilega gaman fyrir gjaldkera heimaliðsins. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið frá Höfn gæti Sindri tapað meira á leiknum þegar uppi verður staðið heldur en Fylkir.

Fjórir útileikir fyrir tvær milljónir
Við vitum að ferðalög eru dýr og erfitt að reka íþróttalið. Því höfum við fulla samúð með Fylkismönnum þegar við bætist aukaferð.
Fjárhagsáætlun sumarsins hefur væntanlega gert ráð fyrir þremur ferðum í úrvalsdeild karla: til Akureyrar, Ólafsvíkur og Vestmannaeyja. Liðið leikur einnig í Keflavík og á Akranesi en aðrir deildarleikir eru á höfuðborgarsvæðinu.
Gefum okkur að Fylkismenn fljúgi norður og suður en keyri vestur. Miðað við verðskrá Ernis til Eyja, listaverð á rútu til Ólafvíkur og ÍSÍ fargjald til Akureyrar er ferðakostnaður Fylkis í leikina þrjá 1,3 milljónir króna. Ef við bætum fluginu í bikarleikinn við kosta ferðir sumarsins tvær milljónir.

Átta ferðir í kringum landið
Í annarri deild karla sækir Sindri níu leiki á suðvesturhornið, einn til Dalvíkur og annan í Egilsstaði. Miðað við að þeir keyri í alla leikina, nema einn, á Fylkistaxta er ferðakostnaðurinn 3,35 milljónir króna. Ef þeir færu í Fylkisflugið væri kostnaðurinn 6,2 milljónir.
Flugið í leikinn er lúxusvandamál. Að afreksmennirnir geti kosið þá leið til að vera úthvíldari fyrir leik. Þegar þú þarf að fara ellefu langferðir, 10.500 km í Íslandsmóti, er lítið svigrúm í eina flugferð. Það eru átta ferðir um Hringveginn. Skreppitúr Sindra, í Egilsstaði, er álíka löng og „langferð“ Fylkismanna til Ólafsvíkur.
Og hér erum við bara að ræða um meistaraflokk karla í Íslandsmóti. Sindri tekur þátt í fleiri mótum með fleiri flokka. Hornfirðingar hafa hins vegar reynt að vera séðir, ferðast um í tveimur kálfum og keyra í alla leiki.

Samkeppnisgrundvöllurinn
Höttur spilar í sömu deild og Sindri og hefur vart aðra kosti en að fljúga í leikina níu á höfuðborgarsvæðinu. Ferðakostnaður meistaraflokks í sumar er áætlaður 5,5 milljónir króna. Fluggjöld eru 80% kostnaðarins.
Það skyldi þó ekki vera að milljónamunurinn á ferðakostnaði Fylkis annars vegar og Sindra og Hattar hins vegar sé hluti af ástæðunni fyrir að Fylkir spilar í úrvalsdeild en Sindri og Höttur í annarri deild?

Gunnar Gunnarsson
Höfundur er formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA)

Athugasemdir
banner
banner
banner