Argentína 1 - 0 Kólumbía
1-0 Lautaro Martínez ('112 )
1-0 Lautaro Martínez ('112 )
Argentína er meistari í Copa America í annað sinn í röð eftir að þjóðin vann Kólumbíu, 1-0, eftir framlengdan leik í Miami í Flórída-ríki í Bandaríkjunum í nótt.
Kólumbíumenn voru spenntir að spila sinn fyrsta úrslitaleik síðan 2001 og sást það strax í byrjun leiks.
Luis Díaz átti fyrstu tilraun á markið sem Emiliano Martínez var ekki í miklum vandræðum með en það var Jhon Cordoba sem fékk bestu tilraun kólumbíska liðsins er hann fékk boltann við vítateigslínuna en skot hans hafnaði í stöng og út af.
Argentínumenn unnu sig betur inn í leikinn þegar á leið og átti Lionel Messi fínustu tilraun á 20. mínútu en tókst ekki að skora.
Jefferson Lerma átti hörkutilraun rétt fyrir utan teig á 33. mínútu en Martínez varði boltann aftur fyrir. Boltinn var líklega á leið í stöng en Martínez tók enga sénsa.
Nokkrum mínútum síðar meiddist Messi eftir tæklingu Santiago Arias en náði að halda leik áfram nokkrum mínútum síðar.
Markalaust í hálfleik en Argentínumenn komu ákveðnir inn í þann síðari.
Angel Di María var nálægt því að skora á 57. mínútu er hann keyrði inn í teiginn, en Camilo Vargas varði lúmskt skot Di María.
Þegar rúmur klukkutími var liðinn þurfti Messi að fara af velli vegna meiðsla. Hann missteig sig er hann hljóp á eftir leikmanni Kólumbíu. Annað sinn sem hann lagðist í grasið og í þetta sinn gat hann ekki haldið leik áfram. Síðasta Copa America-keppni sem hann tekur þátt í og var sorgin bersýnileg í augum hans er hann settist á bekkinn.
Argentínumenn skoruðu þegar fimmtán mínútur voru eftir en rangstaða dæmd þar sem Nicolas Gonzalez var fyrir innan í aðdraganda marksins. Rétt ákvörðun hjá aðstoðardómaranum sem flaggaði.
Meistararnir frá 2021 voru líklegri til sigurs síðustu mínúturnar en nýttu ekki færin. Sama sagan var í framlengingunni eða fram að 112. mínútu.
Giovani Lo Celso sendi Lautaro Martínez í gegn sem skoraði með laglegri afgreiðslu. Fimmta mark hans í keppninni en hann endaði markahæstur í ár.
Kólumbíumenn vildu fá vítaspyrnu í uppbótartíma framlengingar er leikmaður liðsins var tekinn niður þegar há sending kom inn í teiginn en VAR sagði einfaldlega nei. Annað sinn í leiknum sem Kólumbíumenn vildu fá víti.
Argentína hélt út og er meistari í annað sinn í röð. Þetta var sextándi titillinn í sögunni og eru Argentínumenn áfram sigursælasta landslið Suður-Ameríku.
Athugasemdir