Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
banner
   mán 16. mars 2020 16:52
Sverrir Örn Einarsson
Haraldur Haralds: Félög í greiðsluvanda strax um mánaðamót
Haraldur Haraldsson
Haraldur Haraldsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er óhætt að segja að fordæmalausar aðstæður ríki í íslensku samfélagi sem og á heimsbyggðinni allri þessa daganna vegna covid-19 veirunar. Hverri deildinni á fætur annari hefur verið frestað vegna smithættu og ljóst að knattspyrnufélög víðs vegar um heiminn verða af gríðarlegum tekjum á hverjum degi. Ísland er þar ekki undanskilið og þótt mótið hér sé ekki hafið hefur veiran þegar haft gríðarlegar afleiðingar á rekstur knattspyrnudeilda íþróttafélaga og ljóst að staða margra félaga er mjög erfið. Fótbolti.net ræddi við Harald Haraldsson framkvæmdastjóra Víkings R og formanns ÍTF um stöðu mála.

„Nú eru félögin og ekki bara knattspyrnufélögin heldur allar greinar að verða af miklum tekjum af ýmsum viðburðum. Má þar nefna mótahaldi, herrakvöld, ársmiðasalan er í frosti og það er að setja félögin í mjög þung mál,“ sagði Haraldur.

Fyrirtæki geta ekki staðið við samninga
Covid-19 veiran er þó ekki eini sökudólgurinn á þeim erfiðleikum sem knattspyrnufélög á Íslandi standa frammi fyrir heldur hafa fyrirtæki haldið að sér höndum hvað varðar styrki til félaganna eins og fram kom í viðtali við Sævar Pétursson í útvarpsþætti Fótbolta.net síðastliðið haust og segir Haraldur það ekki hafa batnað.

„Veturinn hefur verið mjög þungur. Það hefur verið mikill niðurskurður í atvinnulífinu, uppsagnir og þess háttar svo bætist við núna þessi krísa og það er alveg ljóst að fyrirtæki mörg hver munu ekki geta staðið við samninga sína og að sækja frekari peninga til fyrirtækja lítur verulega illa út núna. Það stefnir í það að mörg félög verði komin í greiðsluvanda strax um næstu mánaðamót. “

Af orðum Haraldar má dæma að hann hafi gríðarlegar áhyggjur af rekstri íþróttafélaga á Íslandi og miklir erfiðleikar framundan.
„Eins og staðan er núna hefur orðið algjör forsendubrestur á rekstri knattspyrnudeilda á landinu og annara deilda klárlega líka. Það er alveg ljóst að það þurfa allir að gera sér grein fyrir þessu og snúa bökum saman.“

Fordæmi um ríkisstyrki
Það má vera ljóst að félögin eru í afar krappri stöðu og munu mörg hver eiga í gríðarlegum erfiðleikum ef ekkert verður að gert.

„Ríkisstjórnin mun kynna risapakka til hjálpar íslensku atvinnulífi í vikunni sem er frábært. Vonandi verður líka hugsað til íþróttahreyfingarinnar varðandi aðkomu að þeim vandamálum sem snúa að okkur. Gott dæmi um slíka aðkomu er að danska ríkisstjórnin setti á fót sjóð sem styrkir alla þá sem verða fyrir tekjutapi af þarlendu samkomubanni. Þar var íþróttahreyfingin frumkvöðull í því að þessi sjóður var settur á laggirnar. Sama hefur verið gert í Sviss en þar hefur ríkisstjórnin verið að styrkja íþróttafélögin vegna samkomubanns þannig að þetta er klárlega eitthvað sem íþróttahreyfingin þarf að ræða við ríkisvaldið. Félögin verða einnig að líta inn á við og skera niður kostnað og sýna frumkvæði þannig. Annars stefnir í það að það fari mjög illa en lykilatriði er að við þurfum að taka höndum saman og vinna í þessu í sameiningu. “
Athugasemdir
banner
banner
banner