Man Utd og Chelsea leiða baráttuna um 63 milljóna punda Gyökeres - United hefur áhuga á Goretzka og Sane - Samningi Neymar gæti verið rift
   mán 16. mars 2020 14:18
Magnús Már Einarsson
Kórónuveiran hefur gríðarleg áhrif - Íslensk félög gætu lent í vandræðum
Sævar Pétursson.
Sævar Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Ég get ekki annað séð en að hún muni hafa gríðarlega áhrif á rekstur íþróttafélaganna," segir Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, um áhrifin sem kórónuveiran mun hafa á rekstur knattspyrnuliða á Íslandi.

Sævar stakk niður penna á Twitter um helgina og viðraði áhyggjur sínar. Fótbolti.net ræddi málið við hann í dag.

„Félög munu missa tekjur, mikið af tekjum íþróttafélaga kemur frá öðrum viðburðum en kappleikjunum sjálfum eins og herrakvöldum, krakkamótum og svo styrktaraðilum félaganna."

„Mikið af þessum tekjum er í hættu í dag og mörg félög nú þegar að lenda í því að tekjur séu farnar að skerðast ásamt því að óvissa er um hvenær mótahald sumarsins mun byrja. Auk þess eru mörg félög með samninga sína við erlenda leikmenn í erlendri mynt og þar er kostnaður bara að aukast með hækkun á gengi."


Mun koma niður á mörgum félögum
Sævar segir að rekstur félaga sé mjög viðkvæmur og að samdráttur upp á 20-30% í tekjum geti haft alvarlegar afleiðingar.

„Rekstur 15 stærstu knattspyrnufélaganna er á árinu 2018 um 3,5 milljarðar króna. Samanlagður hagnaður þeirra var um 100 milljónir króna þannig að það sést strax að þetta er mjög viðkvæmur rekstur. Ef það verður síðan samdráttur í tekjum upp á 20-30% þá eru þessi félög komin um 600-900 milljónir króna í mínus. Íþróttir í dag eru orðin gríðarlega stór atvinnugrein á Íslandi og er það mitt mat að þær tekjur sem íþróttahreyfingin er að verða af núna sé eitthvað sem hún ræður ekki við, þetta mun koma niður á mörgum félögum og þeirra starfi."

Telur litlar líkur á að félög bæti við leikmannahópa
Sævar segir einnig að kórónaveiran þýði að ólíklegra sé að félög bæti við fleiri leikmönnum í leikmannahópa sína fyrir sumarið.

„Ég tel litlar líkur á því að félög mun bæta við leikmannahópana sína þó aldrei sé hægt að útiloka neitt í þeim efnum, en staðan er allt önnur í dag heldur en hún var bara fyrir nokkrum vikum," segir sævar.

„Félög munu þurfa að bregðast við á næstu vikum/mánuðum og skera niður hjá sér kostnað, þau geta ekki annað því miðað við þær tekjur sem félögin eru að verða af á þá gengur núverandi reikninstæmi ekki upp. Það er þó flókið þar sem félög hafa undirritaða samninga við bæði leikmenn og þjálfara en nokkuð ljóst að það verður mjög erfitt fyrir félög að standa við þá samninga miðað við það tekjutap sem sjáanlegt er í íþróttahreyfingunni."

Vonast eftir jákvæðni hjá yfirvöldum
Sævar kallar eftir því að yfirvöld hjálpi íþróttafélögum í þessum fordæmalausu aðstæðum. „Vonandi verða yfirvöld jákvæð í garð íþróttahreyfingarinnar líkt og hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur en þar hafa yfirvöld sett á laggirnar sjóði til að bregðast við tekjutapi í íþróttahreyfingunni," sagði Sævar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner