Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   þri 16. júlí 2024 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Katowice
Einkunnir Íslands: Er bara best í heiminum
Icelandair
Glódís var stórkostleg í kvöld, magnað verkefni hjá henni.
Glódís var stórkostleg í kvöld, magnað verkefni hjá henni.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Sveindís fagnar marki sínu í leiknum.
Sveindís fagnar marki sínu í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Emilía Kiær byrjaði sinn fyrsta landsleik.
Emilía Kiær byrjaði sinn fyrsta landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Ísland kláraði undankeppni EM 2025 með því að vinna 0-1 sigur gegn Póllandi á útivelli. Þær taka 13 stig í riðlinum og enda í öðru sæti á eftir Þýskalandi. Núna hefst undirbúningurinn fyrir EM.

Hér fyrir neðan má sjá einkunnir Fótbolta.net úr leiknum í kvöld.

Lestu um leikinn: Pólland 0 -  1 Ísland

Fanney Inga Birkisdóttir - 7
Hafði í raun lítið að gera, lítið sem ekki neitt. Smá í lokin og þá gerði hún mjög vel. Var traust að venju í rammanum.

Guðný Árnadóttir - 8
Virkilega góður leikur hjá Guðnýju, einn hennar besti með landsliðinu og þá sérstaklega seinni hálfleikurinn. Var frábær varnalega eftir leikhléið og ótrúlega dugleg.

Glódís Perla Viggósdóttir - 9
Var með góð tök á Ewu Pajor og átti eina frábæra tæklingu í fyrri hálfleiknum sem bjargaði marki. Átti svo aðra frábæra björgun þegar Pajor var að komast í dauðafæri í seinni hálfleik. Glódís skilar alltaf frammistöðu í hæsta klassa og þessi landsliðsgluggi var magnaður hjá henni. Maður er hlutdrægur en hún er bara besti miðvörður í heimi. Það getur eiginlega ekki annað verið.

Ingibjörg Sigurðardóttir - 7
Annar leikmaður sem átti frábært verkefni. Skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Þýskalandi og var góð í dag. Hefði mátt skila boltanum betur frá sér á köflum samt.

Guðrún Arnardóttir - 7
Kom aftur inn í vinstri bakvörðinn og leysti það verkefni vel að venju. Góð varnarlega og var um tíma okkar hættulegasti leikmaður sóknarlega. Var óheppin að skora ekki.

Selma Sól Magnúsdóttir - 6
Skilaði sínu bara vel. Átti fínar sendingar á bak við pólsku vörnina í fyrri hálfleiknum.

Alexandra Jóhannsdóttir - 7
Virkilega dugleg og vann margar tæklingar og einvígi fyrir íslenska liðið. Drífur íslenska liðið áfram með krafti sínum.

Hlín Eiríksdóttir - 6
Var dugleg en maður tók ekki mikið eftir henni sóknarlega í þessum leik.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir - 7
Var að tengja vel við Sveindísi og var óheppin að fá ekki eins og eina stoðsendingu í leiknum.

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir - 6
Var að byrja í fyrsta sinn fyrir Ísland. Kom sér í ágætis stöðu og færi en náði ekki að nýta það. Virkaði stressuð framan af en náði að vinna sig betur inn í leikinn eftir því sem leið á.

Sveindís Jane Jónsdóttir - 8
Tætti pólsku vörnina í sig þegar hún skoraði markið sem skildi liðin að. Frábær pressa og var mjög yfirveguð. Pólsku varnarmennirnir fá örugglega martraðir eftir fyrri hálfleikinn og þurfti að kippa einni þeirra út af í hálfleik þar sem hún réði ekkert við Sveindísi.

Varamenn:
Amanda Andradóttir - 7
Hildur Antonsdóttir - 6
Katla Tryggvadóttir - 7
Aðrar spiluðu ekki nóg til að fá einkunn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner