Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mið 16. ágúst 2017 12:15
Björn Már Ólafsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Síðasti keisari Rómarveldis
Björn Már Ólafsson
Björn Már Ólafsson
Totti kvaddur af liðsfélögum sínum.
Totti kvaddur af liðsfélögum sínum.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Totti í Evrópuleik 1996.
Totti í Evrópuleik 1996.
Mynd: Getty Images
Með fjölskyldunni.
Með fjölskyldunni.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Greinin birtist fyrst á Rómur.is

Þann 20. ágúst hefst ítalska deildin á nýjan leik. Sú breyting hefur hins vegar orðið á, að þetta verður í fyrsta skiptið í 25 ár sem Rómverjinn Francesco Totti verður ekki á meðal leikmanna.

Í Rómarveldi var til sérstök valdastaða sem bar nafnið Dictator. Einræðisherra. Staða sem skipað var í á tímum styrjalda eða þegar hætta steðjaði að. Þá þótti mikilvægt að einhver hefði vald til að taka skjótar ákvarðanir og leiða baráttuna gegn óvininum.

Eftir glæstan knattspyrnuferil sem gert hefur hann að dáðasta syni Rómarborgar lék Francesco Totti sinn síðasta leik fyrir Roma síðastliðið vor. Síðasti leikur hans var í raun frábær spegill á allan feril hans. Leikurinn var gegn Genoa og reyndist æsispennandi enda var mikið undir. Totti spilaði stórt hlutverk og stóð sig vel en þegar leikurinn var flautaður af þá var samt enginn áhorfandi almennilega sáttur. Enn eitt titillausa tímabilið var staðreynd og kveðjuræða Tottis var svo tilfinningaþrungin að meira að segja kaldrifjuðustu stuðningsmenn félagsins tóku til táranna og hávær ekkasogin mátti heyra langt út fyrir veggi Ólympíuleikvangsins.

Gömlu verkamannablokkirnar í Testaccio
Það var fátt sem benti til þess að Francesco Totti myndi verða þessi goðsögn í Rómarborg þegar hann var ungur. Hann var afskaplega feiminn sem strákur og það var ekki fyrr en hann gekk út á knattspyrnuvöllinn að hann gat tjáð sig almennilega. Hann fæddist árið 1976 og ólst upp í hinum eldgamla borgarhluta Rómar Porta Metronia. Fæðingarstaður hans er aðeins steinsnar frá hinum öllu þekktari borgarhluta Testaccio, sem er fæðingarstaður þjálfarans Claudios Ranieris og knattspyrnumannsins Luigi Di Biagio, á bökkum Tíber fljóts. Ekki verður endilega sagt að þau séu paradís fyrir upprenndi knattspyrnumenn, þessi gömlu verkamannahverfi í milljónaborg en hvað sem veldur þá komust þessir þrír kappar allir til metorða innan knattspyrnunnar.

Þótt þungamiðja ítalskra stjórnmála sé staðsett í Róm, þ.e. sjálft þinghúsið, þá má segja að Róm falli mitt á milli Norður-Ítalíu sem er efnahagsmiðstöð landsins og Suður-Ítalíu sem er öllu fátækari og frumstæðari. Ég var eitt sinn staddur í tungumálaskóla í Suður-Frakklandi, 15 ára gamall. Þar kynntist ég einni skólasystur minni. Hún var rómversk í húð og hár og nemandi í framhaldsskóla í Testaccio í Róm. Kynni hennar af mér hafa væntanlega verið kvöl og pína fyrir hana sem hafði engan áhuga á knattspyrnu og spurningar mínar dundu á henni. En lýsing hennar á skólanum í Testaccio og fátæklegu hverfinu er mér minnisstæð. Engin tölva með internet tengingu var í skólanum árið 2005 og fáir nemendur höfðu hinn minsta áhuga á að fara í háskólanám. Hún var sjálf ekki í frönskuskóla til að undirbúa háskólanám, heldur var æðsti draumur hennar í lífinu þjónustustarf á Fiumicino flugvellinum í Róm.

Menntun var heldur ekki efst í huga Tottis þegar hann var yngri, né heldur hjá öðrum félögum hans. Raunar hefur Totti greint frá því að ef hann hefði ekki knattspyrnuna, þá sæti hann líklegast í fangelsi, líkt og svo margir æskuvinir hans. Hann hefur látið sig málefni fanga í Róm varða og reglulega hafa leikmenn Roma heimsótt fangelsi í borginni, sérstaklega fyrir mikilvæga leiki. Það vakti líka mikla athygli þegar myndband birtist á netinu sem tekið var af fangelsi einu í Rómarborg þegar Roma vann Juventus 2-1 í æsispennandi leik árið 2015. Fagnaðarópin endurómuðu langar leiðir úr steingerðri fangelsisbyggingunni. Illar tungur hafa líka lengi haft orð á því að Totti sé ekkert sérstaklega gáfaður og ummæli hans í viðtölum bera þess oft vitni. En hann sló svo vopnin úr höndum gagnrýnenda sinna árið 2004 þegar hann gaf út brandarabók þar sem allir brandararnir fjölluðu um hann sjálfan. Hagnaðinn gaf hann svo til góðgerðarmála.

Bölvunin sem fylgir fyrirliðabandi Roma
En ferill Tottis hefur ekki aðeins verið brandarar, gleði og gamanmál. Hitt þó heldur. Við lok ferils hans er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að hann hefði getað unnið mun fleiri titla ef hann hefði gengið til liðs við stærstu lið Evrópu. Og ekki skorti hann gylliboðin frá Real Madrid, Barcelona og Manchester United.

Totti var 11 ára þegar hann gekk til liðs við unglingalið Roma. Áður höfðu útsendarar frá stórliðinu AC Milan fært í hann víjurnar en móðir hans vissi hvaða draum sonur hennar átti sér og hafnaði tilboðinu fyrir hans hönd. Stóra hetja Tottis í æsku var sá leikmaður sem bar treyju númer 10 á undan honum hjá Roma, Giuseppe Giannini.

Hjá Roma hefur lengi verið hefð fyrir því að fyrirliði liðsins er uppalinn Rómverji. Svokallaður „bandiera”, eða fánaberi. Einhver sem ber skjöld borgarinnar hátt og fer fyrir sínum mönnum í bardaga. Vald hans er óumdeilt líkt og staða „dictators” sem ég lýsti í upphafi greinarinnar. Það má þó spyrja sig hvort þessu fyrirliðabandi fylgi gæfa eða bölvun. Því þeir eiga það sammerkt síðustu fyrirliðar Roma að yfir ferlum þeirra hangir einhver óútskýranleg sorg. Agostino di Bartolomei var fyrirliði liðsins frá 1979-1984, uppalinn í Rómarborg. Hann var fyrirliði þegar félagið tapaði í úrslitaleik í Evrópukeppninni gegn Liverpool árið 1984 á heimavelli. Þetta tap fór illa í íbúa Rómarborgar og settist á sálina á greyinu di Bartolomei. Það fór að halla undan fæti í lífi hans innan vallar og utan og þann 30. maí árið 1994, nákvæmlega tíu árum eftir tapið gegn Liverpool, framdi hann sjálfsvíg á heimili sínu.

Það loðir svo við feril Giuseppe Giannini, sem tók við bandinu af di Bartolomei, að hann lifði aldrei upp til væntinganna. Þrátt fyrir gríðarlega hæfileika og hæfni fékk hann til að mynda nær aldrei tækifæri með landsliðinu. Hann tók lítillega þátt í deildarmeistaratitli félagsins árið 1983 en á hans fyrirliðatíð náði liðið aldrei að berjast almennilega um æðstu titlana.

Francesco Totti vann vissulega deildarmeistaratitil árið 2001 en sem áður segir verður ávallt talað um að hann hafi ekki fengið það út úr ferli han sem hæfileikar hans eiga skilið.

Sá sem nú hefur tekið við fyrirliðabandinu er miðjumaðurinn Daniele De Rossi. Hann hefur í mörg ár verið kallaður „Capitano Futuro” – „Fyrirliði framtíðarinnar.” Það sem eitt sinn var góðlátlegt viðurnefni á efnilegum leikmanni hljómar í dag eins og kaldhæðnisleg bölvun enda er „fyrirliði framtíðarinnar” orðinn 34 ára þegar hann er loks gerður að fyrirliða.

Francesco Totti eða Jari Litmanen?
Ferill Tottis hjá Roma hefði samt getað litið allt öðruvísi út ef ekki væri fyrir örlagaríkan dag árið 1997. Totti lék sinn fyrsta leik fyrir Roma árið 1993 undir stjórn þjálfarans Vujadin Boskov. Ári seinna skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir félagið í 1-1 jafntefli gegn Foggia. En árið 1996 var þjálfari við stjórnvölinn að nafni Carlos Bianchi.

„Bianchi vildi losna við mig frá fyrstu mínútu,” hefur Totti sagt. Er sagt að Bianchi hafi viljað losna við Totti til að búa til pláss fyrir annan stórkostlegan leikmann, Finnann knáa Jari Litmanen sem lék með Ajax.

Þegar hingað var komið var búið var að ganga frá lánssamningi við Sampdoria. Ekkert virtist getað stöðvað það að Totti myndi yfirgefa Roma og hver veit hvernig ferill hans hefði orðið ef Litmanen hefði slegið í gegn í Róm. En fyrst lék Roma æfingaleik gegn Ajax. Totti fékk til allrar hamingju að spila þann leik. Það er rétt hægt að ímynda sér hversu vel hann hefur spilað. Hann skoraði tvö mörk og ákvað Franco Sensi, forseti félagsins, að Totti væri ekki að fara neitt á láni.

Næsta tímabil blómstraði Totti sem aldrei fyrr og þjálfarinn Bianchi sem hafði reynt að losa sig við hann entist ekki lengi í starfi. Undir sóknarsinnaða þjálfaranum Zdenek Zeman lék Totti við hvern sinn fingur og úr sinni stöðu á vinstri kantinum fékk hann frjálsræðið sem þurfti til að hæfileikar hans fengju að njóta sín. Aðeins 22ja ára að aldri fékk Totti svo fyrirliðabandið – sá yngsti í sögu ítölsku deildarinnar. Sá sem tók við þjálfarastöðunni var svo goðsögnin Fabio Capello. Það var undir stjórn Capellos sem Roma vann titilinn árið 2001. Titillinn var aðeins sá þriðji í sögu Roma og afskaplega kærkominn. Liðið var ógnarsterkt á þessum tíma. Totti var þegar hingað var komið farinn að spila sem klassísk tía – „trequartista” eins og Ítalir kalla það. Leikmaðurinn sem spilar í holunni á milli miðju og sóknar. Fyrir framan sig hafði hann þetta tímabil „litlu flugvélina” Vincenzo Montella og dansarann síkáta Marco Delvecchio. Þá var einnig keyptur til félagsins „konungur ljónanna”, Argentínumaðurinn Gabriel Omar Batistuta, sem hafði sannað sig sem einn allra beittasti framherji ítölsku deildarinnar á árunum áður.

Á þjóðhátíðardag Íslendinga árið 2001 gat Roma orðið ítalskur meistari með sigri á Parma. Félögin sem kepptu við Roma um titilinn voru erkifjendurnir Lazio og Juventus. Pressan var því gríðarleg og þótt Parma hefði ekkert að spila fyrir, þá var lið þeirra skipað frábærum leikmönnum. En sonur Rómarborgar steig upp þennan dag. Eftir um 20 mínútna leik datt fyrirgjöf frá vinstri fyrir fætur fyrirliðans inni í vítateig Parma. Totti hafði tvo raunhæfa möguleika. Leggja boltann innanfótar í hægra hornið framhjá Gianluigi Buffon eða leggja boltann í vinstra hornið. Totti valdi að sjálfsögðu þriðja og ómögulegasta möguleikann: Hann hamraði boltann með ristinni í samskeytin og sendi áhorfendur á Olympíuleikvanginum í Róm í sjöunda himinn eins og sagt er. Það skal engan undra að himnarnir séu sjö enda eru hæðirnar sem borgin Róm er byggð á líka sjö. Leikurinn vannst 3-1 og fagnaðarlætin stóðu í sjö daga til enda.

Titillinn kostaði næstum gjaldþrot
Eigendur Roma eyddu þetta tímabil um efni fram og titillinn varð svo dýrkeyptur að félagið rambaði á barmi gjaldþrots í kjölfarið. Hrakfarirnar létu á sér kræla innan vallar sem utan og tímabilin í kjölfarið voru erfið fyrir Totti. Þrátt fyrir gylliboð frá stærstu félögum Evrópu ákvað hann að vera um kyrrt en fleiri urðu titlarnir ekki í bili. Með landsliðinu þurfti hann líka að þola mikla gagnrýni og fór að bera á alvarlegum skapbrestum í fari hans. Hann safnaði rauðum spjöldum af miklum móð og á EM 2004 náði ferill hans botninum þegar hann fékk þriggja leikja bann fyrir að hrækja á Christian Poulsen í leik gegn Danmörku. Ítalía komst ekki upp úr riðlinum og Totti var sökudólgurinn í augum flestra Ítala.

Ekki batnaði ástandið árið 2006 þegar hann lenti í fyrstu alvarlegu meiðslunum á ferlinum. Í deildarleik gegn Empoli var hann tæklaður aftanfrá með þeim afleiðingum að hann tvíbrotnaði í ökklanum. Þarna var hann að nálgast þrítugt og þótti mörgum ólíklegt að hann myndi nokkru sinni snúa aftur af sama krafti og hann hafði áður haft. En þar urðu ákveðin vatnaskil á ferli hans. Eftir undraverðan bata á vormánuðunum 2006 tókst honum að komast í landsliðshóp Ítalíu á heimsmeistaramótinu sama ár. Hann lék flesta leikina þar og þótt hann hafi verið langt frá sínu besta þá vann Ítalía mótið og hann fékk ásamt liðinu heimsmeistarabikarinn afhendan úr höndum Benny Lennartsson forseta UEFA eftir að Sepp Blatter forseti FIFA neitaði að afhenda hann.

Það er ekki amalegt að eiga að margra mati lélegt mót en vera samt stoðsendingahæstur og trítla heim með Jules Rimet bikarinn í höndunum.

Meiðslin breyttu leikstílnum
Leikstíll Tottis breyttist líka upp frá þessu. Undir stjórn þjálfarans Luciano Spalletti var Totti gerður að hreinræktuðum framherja í stað leikstjórnanda. Á sínu fyrsta tímabili sem framherji skoraði hann 26 mörk í deildinni og vann gullskóinn í Evrópu. Undir stjórn Spallettis barðist Roma um deildarmeistaratitilinn við feyknasterkt lið Internazionale á þessum árum en laut í lægra haldi í öll skiptin. Eini titillinn var bikarmeistaratitill árið 2007.

Eftir að Totti hafði hafnað öllum stærstu liðum Evrópu varð æ ljósara að hann myndi enda ferilinn hjá Roma. Valdastaða hans þar var alltaf óumdeild. Leikmenn sem hafa spilað með honum vitna um það. Í nýlegu viðtali ræddi norski knattspyrnumaðurinn John Arne Riise um það hvernig hafi verið að spila við hlið hans.

„Totti réð öllu. Hann var óumdeildur leiðtogi en samt öðruvísi karakter en margir halda. Þegar við ferðuðumst í útileiki var hann alltaf einn í hótelherbergi. En dyrnar hans voru alltaf opnar og ungu leikmennirnir máttu heimsækja hann þegar þeir vildu og hann ræddi við alla,” sagði Riise og bætti því við að Totti væri besti leikmaður sem hann hefur spilað með.

Þegar Riise var í sama viðtali beðinn um að stilla upp draumaliði þeirra leikmanna sem hann sjálfur lék með mátti eðlilega finna þar bæði Francesco Totti og Steven Gerrard. Þegar hann átti svo að velja fyrirliða draumaliðsins vandaðist valið á milli þeirra tveggja. Að lokum sagðist hann velja Totti sem sinn draumafyrirliða með rökstuðningnum: „Ég held að Steven Gerrard myndi sjálfur skilja hvers vegna ég vel Totti.”

Einn sem fékk að finna fyrir þeim völdum sem Totti hefur í Róm er þjálfarinn Luciano Spalletti. Hann tók við liðinu að nýju árið 2016 um mitt tímabil með þeim skilaboðum frá forseta félagsins að hann hefði úrslitavald yfir liðsvalinu, og að ef hann vildi hafa Totti á bekknum, þá myndi stjórnin styðja þá ákvörðun. Þeir Totti lentu fljótlega upp á kant við hvorn annan. Spalletti notaði Totti sparlega og Totti fór ekki fögrum orðum um Spalletti í viðtölum. En á einhvern hátt var það Totti sem fékk síðasta orðið í rifrildinu þeirra á milli. Eftir að hafa verið Totti hafði verið bekkjaður í tvo mánuði á vormánuðum árið 2016 mætti Roma Torino í erfiðum heimaleik. Eftir 80 mínútur var Roma 2:1 undir og þeim sárlega vantaði sóknarþunga. Spalletti braut odd af eigin oflæti og setti Totti inná. Hann skoraði í sinni fyrstu snertingu eftir aðeins fimm sekúndur og þremur mínútum síðar hafði hann skorað sigurmarkið úr vítaspyrnu. Áhorfendur á vellinum grétu, Spalletti vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið og Totti hafði náð fram hefndum.

Hræðslan við að hætta
Francesco Totti þekkir ekki annað en að spila knattspyrnu á Ólympíuleikvangnum í Róm. Með tugir þúsunda öskrandi Rómverja á pöllunum sem styðja hann í gegnum alla erfiðleika sem að honum steðja. Erfiðleikarnir hafa verið margir en aldrei meiri en nú þegar ferlinum er lokið. Í kveðjuræðu sinni ræddi hann einmitt eigin hræðslu við að ljúka ferlinum.

„Nú er ég hræddur. Þetta er ekki sama hræðsla og ég hafði þegar ég tók vítaspyrnur. Í þetta skiptið sé ég ekki í gegnum götin í netinu hvað leynist á bakvið markið. Í þetta skiptið þarf ég hlýju ykkar og virðingu.”

Sjálfur hef ég aðeins einu sinni haft tækifærið til að sjá þessa goðsögn spila með berum augum. En sú ferð endaði með vonbrigðum sem svo oft hafa fylgt knattspyrnufélaginu AS Roma. Totti byrjaði á bekknum og kom aldrei inn á völlinn. Tveimur rauðum Roma-spjöldum seinna var leikurinn tapaður og liðið dottið út úr meistaradeildinni. Eftir á hef ég oft velt því fyrir mér hvort það hafi kannski verið mér fyrir bestu. Vonbrigði, nostalgía og eftirsjá vekja kannski hjá mér sterkari tilfinningar heldur en ef ég hefði séð einn stakann sigurleik.

Ítalska deildin hefur munað fífil sinn fegurri síðastliðinn áratug. Maðurinn sem eyddi ævi sinni í að lita þessa fölnuðu deild sterkum litum er nú hættur. Það er erfitt að sætta sig við. Á sunnudaginn ætla ég að reyna að vakna jafn spenntur og síðasta áratug og gíra mig upp í leik dagsins. En hvernig það tekst er óvíst. Kannski kemur í ljós að ég held alls ekkert með AS Roma heldur bara Francesco Totti.
Athugasemdir
banner
banner
banner