Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   fim 17. apríl 2025 21:56
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Man Utd áfram eftir lygilega endurkomu í framlengingu
Harry Maguire sendi United áfram
Harry Maguire sendi United áfram
Mynd: EPA
Á þessum tímapunkti var Lyon á leið áfram en United kom til baka
Á þessum tímapunkti var Lyon á leið áfram en United kom til baka
Mynd: EPA
Lyon var komið tveimur mörkum yfir en glutraði henni niður á lokamínútunum
Lyon var komið tveimur mörkum yfir en glutraði henni niður á lokamínútunum
Mynd: EPA
Manchester United kom sér á einhvern ótrúlegan hátt í undanúrslit Evrópudeildarinnar í kvöld með því að vinna Lyon, 5-4, eftir framlengdan leik á Old Trafford. United skoraði tvö mörk á tæpum tveimur mínútum undir lok framlengingarinnar.

United-menn voru með pálmann í höndunum í hálfleik eftir flott liðsmörk hjá Manuel Ugarte og Diogo Dalot.

Ugarte skoraði eftir frábæran undirbúning Alejandro Garnacho og þá skoraði Dalot undir lok hálfleiksins eftir langan bolta frá Harry Maguire.

André Onana var að eiga frábærar vörslur og náði algerlega að hrista af sér ömurlega frammistöðu í fyrri leiknum.

Í síðari hálfleiknum komst Lyon í gírinn og tókst Frökkunum að jafna metin og einvígið með tveimur mörkum á sjö mínútum. Corentin Tolisso skoraði með skalla á 71. mínútu þar sem Onana gat ekki komið neinum vörnum við og þá gerði Nico Tagliafico annað markið er Ainsley Maitland-Niles kom boltanum á fjær á Argentínumanninn sem setti klaufalegt skot sitt í átt að marki áður en Alexandre Lacazette fylgdi á eftir.

Markið skráist á Tagliafico þar sem boltinn var þegar kominn yfir línuna áður en Onana varði hann út í teiginn.

Markaskorarinn Tolisso var rekinn af velli undir lok venjulegs leiktíma er hann krækti aftan í Leny Yoro sem var að komast á sprettinn. Seinna gula á Tolisso og Lyon manni færri.

Fleiri urðu mörkin ekki eftir venjulegan leiktíma en framlengingin átti eftir að bjóða upp á alvöru dramatík.

Rayan Cherki skoraði undir lok fyrri hlutans með skoti rétt fyrir utan teiginn. Malick Fofana á mestan heiðurinn í markinu eftir að hafa skotist upp vinstri vænginn og inn að teignum áður en hann var hamraður niður. Boltinn datt út á Cherki sem tók eina snertingu áður en hann skoraði með föstu skoti í hægra hornið á meðan Onana stóð stjarfur á línunni.

Strax í byrjun síðari hlutans fengu Lyon-menn vítaspyrnu og aftur eftir frábæran sprett Fofana sem keyrði í gegnum United-mennina áður en Yoro tók hann niður. Alexandre Lacazette sendi Onana í vitlaust horn og forysta Lyon komin í tvö mörk.

Sex mínútum síðar náði Bruno Fernandes að gefa United líflínu er hann minnkaði muninn úr vítaspyrnu eftir að Casemiro var sparkaður niður í teignum.

United hélt áfram að sækja að marki Lyon og eftir þunga pressu kom dramatískt jöfnunarmark. Casemiro fékk boltann við vítateigslínuna, kom honum snöggt á Kobbie Mainoo sem lagði boltann á hægri löppina og sneri honum í hægra hornið.

Dramatíkinni var ekki lokið. Aftur fékk Casemiro boltann og var Harry Maguire kominn í fremstu víglínu. Hann kom með langan bolta á fjær á Maguire sem stakk sér fram fyrir varnarmann Lyon og stangaði boltann í hornið.

„Leikhús draumanna stóð undir nafni,“ sagði Guðmundur Benediktsson í lýsingu sinni á Stöð 2 Sport og er það alveg hárrétt hjá honum. Endurkoman var draumi líkast og United enn á þeirri vegferð að vinna keppnina og komast þannig í Meistaradeild Evrópu fyrir næsta tímabil.

Manchester Utd 5 - 4 Lyon (7-6, samanlagt)
1-0 Manuel Ugarte ('10 )
2-0 Diogo Dalot ('45 )
2-1 Corentin Tolisso ('71 )
2-2 Nicolas Tagliafico ('78 )
2-3 Rayan Cherki ('105 )
2-4 Alexandre Lacazette ('110 , víti)
3-4 Bruno Fernandes ('114 , víti)
4-4 Harry Maguire ('120 )
5-4 Kobbie Mainoo ('120 )
Rautt spjald: Corentin Tolisso, Lyon ('89)
Athugasemdir