Þór Bæring Ólafsson skrifar
Í síðustu viku skellti ég mér ásamt fjölskyldu minni á leik Íslands og Noregs á EM2013 í Kalmar í Svíþjóð. Við vorum öll afar spennt að fara sjá íslenska landsliðið spila og ekki skemmdi fyrir að það var sól og blíða í Kalmar þennan fallega fimmtudag.
Umgjörðin í Kalmar var afar glæsileg og alveg ljóst að Svíar eiga hrós skilið fyrir framkvæmd mótsins. Það var allt skreytt í bak og fyrir í Kalmar og svo var búið að setja upp sérstakt „Fan Zone“ fyrir áhugafólk um mótið og stuðningsmenn liðanna. Það fór sem sagt ekkert á milli mála að EM2013 var í gangi í bænum.
Það vildi svo skemmtilega til að við gistum á sama hóteli og íslenska landsliðið í Kalmar og það átti aldeilis eftir að gera ferðina ennþá eftirminnilegri. Sérstaklega fyrir dóttur mína, hana Tinnu Sól en hún er 10 ára gömul og er að æfa fótbolta með FH. Hún er mikill fótboltafíkill, hún mætti til dæmis á opna æfingu íslenska landsliðsins á Valbjarnarvelli ásamt vinkonum sínum í FH stuttu fyrir brottför liðsins til Svíþjóðar.
En aftur til Kalmar. Við fórum snemma á „Fan Zone-ið“ í miðbæ Kalmar og þar léku krakkarnir sér í fótbolta og hinum ýmsu leikjum. Fengum reyndar aðstoð frá Þóru Helgadóttur til að rata á svæðið. Um það bil klukkutíma í leik var það svo rútuferð á völlinn.
Á vellinum voru tæplega 4.000 manns mættir og fylgdust með leik Íslands og Noregs. Þeir stuðningsmenn íslenska liðsins sem voru á staðnum létu vel í sér heyra og það var bara virkilega skemmtileg stemning á pöllunum.
Það varð auðvitað allt vitlaust þegar Margrét Lára jafnaði metin í lok leiksins og eðlilega vildu stuðningsmenn íslenska liðsins bara fleiri mörk en jafntefli var niðurstaðan. Vá, þetta var svo gaman.
Eftir leikinn var svo farið upp á hótel og það var þá sem næsta ævintýri hófst hjá dóttur minni. Það var auðvitað mikil upplifun fyrir hana að sjá stelpurnar spila þennan mikilvæga landsleik í lokakeppni EM. En málið er að þessar stelpur í landsliðinu eru ekki bara góðar í fótbolta, þær eru nefnilega líka flottar fyrirmyndir.
Við vorum sem sagt í anddyri hótelsins þegar landsliðið mætti þangað eftir leikinn. Tinna ákvað að labba til þeirra og biðja um eiginhandaráritun hjá þeim. Það var nú lítið mál og það endaði þannig að allur hópurinn skrifaði í bókina hennar og Sigurður Ragnar líka.
Þær voru alls ekki að flýta sér og gáfu sér tíma til að spjalla við hana. Katrin Jónsdóttir tók það hlutverk að sér að athuga hvort að þær væru ekki allar búnar að skrifa í bókina hennar og gaf henni síðan merki KSÍ og fána (sem er auðvitað kominn upp á vegg í herberginu hennar).
Ég hef sjaldan séð dóttur mína ljóma eins mikið og þetta kvöld. Svo var henni boðið að horfa á Þýskaland – Holland með þeim. Ekki leiðinlegt fyrir 10 ára stelpu sem elskar að spila fótbolta og horfir á þessar landsliðsstelpur með stjörnur í augunum. Eftir leikinn fóru svo landsliðsstelpurnar að týnast upp á herbergi og við fórum líka enda kominn háttatími.
Hún labbaði með Söru Björk upp á næstu hæð og það síðasta sem hún heyrði var: Góða nótt Tinna, sjáumst í fyrramálið. Sú stutta sofnaði með bros á vör og hún svaf skælbrosandi alla nóttina.
Daginn eftir hittum við landsliðið aftur en að þessu sinni var liðið á torgi í miðbæ Kalmar í myndatöku. Auðvitað nýtti ég tækifæri og fékk að smella einni mynd af stelpunni minni með liðinu. Eins og áður var það ekkert nema sjálfsagt. Það er alveg ljóst að þetta er sólarhringur sem hún mun aldrei gleyma. Takk stelpur fyrir að svona frábærar og flottar fyrirmyndir. Áfram Ísland!
Þór Bæring Ólafsson
Framkvæmdastjóri Gaman Ferða og dagskrágerðarmaður á K100,5
Athugasemdir