Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   mið 17. júlí 2019 14:41
Arnar Daði Arnarsson
Kristján Flóki: Fannst KR meira spennandi en FH
Kristján Flóki.
Kristján Flóki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
„Þetta hefur legið í loftinu en þetta hefur eiginlega aldrei farið almennilega í gang fyrr en núna í júní. Þá fóru umræður af stað að ég myndi fá að fara," sagði sóknarmaðurinn, Kristján Flóki Finnbogason nýjasti leikmaður KR í samtali við Fótbolta.net.

Kristján Flóki hefur samið við KR út tímabilið 2023 en þetta var staðfest fyrr í dag.

„KR er með spennandi lið og ég átti gott samtal við Rúnar (Kristinsson, þjálfara KR) þar sem hann sagði mér hvað hann hafði í huga bæði fyrir mig og liðið. Hann seldi mér hugmyndina," sagði Kristján Flóki sem er uppalinn í Hafnarfirðinum í FH. Kom það aldrei til greina að fara í FH?

„Mér fannst vera kominn tími á að prófa eitthvað nýtt á Íslandi. Það var auðvitað inní myndinni að fara í FH og maður hugsaði um það en mér fannst KR meira spennandi," sagði Kristján Flóki sem segir að það sé ekkert til í því að hann hafi valið KR fram yfir FH vegna erfiðrar fjárhagsstöðu FH-inga.

Hann segir að einhver áhugi hafi verið erlendis frá en þegar upp var staðið hafi KR verið það félag sem var hvað mest spennandi.

„KR var klárlega besta liðið sem sýndi mér áhuga. Maður hefur metnað fyrir því að spila á stærra sviði og nú hef ég fengið að kynnast liðum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og núna veit maður betur hvað maður vill. Ég útiloka það ekki að fara aftur út."

Fyrsti leikur Kristjáns Flóka með KR verður gegn Grindavík í Pepsi Max-deildinni, þriðjudaginn 6. ágúst í vikunni eftir verslunarmannahelgi.

„Ég kem heim í góðu formi. Ég hef verið að spila æfingaleiki og síðan byrjaði ég síðasta leik í deildinni. Ég tel mig vera í toppstandi til að spila," sagði Kristján Flóki sem var spurður að því hvort hann ætli að skella sér á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina, fyrst hann er kominn heim.

„Ég held ég láti það vera."

KR fer í Kaplakrikann í undanúrslitum Mjólkurbikarsins um miðjan ágúst. Kristján Flóki neitar því ekki að hann sé orðinn spenntur fyrir þeim leik. „Það verður tilbreyting að vera í hinum klefanum í Kaplakrika. Ég hef aldrei prófað það en ég held að það verði gaman að mæta í Krikann," sagði Kristján Flóki Finnbogason að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner