Breiðablik 0 - 2 FH
0-1 Davíð Snær Jóhannsson ('45 )
0-2 Vuk Oskar Dimitrijevic ('74 )
Lestu um leikinn
0-1 Davíð Snær Jóhannsson ('45 )
0-2 Vuk Oskar Dimitrijevic ('74 )
Lestu um leikinn
FH er komið upp fyrir Stjörnuna og í 4. sæti efri hlutans í Bestu deild karla eftir að hafa unnið öflugan sigur á Breiðabliki, 2-0, á Kópavogsvelli.
Blikar komu sér strax í góða stöðu á 3. mínútu er Höskuldur Gunnlaugsson fór framhjá varnarmanni en Daði Freyr Arnarsson varði vel.
Kristinn Steindórsson vildi fá vítaspyrnu á 15. mínútu eftir viðskipti sín við Finn Orra Margeirsson en Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, sá ekkert athugavert við það og lét leikinn fljóta áfram.
Fimm mínútum síðar fékk Viktor Karl EInarsson besta færi Blika er Höskuldur kom boltanum inn í teiginn en skot Viktors fór í stöngina og út af vellinum.
Höskuldur kom sér þá í fínasta færi stuttu síðar en hann setti boltann framhjá markinu. Skömmu síðar átti sér stað óhugnanlegt atvik.
FH-ingar komu boltanum fram völlinn og þar var Kjartan Kári Halldórsson á ferðinni og ætlaði sér í boltann, en Anton Ari Einarsson keyrði út og á blindu hliðina á Kjartani sem endaði með hörðu samstuði.
Kjartan lá eftir óvígur á vellinum en óttast var um hálsmeiðsli og mátti því lítið hreyfa við honum. Sjúkraþjálfarateymið hugaði að honum áður en sjúkrabíll mætti á svæðið. Það tók dágóðan tíma að koma honum af velli, en einhverjum tuttugu mínútum síðar var hann fluttur á sjúkrahús.
Vuk Oskar Dimitrijevic kom inn í stað fyrir Kjartan Kára og sýndu FH-ingar mikinn karakter eftir þessi óhugnanlegu meiðsli.
Davíð Snær Jóhannsson kom FH-ingum yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Haraldur Einar Ásgrímsson átti fyrirgjöf inn í teiginn sem Viktor Örn Margeirsson átti erfitt með að stýra og lagði hann bara boltann fyrir Davíð sem skoraði af stuttu færi.
Liðin skiptust á færum í þeim síðari. Eyþór Aron Wöhler átti skot rétt framhjá áður en Kjartan Henry Finnbogason fékk dauðafæri hinum megin á vellinum er hann skallaði í átt að marki en Anton Ari varði.
Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum gerðu FH-ingar út um leikinn. Höskuldur var að skýla boltanum og ætlaði að láta hann fara út af, þegar Ástbjörn Þórðarson mætti, vann boltann af honum og lagði hann á Vuk Oskar sem setti boltann hægra megin við Anton Ara og í markið.
2-0 sigur FH-inga staðreynd. FH er komið upp í 4. sætið með 37 stig á meðan Blikar eru sætinu fyrir ofan með 38 stig. Gríðarleg spenna komin í Evrópubaráttuna.
Athugasemdir