Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   sun 17. nóvember 2024 15:15
Elvar Geir Magnússon
Svartfjallalandi
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Reykjandi betlandi börn og hjartalaust lið
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Frá leik Svartfjallalands og Íslands í gær.
Frá leik Svartfjallalands og Íslands í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikvangurinn í Podgorica.
Leikvangurinn í Podgorica.
Mynd: Getty Images
Íslenska landsliðið, fylgdarlið og fjölmiðlamenn hafa yfirgefið Svartfjallaland, með stigin þrjú í farteskinu, og þessi orð eru skrifuð um borð í flugvél sem er á leið til Cardiff í Wales þar sem framundan er úrslitaleikur á þriðjudag.

Sigurinn gegn Svartfellingum í gær bjó til þennan úrslitaleik. Leikurinn í Niksic var alveg langt frá því að geta talist fallegur en markmiðið að ná í sigurinn náðist, gæðamunurinn kom í ljós á lokakaflanum og sigurinn nærir.

Það var skemmtileg upplifun að heimsækja hið afskaplega fallega Svartfjallaland. Móttökur heimamanna voru mjög góðar og allt til alls. Reyndar var hvorki vott né þurrt fyrir fjölmiðlamenn á vellinum en ekki nánar út í það. Þetta er ekki símatími í Reykjavík síðdegis (og svo ætlaði UEFA eftirlitsmaðurinn líka að færa þetta til bókar, næstu fjölmiðlamenn sem koma í heimsókn til Svartfjallalands fá kaffi).

Höfuðborgin Podgorica fær misjafnar umsóknir á leitarsíðum internetsins en hún kom skemmtilega á óvart, það er sjarmi yfir henni og flottir veitingastaðir með framúrskarandi þjónustu. En maður fékk líka að kynnast dekkri hliðum borgarinnar og talsverðum fjölda af betlandi börnum, sem flest hver voru reykjandi. Það var ekki skemmtileg upplifun þegar ég og Jóhann Ingi blaðamaður Morgunblaðsins vorum eltir út af veitingastað af ungum dreng, á að giska 7-8 ára gömlum, sem hrópaði 'Money! Money! Money!' á meðan hann klappaði höndum upp við andlitið á manni.

Þegar við skiluðum okkur upp á hótel eftir sigurinn í gær þá fórum við yfir boltann með manninum í móttökunni sem var hreinlega leiður og sár yfir stöðunni á landsliði Svartfjallalands. Hann segir að vandamál liðsins, sem er að ganga í gegnum langa taphrinu, sé sú að 'hjartað' vanti. Stærstu nöfnin í liðinu, sem spila í erlendum félagsliðum, hafi hreinlega ekki mikinn áhuga á því að spila fyrir þjóð sína. Fyrir hvern landsleikjaglugga séu menn skyndilega orðnir óleikfærir og menn leiti sér að afsökunum til að mæta ekki.

Hann vill róttækar breytingar og að liðið verði frekar byggt upp á ungum leikmönnum sem spila í Svartfjallalandi. Byggt verði nýtt lið frá grunni og til framtíðar, lið sem geti mótast og hjartað slái með landsliðinu.

Bellamy að byggja
Það er þegar kominn fiðringur fyrir leiknum gegn Wales á þriðjudag. Að klára riðilinn á úrslitaleik gefur þessum glugga mikið. Þetta er ekki bara úrslitaleikur fyrir okkur heldur líka Walesverjana sem eiga enn möguleika á toppsætinu og komast þar með beint upp í A-deildina.

Það er stemning og meðbyr með velska landsliðinu. Craig Bellamy varð fyrsti þjálfari Wales í sögunni sem fer ósigraður í gegnum fjóra fyrstu leikina, hann bætti svo þeim fimmta við með jafnteflinu í Tyrklandi. Bellamy er að fara feikilega vel af stað sem stjóri liðsins og það verður væntanlega flott stemning á Cardiff City leikvangnum.

Einu sinni áður hefur Ísland mætt Wales á þessum leikvangi og þá hélt Gareth Bale sýningu í 3-1 sigri í vináttulandsleik. Ég var eini íslenski fjölmiðlamaðurinn á þeim leik fyrir tíu árum en fæ sem betur fer meiri félagsskap að þessu sinni. Meiðsli Arons Einars tekur þó vissulega krydd úr komandi leik, leikurinn sem átti að vera endurkoma hans til Cardiff.
Athugasemdir
banner
banner
banner