Elvar Geir Magnússon skrifar frá Växjö
Sigurður Ragnar Eyjólfsson var kokhraustur fyrir Evrópumótið og sagði að stefnan væri sett á 8-liða úrslitin þrátt fyrir að niðurstaðan úr landsleikjum fyrr á árinu gæfu engar vonir þess efnis.
Fyrir mótið voru afskaplega fáir sem trúðu því að þau markmið væru raunsæ. Í fyrsta sinn síðan Siggi Raggi tók við þessu starfi fimmtudaginn 7. desember 2006 var komin pressa á hann og víða umræða um að hann væri kominn á endastöð.
Sögur voru í gangi um að þreyta væri komin í samstarfið enda hafa sárafáar breytingar verið á starfsliðinu kringum liðið öll þessi ár. Sögur sem vel gætu verið sannar. Á hvaða vinnustað sem er væri líklega komin einhver þreyta eftir þetta mörg ár.
En Siggi er nútímaþjálfari sem er algjörlega óhræddur við að taka upp nýjar hugmyndir, fá ráðleggingar frá öðrum og vera í takt við tímann. Hann tók við liðinu á sínum tíma með litla sem enga þjálfarareynslu en var fljótur að læra og vaxa í starfi.
Þegar þú ert landsliðsþjálfari þarftu að taka stórar ákvarðanir og ljóst að ekki er hægt að gera öllum landsmönnum til geðs þegar kemur að liðsvali. Það blés hressilega á Sigga fyrir mót og einhverjir töldu að „klefinn væri farinn".
En markmiðin náðust og íslenska liðið er komið í 8-liða úrslit á stórmóti. Undirbúningur og taktíkin gegn Hollandi gekk fullkomlega upp. Margir sokkar hafa verið borðaðir.
Siggi sýndi klókindi sín meðal annars í því að fá aðstoð frá Lars Lagerback og Heimi Hallgrímssyni, leyfa stelpunum að heyra nýjar raddir og kynnast nýjum æfingum.
Í viðtali í gær sagðist Siggi ekki vera farinn að ræða um nýjan samning og því óvíst hvort hann haldi áfram starfinu eftir mótið. Ég hef á tilfinningunni að jafn klókur maður og hann viti hvenær best sé að stíga frá borði og fá inn nýja vinda. Þegar að því kemur verður að teljast líklegt að Siggi verði afskaplega eftirsóttur, hvort sem það verður í sumar eða síðar.
Athugasemdir