Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   fim 18. júlí 2019 18:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Evrópudeildin: Ótrúleg dramatík - Stjarnan mætir Espanyol
Brynjar Gauti skoraði sigurmarkið.
Brynjar Gauti skoraði sigurmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan mætir Espanyol.
Stjarnan mætir Espanyol.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Levadia Tallinn 3 - 2 Stjarnan (4-4 samanlagt)
1-0 Evgeni Osipov ('17 )
1-1 Þorsteinn Már Ragnarsson ('25 )
2-1 Evgeni Osipov ('89)
3-1 Dmitri Kruglov ('105 , víti)
3-2 Brynjar Gauti Guðjónsson ('123)

Það var ótrúleg dramatík er Stjarnan komst áfram í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Stjarnan heimsótti Levadia Tallinn frá Eistlandi. Stjarnan vann fyrri leik sinn gegn Levadia, 2-1 á Samsung vellinum. Sá leikur hefði getað verið stærri og klúðraði Hilmar Árni Halldórsson til að mynda vítaspyrnu.

Leikurinn í dag byrjaði ekki vel fyrir Stjörnuna því heimamenn komust 1-0 yfir eftir 17 mínútur þegar Evgeni Osipov skoraði eftir hornspyrnu.

Eins og staðan var þarna var Levadia að komast áfram á útivallarmörkum. Sem betur fer náði Stjarnan að svara strax og jafna metin. Nokkrum mínútum síðar skoraði Þorsteinn Már Ragnarsson eftir undirbúning frá Hilmari Árna.

Staðan var 1-1 í hálfleik. Levadia byrjaði seinni hálfleikinn vel og fékk ágætis færi til að komast aftur yfir. Ævar Ingi Jóhannesson átti þá góða tilraun eftir rúmlega klukkutíma leik, tilraun sem Levadia bjargaði á línu.

Stjarnan virtist vera á leiðinni áfram í næstu umferð, en á grátlegan hátt jafnaði Levadia á 89. mínútu. Varnarmaðurinn Osipov skoraði sitt annað mark.

Lokatölur 2-1, eins og í fyrri leiknum og því þurfti að framlengja.

Rétt undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar fékk Levadia vítaspyrnu þegar Martin Rauschenberg fékk boltann í höndina. Dmitri Kruglov skoraði af vítapunktinum og kom Levadia yfir.

Stjarnan þurfti mark í seinni hálfleiknum og það kom - á endanum. Varnarmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson skoraði eftir hornspyrnu á þriðju mínútu uppbótartímans. Hreint út sagt ótrúlegt og Stjarnan fer áfram á útivallarmörkum. Stjarnan mætir spænska úrvalsdeildarliðinu Espanyol í næstu umferð. Magnað.

Leikur Vaduz og Breiðabliks er í fullum gangi og þar er staðan 1-0 fyrir Vaduz. Blikarnir á leið úr keppni eins og er. Þá hefst leikur KR og Molde klukkan 19:00. Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu.

Athugasemdir
banner
banner