Pistillinn birtist upphaflega á Sportblogginu
Þeir sem þekkja mig vita að ég elska þýska knattspyrnu og allt tengt henni. Það á þó ekki við um Felix Magath. Það má færa nokkuð góð rök fyrir því að Fulham virðast vera að fara á taugum í ljósi stöðu þeirra í ensku úrvalsdeildinni. Viku eftir að hafa staðfest að staða Rene Meulensteen, þjálfara liðsins, væri örugg hefur félagið ráðið Felix Magath sem stjóra liðsins. Ótrúleg ákvörðun hjá eiganda liðsins Shad Khan, séstaklega í ljósi þess að ákveðin batamerki voru farin að sjást á spilamennsku liðsins. Khan hafði einnig leyft Meulensteen að eyða dágóðum pening í að styrkja liðið í janúar.
Þeir sem þekkja mig vita að ég elska þýska knattspyrnu og allt tengt henni. Það á þó ekki við um Felix Magath. Það má færa nokkuð góð rök fyrir því að Fulham virðast vera að fara á taugum í ljósi stöðu þeirra í ensku úrvalsdeildinni. Viku eftir að hafa staðfest að staða Rene Meulensteen, þjálfara liðsins, væri örugg hefur félagið ráðið Felix Magath sem stjóra liðsins. Ótrúleg ákvörðun hjá eiganda liðsins Shad Khan, séstaklega í ljósi þess að ákveðin batamerki voru farin að sjást á spilamennsku liðsins. Khan hafði einnig leyft Meulensteen að eyða dágóðum pening í að styrkja liðið í janúar.
Konstantinos Mitroglou, einn af heitari sóknarmönnum Evrópu, kom frá Olympiakos, Lewis Holtby var sendur á lán til Fulham frá nágrönnum þeirra Tottenham, Johnny Heitinga gekk til liðs við Fulham frá Everton, William Kvist kom á láni frá Stuttgart og þeir Larnell Cole og Ryan Tunnicliffe voru keyptir frá Manchester United. Stuttu síðar er stjórastólinn tekinn af Meulensteen. En. Shad Khan vonar samt að hann fari þó ekki frá félaginu heldur haldi áfram að starfa fyrir það, sem þjálfari, en Meulensteen var í raun aldrei formlega ráðinn sem framkvæmdastjóri Fulham þegar Martin Jol var rekinn í desember. Shad Khan kann svo sannarlega að reka íþróttalið. Spyrjið bara Jacksonville Jaguars í NFL, líklega lélegasta félag deildarinnar.
En hver er Felix Magath?
-Fæddist í Aschaffenburg í Vestur-Þýskalandi 26. júlí 1953.
-Gekk til liðs við 1. FC Saarbrücken árið 1974 og lék með liðinu til 1976 í 2. Bundesliga. Skoraði 29 mörk í 76 leikjum.
-Var keyptur til Hamburger SV árið 1976 og lék með þeim út ferilinn. Skoraði 46 mörk í 306 leikjum.
-Lék 43 leiki fyrir Vestur-Þýskaland og skoraði í þeim 3 mörk.
-Þurfti að hætta að spila vegna hnémeiðsla eftir Heimsmeistarakeppnina í Mexíkó 1986.
-Vann Bundesliguna þrisvar, Evrópukeppni meistaraliða einu sinni, Evrópukeppni bikarhafa einu sinni og lék til úrslita í Evrópukeppni félagsliða einu sinni en tapaði.
-Var í sigurliði Vestur-Þjóðverja á Evrópumótinu 1980.
-Varð yfirmaður knattspyrnumála (e. general manager) strax árið 1986 eftir að hafa lagt skóna á hilluna. Var í því starfi til 1988.
En það var hins vegar sem þjálfari sem hann vakti athygli. Í Þýskalandi er hann í dag þekktur fyrir það að koma inn hjá liðum sem eru í erfiðri stöðu, liðum sem oftar en ekki eru djúpt sokkin í fallbaráttu. Eftir að hafa stýrt Hamburger SV í tvö ár, og verið rekinn, hefur hann þjálfað 1. FC Nürnberg, Werder Bremen, Eintracht Frankfurt, VfB Stuttgart, Bayern München, VfL Wolfsburg, Schalke 04 og nú Fulham. Augljóslega voru ekki öll þessi lið í vandræðum þegar Magath tók við völdum. Honum tókst að koma 1. FC Nürnberg í Bundesliguna, jafnvel þó liðið væri nýtt í 2. Bundesliga og í baráttu við fall þegar Magath tók við stjórn þess. Hann bjargaði Werder Bremen frá falli tímabilið 1998/99 og hélt Eintracht Frankfurt í efstu deild tímabilið 1999/00, eftir að hafa tekið við stjórn þess á miðju tímabili. Hann var rekinn frá félaginu um miðbik næsta tímabils, enda liðið í þriðja neðsta sæti í janúar.
Því næst tók hann við VfB Stuttgart og bjargaði þeim naumlega frá falli tímabilið 2000/01. Aldrei þessu vant hélt hann þessu starfi í lengri tíma, náði m.a. að landa öðru sæti tímabilið 2002/03. Einnig hefur Magath þjálfað, eins og komið hefur fram áður, Bayern München, VfL Wolfsburg og Schalke 04, en hann gerði m.a. VfL Wolfsburg að meisturum.
Þrátt fyrir ágætan árangur Magath hjá mörgum félögum í Þýskalandi þá er orðspor hans þar ekki upp á marga fiska. Uli Hoeness, einn af æðstu mönnum hjá Bayern München, lét hafa eftir sér þegar ljóst var að Magath væri tekinn við Fulham að það væri öruggt að Magath myndi aldrei fá að þjálfa aftur í heimalandi sínu. Þetta er Hoeness nokkuð viss um þar sem þjálfunaraðferðir Magath eru sagðar yfirgengilegar. Hoeness er ekkert að spara yfirlýsingarnar í viðtali við Sunday Mirror. Hér eru nokkrar:
,,Það er náttúrulegt fyrir honum að kreista líkama atvinnumanns eins og sítrónu, til síðasta dropa. Það fer langt framhjá því að vera heilbrigt fyrir líkama leikmanna.”
,,Ég myndi aldrei vilja koma fram við aðra manneskju eins og hann. Ég myndi aldrei vilja meiða leikmann eins mikið og hann gerir.”
,,Þetta getur þýtt að liðinu gangi betur til að byrja með en á endanum endar þetta á stórslysi. Felix Magath hefur sannað það hjá hverju einasta liði sem hann hefur verið hjá.”
,,Felix vill alræði. Hann hefur einnig ávallt miklar grunsemdir um aðra. Hann sér drauga og er viss um að allir séu að tala um hann.”
,,Hann ætti að spyrja sig af hverju allir leikmenn hjá öllum þeim liðum sem hann hefur þjálfað hafa haldið risa partý þegar hann er farinn. Jafnvel þegar hann hefur náð góðum árangri gera þeir það þegar hann hefur verið rekinn.”
Uli Hoeness er vissulega þekktur fyrir að vera yfirlýsingaglaður og segja það sem hann vill hverju sinni. En hann er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt Magath harðlega. Ótalmargir hafa gert slíkt hið sama. Lítum á hvað hefur verið sagt um hann:
,,Hvaða Einstein hjá Fulham tók þá ákvörðun að ráða risaeðlu sem mun keyra leikmenn sína í jörðina til þess að halda félaginu í úrvalsdeildinni.” – Raymond Verheijen.
,,He is the last dicator in Europe.” – Bachirou Salou, fyrrverandi leikmaður Eintracht Frankfurt.
Undirritaður vonar að leikmenn Fulham hafi kynnt sér þjálfunaraðferðir Magath, en æfingar á næstunni ættu að verða nokkuð erfiðari en þeir hafa áður kynnst. Lukas Podolski og Grafite eru tveir leikmenn sem ættu að geta frætt þá um það hverju leikmenn Fulham eiga von á í sumar. Þegar hann var þjálfari Bayern München lét hann leikmenn liðsins fara í erfið og löng hlaup í skógum í hlíðum Alpanna, í sumarhitanum. Þegar leikmennirnir komu til baka hafði Magath látið fela vatnsflöskur þeirra til að sjá hvernig þeir brugðust við. Podolski var einn þeirra sem brást ekki vel við. Hann brást þó betur við en hinn brasilíski sóknarmaður Grafite, þá leikmaður VfB Wolfsburg. Hann hné niður í miðju fjallahlaupi og þurfti að bera hann í burtu á börum. Eðlilegt. Nú í kvöld var það staðfest að Rene Meulensteen og Alan Curbishley væru hættir störfum hjá Fulham, fréttir sem koma vissulega ekki á óvart. Á sama tíma hefur það verið tilkynnt að Werner Leuthard, fitnessþjálfari, hefur verið ráðinn til liðsins. Leuthard þessi hefur fylgt Magath frá 2002, en áður en hann þjálfaraferill hans hófst var hann í hernum. Það segir allt um æfingaraðferðir Magath.
Þjálfunaraðferðir hans eru ekki eini gallinn við Magath. Hann er einnig þekktur fyrir að vilja hafa stjórn á gjörsamlega öllu, eins og Uli Hoeness minntist einmitt á. Lítum á tvö dæmi um slíkt:
-Eftir að hafa gert VfL Wolfsburg að meisturum gekk hann til liðs við Schalke 04. Eftir 5-0 tap liðsins gegn Kaiserslautern skipaði hann leikmönnum liðsins að æfa í stuttbuxum. Hitastigið var -4 gráður. Hanskar voru einnig bannaðir.
-Jermaine Jones, miðjumaður Schalke 04, gagnrýndi það að liðið skyldi nota tvo varnarsinnaða miðjumenn. Honum var hent í varaliðið.
Felix Magath á án efa eftir að gera góða hluti með lið Fulham. Hann mun halda liðinu uppi. En hvað framtíðin ber í skauti sér er óráðið. Shad Khan, eigandi Fulham, virðist hafa unnið einhverja rannsóknarvinnu á Magath enda gaf hann honum einungis 18 mánaða samning. Undirritaður hefur ekki mikla trú á að vinur okkur hann Felix haldist mikið lengur en það í sínu nýja starfi.
Sigurvegarinn í öllu þessu er ekki Fulham. Sigurvegarinn er Dimitar Berbatov. Það er ekkert sem hryggir hann meira en að hlaupa. Hann ætti að vera nokkuð sáttur í Monakó í dag.
Athugasemdir