Gomes efstur á óskalista Newcastle - Liverpool hefur einnig áhuga - Rætt um að stækka HM kvenna
   þri 20. ágúst 2024 20:00
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Samantha allt í öllu hjá Blikum - Valur kláraði Fylki í lokin
Samantha skoraði eitt og lagði upp tvö í fyrsta deildarleik sínum með Blikum. Hér fagnar hún fyrsta markinu með Birtu Georgsdóttur.
Samantha skoraði eitt og lagði upp tvö í fyrsta deildarleik sínum með Blikum. Hér fagnar hún fyrsta markinu með Birtu Georgsdóttur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lillý Rut Hlynsdóttir gerði fyrra mark Vals
Lillý Rut Hlynsdóttir gerði fyrra mark Vals
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helena Ósk gulltryggði sigur Vals
Helena Ósk gulltryggði sigur Vals
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samantha Rose Smith, nýr leikmaður Breiðabliks, kom að þremur mörkum liðsins í 4-2 sigrinum á Þrótti í Bestu deild kvenna í kvöld. Valur heldur toppsætinu eftir að hafa unnið 2-0 sigur á Fylki á Hlíðarenda.

Samantha kom til Breiðabliks frá Lengjudeildarliði Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis á dögunum, stuttu eftir að hafa hjálpað liðinu að tryggja sér sæti í Bestu deildina.

Hún skoraði 15 mörk í 14 deildarleikjum með FHL og gat ekki beðið um betri byrjun með Blikum.

Á 26. mínútu lagði hún upp fyrsta mark Blika fyrir Birtu Georgsdóttur. Samantha gerði vel úti hægra megin, kom honum í teiginn á Birtu sem kláraði færið vel.

Áður en hálfleikurinn var úti lagði Samantha upp annað mark sitt í leiknum. Hún kom með fyrirgjöfina inn í teiginn, sem virtist ekki hættuleg, en Mollee Swift, markvörður Þróttar, missti af boltanum og var Karitas Tómasdóttir tilbúin að nýta sér mistök heimaliðsins og skora.

Þróttarar komu sterkari út í síðari hálfleikinn. Melissa Garcia skoraði eftir hornspyrnu Sæunnar Björnsdóttur. Gott mark hjá heimakonum sem voru nú komnar inn í leikinn, en aðeins þremur mínútum síðar bættu Blikar við þriðja markinu eftir mistök Swift.

Samantha átti laflaust skot sem Swift missti fyrir fætur Vigdísar Lilju Kristjánsdóttur sem átti ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið. Önnur mistök Swift í leiknum.

Tuttugu mínútum fyrir leikslok skoraði Samantha fyrsta mark sitt fyrir Blika. Birta endurlaunaði Samönthu greiðann í fyrsta markinu, lagði boltann á bandaríska framherjann sem hamraði boltanum í markið.

Rúmum tíu mínútum fyrir leikslok minnkaði Caroline Murray muninn. Freyja Karín Þorvarðardóttir var grimm í baráttu sinni við Telmu Ívarsdóttur í markinu, lagði boltann út á Murray sem gerði annað mark Þróttara.

Lengra komst Þróttur ekki. Lokatölur 4-2 Blikum í vil sem eru með 45 stig í öðru sæti en Þróttur í 7. sæti með 20 stig.

Mörk Vals komu í lokin

Valur vann nauman 2-0 sigur á Fylki á Hlíðarenda. Gestirnir í Fylki vörðust vel stærstan hluta leiksins.

Í fyrri hálfleiknum náði Valur ekki að skapa sér neitt af viti. Besta færi fyrri hálfleiksins átti Fanndís Friðriksdóttir sem slapp í gegn eftir að Berglind Rós Ágústsdóttir lét boltann fara í gegnum klofið á sér, en Tinna Brá Magnúsdóttir, markvörður Fylkis, varði vel.

Tinna var að eiga stórleik í markinu. Hún átti aðra frábæra vörslu um hálftíma fyrir leikslok. Fanndís kom boltanum inn í teiginn á Jasmín Erlu Ingadóttur sem átti fast skot, en Tinna greip boltann.

Fylkiskonur fengu ágætis færi upp úr upphlaupum en náðu ekki að nýta nógu vel. Síðustu mínúturnar settu Valskonur meira púður í sóknarleikinn og uppskáru þær tvö mörk.

Fanndís átti hornspyrnu sem var hreinsuð frá. Valur hélt sókninni áfram. Boltinn fór aftur á Fanndísi sem kom honum inn í teiginn og á Lillý Rut Hlynsdóttur sem náði skotinu sem Tinna varði í slá og inn.

Helena Ósk Hálfdánardóttir gulltryggði sigurinn með öðru marki Vals í uppbótartíma. Nadía Atladóttir gerði vel í teig Fylkis áður en hún kom boltanum á Helenu sem afgreiddi boltann í netið. Helena og Nadíu höfðu komið inn á sem varamenn í síðari hálfleiknum.

Þolinmæðisvinna hjá Val sem heldur toppsætinu með 46 stig en Fylkir áfram í næst neðsta sæti með 9 stig.

Ein umferð er eftir af hefðbundinni tveggja umferða deild, en eftir það verður deildinni skipt í tvo hluta. Í meistarariðlinum spila liðin fimm leiki í einfaldri umferð, en í fallriðlinum eru spilaðir þrír leikir.

Úrslit og markaskorarar:

Þróttur R. 2 - 4 Breiðablik
0-1 Birta Georgsdóttir ('26 )
0-2 Karitas Tómasdóttir ('45 )
1-2 Melissa Alison Garcia ('51 )
1-3 Vigdís Lilja Kristjánsdóttir ('54 )
1-4 Samantha Rose Smith ('70 )
2-4 Caroline Murray ('79 )
Lestu um leikinn

Valur 2 - 0 Fylkir
1-0 Lillý Rut Hlynsdóttir ('82 )
2-0 Helena Ósk Hálfdánardóttir ('93 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner