Guehi vill fara til Liverpool - Viðræður við Gordon ganga illa - Man Utd skoðar stjóra
banner
   fös 21. júní 2024 20:04
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Þór/KA vann - Þróttur af botninum
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Þremur leikjum er lokið í Bestu deild kvenna í kvöld þar sem Þór/KA og Þróttur R. unnu heimaleiki á meðan Tindastóll vann góðan útivallarsigur í Keflavík.

Lestu um leikinn: Þór/KA 3 -  1 Fylkir

Á Akureyri tók Þór/KA á móti Fylki og náði forystunni eftir 23 mínútna leik, þegar Hildur Anna Birgisdóttir skoraði með föstu skoti utan vítateigs. Boltinn fór þó beint á Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Fylkis sem átti að gera betur.

Gestirnir úr Árbænum jöfnuðu metin á 39. mínútu þegar Karítas Sigurðardóttir nýtti sér slæma hreinsun Akureyringa til að skora af stuttu færi. Hún refsaði Hörpu Jóhannsdóttur markverði fyrir að takast ekki að slá boltann nógu langt frá marki og var staðan jöfn 1-1 í hálfleik.

Þór/KA skipti um gír í síðari hálfleik og skoraði tvö mörk á sex mínútna kafla. Fyrst skoraði Hulda Björg Hannesdóttir þegar hún fylgdi skalla Söndru Maríu Jessen eftir með marki, áður en Lara Ivanusa skoraði með skoti utan vítateigs en aftur er hægt að setja spurningarmerki við Tinnu Brá á milli stanganna.

Þór/KA sigldi sigrinum þægilega í höfn eftir þessi tvö mörk og jafnar Val þar með á stigum í öðru sæti deildarinnar - þremur stigum á eftir toppliði Breiðabliks.

Fylkir er í neðsta sæti deildarinnar, með 5 stig eftir 9 umferðir.

Þór/KA 3 - 1 Fylkir
1-0 Hildur Anna Birgisdóttir ('23)
1-1 Guðrún Karítas Sigurðardóttir ('39)
2-1 Hulda Björg Hannesdóttir ('72)
3-1 Lara Ivanusa ('78)

Þróttur tók þá á móti Stjörnunni í Laugardalnum og var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og tókst að skora á 40, mínútu, þegar Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði eftir hornspyrnu.

Þróttur fór inn í leikhlé með verðskuldaða forystu og fór síðari hálfleikurinn afar líflega af stað þar sem bæði lið fengu góð færi til að skora næsta mark, en inn rataði boltinn ekki.

Þróttur gerði vel að hægja á hraða leiksins þegar tók að líða á síðari hálfleikinn og gáfu heimakonur fá færi á sér á lokakaflanum. Niðurstaðan 1-0 sigur eftir mark frá Freyju Karín.

Þetta er afar dýrmætur sigur fyrir Þrótt sem lyftir sér úr botnsæti deildarinnar og úr fallsæti með þessum sigri.

Þróttur er með 7 stig og Stjarnan 9 eftir úrslit dagsins.

Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 0 Stjarnan

Þróttur R. 1 - 0 Stjarnan
1-0 Freyja Karín Þorvarðardóttir ('40)

Að lokum áttust Keflavík og Tindastóll við í fallbaráttuslag þar sem Jordyn Rhodes gerði gæfumuninn.

Jordyn skoraði eftir hornspyrnu á 28. mínútu og var staðan 0-1 í leikhlé, þó að heimakonur í Keflavík hafi fengið dauðafæri til að jafna metin en Monica Elisabeth Wilhelm varði meistaralega.

Gestirnir frá Sauðárkróki voru sterkari aðilinn í leik sem var þó þokkalega jafn en ekki mikið um góð færi. Leikurinn var þó opinn allt þar til á 86. mínútu þegar Jordyn innsiglaði sigur Stólanna með öðru marki leiksins.

Jordyn gerði þar með tvennu til að tryggja sigur í Keflavík, en seinna markið skoraði hún eftir gott einstaklingsframtak í skyndisókn.

Lestu um leikinn: Keflavík 0 - 2 Tindastóll

Keflavík 0 - 2 Tindastóll
0-1 Jordyn Rhodes ('28)
0-2 Jordyn Rhodes ('86)
Athugasemdir
banner
banner
banner