Það er gaman að sjá þegar erlendir leikmenn koma til landsins og setja mark sitt á efstu deild karla. Það eykur gæði deildarinnar og íslenskir leikmenn verða enn betri við að æfa með góðum mönnum.
Í sumar hefur aldrei verið jafn mikið af erlendum leikmönnum. Margir þeirra eru lítið meira en ágætisspilarar og sumir þeirra hreinlega lélegir.
Þó sýnir maður því fullan skilning þegar lið út á landi þurfi að manna lið sitt með erlendum leikmönnum einfaldlega til þess að ná í samkeppnishæft lið.
Hvað gera þessir erlendu leikmenn sem skara ekki fram úr fyrir félögin annað en að taka dýrmætan leiktíma af ungum leikmönnum eða fínum íslenskum leikmönnum sem er hent út í hafsauga fyrir það eitt að vera ekki með erlent vegabréf?
Útlendingablætið er algjört og við Íslendingar kiknum í hnjánum þegar það er minnst á erlenda leikmenn.
Enginn erlendur leikmaður kemur til þess að spila fótbolta á Íslandi vegna þess að hann er svo góður. Hann kemur vegna þess að hann kemst hvergi annars staðar að.
Njósnarar frá félögum út í heimi koma ekki til landsins til þess að skoða danska leikmenn. Þeir koma til þess að skoða unga íslenska leikmenn.
Fleiri heimamenn fá tækifæri í norsku úrvalsdeildinni heldur en í efstu deild á Íslandi. Það er áhyggjuefni. Í sumar eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa fengið tækifæri til þess að brjóta sér leið inn í lið í Pepsideildinni. Og það er ekki vegna þess að það er vöntun á efnilegum leikmönnum.
Það hlýtur að vera kappsmál íslenskra liða að búa til leikmenn. Og það er frábært að sjá þá fáu erlendu leikmenn sem koma til Íslands, setjast jafnvel hér að til lengri, og bæta íslenskan fótbolta.
En það er engum til góðs þegar liðin eru með útlendinga bara til þess að vera með útlendinga.
Sjá einnig:
„Grátlegt þegar lélegir útlendingar taka pláss frá ungum leikmönnum"
Úttekt: 126 erlendir leikmenn í efstu þremur deildunum (2. júní)
Félögin telja svarið of oft vera erlendir leikmenn
Athugasemdir