126 erlendir leikmenn hafa komið við sögu í efstu þremur deildunum á Íslandi í sumar en það gera 19,33% allra leikmanna sem hafa spilað mínútur í þessum deildum í sumar. Þetta kemur fram í úttekt sem birtist á Fótbolta.net í dag.
Fótbolti.net leitaði til Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara og varaformanns hjá Knattspyrnuþjálarafélagi Ísands, og fékk hann til að meta kosti og galla þess að fá erlenda leikmenn til að koma til Íslands og spila fótbolta.
Fótbolti.net leitaði til Kristjáns Guðmundssonar, þjálfara og varaformanns hjá Knattspyrnuþjálarafélagi Ísands, og fékk hann til að meta kosti og galla þess að fá erlenda leikmenn til að koma til Íslands og spila fótbolta.
„Aukin víðsýni er augljós kostur. Leikmenn koma til landsins með önnur viðhorf og aðrar venjur. Breiddin eykst og uppaldir leikmenn þurfa að vera betri til að ná í gegn. Erlendir leikmenn sem eru góðir skilja mikið eftir sig," sagði Kristján um kostina.
„Gallar: Ef þeir eru ekki nægjanlega góðir þá taka þeir pláss og leiktíma í liðum frá uppöldum leikmönnum. Þeir kosta mun meira en íslenskir leikmenn sem væru á sama getustigi í leikmannahópnum og taka þá fjármuni sem annars væru nýttir í annað."
„Félög þurfa að hugsa á víðari grundvelli"
Af leikmönnunum 126 hafa 60 erlendir leikmenn spilað í Pepsi-deildinni í sumar. Í 22% af innáskiptingum í Pepsi-deildinni eru það erlendir leikmenn sem koma inn á. Kristján er á því að fjöldi erlendra leikmanan í íslenska fótboltanum sé orðinn of mikill.
„Já mér finnst það vera svo. Hræðslan við að tapa fótboltaleikjum hefur farið sem farsótt um fótboltaheiminn og þjálfarar sem stjórnarmenn í alltof mörgum tilvikum telja svarið vera erlendur leikmaður til þess að koma í veg fyrir tapið í næsta leik í stað þess að gefa hlutunum tíma og þjálfa leikmennina sem fyrir eru."
„Í flestum tilvikum er það hægt í einhverjum ekki en félög þurfa að hugsa á víðari grundvelli og félagsmiðað sem skilar sér í betri árangri til framtíðar og framtíðin þarf ekki alltaf að vera hugsuð í árum, hana er auðveldlega hægt að telja í mánuðum. Félögin eru alltof leikmannamiðuð. Það er skipt ört um þjálfara sem sækir „sína“ leikmenn og losar aðra sem fyrir eru, þar með næst aldrei nein samfella í vinnu með liðið í stað þess að markmið, leik- og hugmyndafræði félagsins séu í forgangi."
Vill sjá fleiri unga leikmenn fá tækifæri
60 leikmenn sem eru 19 ára og yngri, á 2. flokksaldri, hafa spilað í efstu þremur deildunum í sumar. Kristján telur að of fáir ungir leikmenn séu að fá tækifæri á Íslandi.
„Já, heilt yfir er ég þeirrar skoðunar. Athyglin sem íslensk knattspyrna hefur fengið hefur einnig þau áhrif að erlendir leikmenn sjá að það er einhver vitglóra í því sem að við erum að gera og sjá möguleika með því að spila á Íslandi. Það er þó lífsnauðsynlegt fyrir íslenska knattspyrnu að ungir leikmenn fái fleiri tækifæri og það helst með sterkustu liðum landsins."
„Við sjáum að í byrjunarliði landsliðs Íslands í dag eru leikmenn sem langflestir spiluðu í efstu deild eða deildum á Íslandi áður en þeir fóru erlendis til að spila og ekki erum við með slakt landslið. Það skýtur einnig skökku við að á þessu keppnistímabili þar sem mikil athygli beinist að íslenskri knattspyrnu og deildarkeppninni hér heima að þá erum við að slá met í fjölda erlendra leikmanna í deildunum. Athyglin sem upprennandi landsliðsmenn okkar ættu að fá verður minni fyrir vikið."
Þarf að hugsa næstu skref Íslands
Umræðan hefur verið talverð í vor um fjölda erlendra leikmanna enda stefnir í metfjölda í sumar. Kristján vill að umræðan sé áfram opin um þessi mál.
„Þessi mál þurfa að vera í sífelldri umræðu og þurfa allir að koma þar að en nú er nauðsynlegt að við höldum vöku okkar og hugsum næstu skref með framtíð íslenskrar knattspyrnu. Framþróunin hefur verið hröð og góð en nú þurfum við að hugsa næstu skref til þess að halda því forskoti sem við höfum náð undanfarin ár á aðrar þjóðir og helst auka það," sagði Kristján.
Sjá einnig:
Úttekt: 126 erlendir leikmenn í efstu þremur deildunum
Athugasemdir