mán 21. september 2020 12:55
Fótbolti.net
Úlfur Blandon: Eins og Arnar sé kominn í skotgrafirnar með sitt prógramm
Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir að Víkingur tapaði fyrir FH á fimmtudaginn fór Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, í viðtal sem vakti talsverða athygli en hann gagnrýndi þar leikstíl FH.

Í útvarpsþættinum Fótbolti.net var rætt um þessi ummæli og ýmsir sem sögðu að Arnar ætti frekar að einbeita sér að sínu liði frekar en að hrauna yfir leikstíl mótherjana.

Arnar hefur hingað til ekki verið vanur því að gagnrýna önnur lið.

„Mér fannst hann fara aðeins yfir strikið og ég kann ekki vel við það þegar þjálfarar eru farnir að 'þjálfa' annað lið eða gagnrýna fótbolta hjá öðrum liðum. Mér finnst það ekki vænlegt til árangurs. Maður upplifir þetta þannig að hann sé aðeins kominn í skotgrafirnar með sitt prógramm, þennan stíl sem hann vill spila," segir Úlfur Blandon í þættinum.

„Þegar menn eru með miklar tilfinningar og skoðanir þá segja þeir oft hluti sem þeir hefðu betur viljað sleppa. Ég veit ekki hvort hann sjái eftir þessum ummælum en hann ætti að einbeita sér að því sem hann er að gera. Hann er að þjálfa Víking sem er með hörkulið og fullt af frábærum leikmönnum. Þetta er alls ekki ódýrasti hópurinn á landinu og þeir eiga klárlega að vera ofar í töflunni. Mér hefur þótt fótboltanálgunin hjá honum ekki of langt frá því að vera barnaleg. Þeir spila stórhættulega inni í vítateig á meðan lið eins og FH fara einfaldar í hlutina."

„Leikmannahópur Víkinga er betri en stigasöfnunin segir," segir Úlfur og Tómas Þór tekur undir að stigasöfnunin hafi verið algjör vonbrigði.

„Ég ætla ekki að taka undir þessa gagnrýni varðandi ummælin en ég skil hvert fólk er að fara," segir Tómas.

„Það má ekki gleyma því að Arnar gagnrýndi líka sitt eigið lið í þessu viðtali. Hann segir það sem honum finnst og ég skil ekki af hverju við eigum að lasta hann fyrir það núna. Hann vill ekki spila svona fótbolta eins og til dæmis FH er að spila. Hvort hann hafi átt að eiga orð á því þarna er alveg ágætis punktur. Víkingsliðið er nánast ekkert að skora, þetta hefur verið algjört þrot þegar kemur að því að skora mörk. Það er ótrúlegt að Óttar Magnús Karlsson sé þó búinn að skora þetta mörg mörk. Ábyrgð hvers og eins í varnarleiknum er vandamál og mörkin sem liðið fær á sig út úr kú. Þegar kemur að stigasöfnun er þetta tímabil algjört flopp, algjör vonbrigði."
Útvarpsþátturinn - Þjálfarar Pepsi Max fá einkunnir og vandræði íslenskra liða í Evrópu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner