Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   mán 22. júlí 2024 13:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ómar staðfestir hásinaslitin - „Er að fara kaupa markmannshanska núna"
Arnar Freyr varð fyrir því óláni að slíta hásin gegn Vestra.
Arnar Freyr varð fyrir því óláni að slíta hásin gegn Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Beitir spilaði síðast tímabilið 2022, fyrir utan einn leik með Gróttu í fyrra.
Beitir spilaði síðast tímabilið 2022, fyrir utan einn leik með Gróttu í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Örn Ásgeirsson.
Ólafur Örn Ásgeirsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Stefán Stefánsson.
Stefán Stefánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ómar Ingi Guðmundsson.
Ómar Ingi Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Freyr Ólafsson, aðalmarkvörður HK, sleit hásin í leik liðsins gegn Vestra á laugardag. Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, staðfestir tíðindin í samtali við Fótbolta.net.

„Núna er ég bara að hringja og skoða í kringum mig," segir Ómar aðspurður um framhaldið í markmannsmálum.

Munu frekar veðja á sína stráka en aðra unga markverði
Á toppi Lengjudeildarinnar er Fjölnir og á varamannabekknum þar situr Sigurjón Daði Harðarson sem er með talsverða meistaraflokksreynslu. Ómar er spurður hvort að Sigurjón gæti verið markvörður sem hann gæti reynt að fá.

„Við erum eiginlega ákveðnir í því að ef við getum ekki fengið einhvern eldri og reynslumeiri markmann, þá munum við veðja á okkar markmenn. Við myndum kalla Óla (Ólaf Örn Ásgeirsson) heim frá Völsungi og gefa okkar ungu mönnum tækifæri, frekar en að taka unga menn einhvers staðar annars staðar frá."

„Við eigum Óla og Stebba (Stefán Stefánsson sem kom inn á fyrir Arnar gegn Vestra). Óli gerði mjög vel með ÍR í 2. deild í fyrra þegar ÍR fór upp. Hann er að gera vel fyrir norðan með Völsungsliði sem er að spila betur en margir bjuggust við. Ástæðan fyrir því að hann hefur verið lánaður út er sú að reyna undirbúa hann til að allavega veita alvöru samkeppni um markvarðarstöðuna á endanum."


Beitir hjálpar til
Beitir Ólafsson skipti yfir í HK fyrir lok félagaskiptagluggans í vor. Ómar nefndi eftir leikinn gegn Vestra að hann myndi ræða við Beiti um mögulega endurkomu í boltann.

„Ég er að fara kaupa markmannshanska núna svo hann geti verið með á æfingu í kvöld. Hugsunin með því að hann myndi skipta var mögulegt rautt spjald hér og þar og við þyrftum mann í einn leik. Við gerðum aldrei ráð fyrir því að hann væri að fara rífa skóna fram til frambúðar. Hann er með fjölskyldu, er í vinnu og var áðan að steypa hús. Hann ætlar allavega að hjálpa okkur í gegnum æfingarnar, á meðan við þurfum á því að halda. Við vitum ekkert á hvaða stað hann er fótboltalega, þó að hann sé alltaf í toppstandi líkamlega."

Markmiðið að leysa stöðuna fyrir næsta leik
Það eru sex dagar í leikinn á móti Víkingi. Býstu við því að markmannsmálin verði leyst til frambúðar fyrir þann leik?

„Það er markmiðið að þetta verði komið á hreint, en hvort það náist er annað mál. Við munum kanna markaðinn hérna innanlands, hvort það sé einhver sem bæði er nógu góður til að hjálpa okkur og hægt að losa. Ef ekki, þá bara spilar Stefán."

Ekki margir sem hugsa jafnvel um sig og Arnar
Varðandi þessi meiðsli hjá Arnari, var eitthvað sem gaf til kynna að þetta gæti gerst hjá honum? Var hann eitthvað tæpur?

„Nei, þessi hásinaslit eru bara þannig. Ég hef heyrt talað um að annað hvort ertu með hásin sem á að slitna eða ekki. Ég ætla ekki að taka neitt af öðrum, en það eru örugglega ekki margir leikmenn í deildinni sem hugsa jafnvel um sig og Arnar. Hann er alltaf fyrstur á æfingu og alltaf síðastur út. Allt sem hann gerir snýst um að vera í eins góðu líkamlegu standi fyrir fótboltann og hægt er. Að hann slíti hásin styrkir mig í þeirri trú að annað hvort ertu með hásin sem slitnar, eða ekki. Það er engin skrítin hreyfing í þessu, það er ekkert högg frá neinum öðrum, hann bara er að fara af stað úr teignum og þá bara fer þetta. Það var ekkert í aðdragandanum sem gat gefið til kynna að hann væri tæpur. Hann lyfti örugglega 7-800 kílóum í síðustu viku, í alls konar formi, svona bara gerist."

Í forgangi að fá þau mál á hreint
Er HK að horfa í einhverja aðra stöðu á vellinum í glugganum?

„Við erum bara að skoða markaðinn, get ekki sagt að við séum með einhvern laserfókus á einhverja eina leikstöðu. Við sjáum bara hvort að markaðurinn bjóði upp á það að við getum styrkt liðið okkar. Ef það er leikmaður sem við heyrum af að geti verið á hreyfingu sem er þess eðlis að hann myndi styrkja liðið okkar, þá að sjálfsögðu myndum við skoða það. Akkúrat núna erum við bara að leita að markverði, en erum með augun opin fyrir öðru."

„Það breytist allt hjá okkur farandi inn í gluggann að fara skoða leikstöðu sem við ætluðum okkur að skoða. Fjárhagslega, hversu mikið heggur þetta í það sem við vorum búnir að safna saman? Núna er í forgangi að fá þau mál á hreint og svo sjáum við hvar við stöndum eftir það."


HK er svo að missa Ívar Orra Gissurarson út í háskólanám í Bandaríkjunum.

Of mikið af ódýrum mörkum
HK er í 10. sæti með 14 stig eftir 15 leiki. Ertu sáttur við stöðuna?

„Nei, það er enginn af okkur sáttur við stöðuna eins og hún er núna. Við ætluðum okkur að vera í það minnsta á sama stað stigalega séð og við vorum í fyrra í gegnum tímabilið. Við vorum sirka þar eftir fyrstu 11 leikina. Það eru leikir, eins og síðasti leikur og fyrri leikurinn á móti Vestra líka, þar sem mér finnst við í raun gefa frá okkur öll þau stig sem við tókum ekki úr þeim leikjum. Bæði mörkin í leikjunum eru alltof ódýr gegn liði sem er í kringum okkur stigalega séð. Það er of mikið af augnablikum í leikjum sem hefði átt að vera hægt að koma í veg fyrir og þ.a.l. skilað okkur fleiri stigum."

„Ég er ekki sáttur, en ég er ekkert bilaðslega ósáttur eða vonsvikinn með stöðuna, alls ekki. Það er of auðvelt að pikka í einstaka hluti sem hefðu getað farið öðruvísi, hlutir sem við hefðum getað gert betur,"
segir Ómar að lokum.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 21 14 4 3 48 - 25 +23 46
2.    Víkingur R. 20 13 4 3 47 - 23 +24 43
3.    Valur 21 10 5 6 49 - 32 +17 35
4.    FH 21 9 5 7 36 - 35 +1 32
5.    ÍA 21 9 4 8 40 - 31 +9 31
6.    Stjarnan 21 9 4 8 39 - 35 +4 31
7.    KA 21 7 6 8 32 - 37 -5 27
8.    Fram 21 7 5 9 28 - 29 -1 26
9.    KR 20 5 6 9 34 - 39 -5 21
10.    HK 21 6 2 13 23 - 51 -28 20
11.    Vestri 21 4 6 11 22 - 42 -20 18
12.    Fylkir 21 4 5 12 26 - 45 -19 17
Athugasemdir
banner
banner
banner