Pickford framlengir við Everton - Barcelona hyggst kaupa Rashford - Ekki framlengt við Lewandowski
   mán 22. september 2025 14:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gústi líklega hættur í þjálfun - „Ég geng sáttur frá borði"
'Ég óska Leikni alls hins besta og þakka þjálfarateyminu, leikmönnum, stjórn og stuðningsmönnum fyrir tímann'
'Ég óska Leikni alls hins besta og þakka þjálfarateyminu, leikmönnum, stjórn og stuðningsmönnum fyrir tímann'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Endaði tvisvar með Breiðabli í 2. sæti.
Endaði tvisvar með Breiðabli í 2. sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mitt mottó er að vilja gera aðra í kringum mig betri'
'Mitt mottó er að vilja gera aðra í kringum mig betri'
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Gerði mjög flotta hluti með Fjölni.
Gerði mjög flotta hluti með Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var hringt í mig í sumar og ég ákvað að slá til og hjálpa uppeldisklúbbnum. Á lokahófinu fann ég að bæði stuðningsmenn og stjórn vildu halda mér, en ég tjáði þeim að ég væri í raun hættur í þjálfun. Ég vil kúpla mig aðeins út úr þessu, í smá tíma allavega, eins og ég gerði eftir tímann hjá Stjörnunni," segir Ágúst Gylfason sem ákvað í síðustu viku að halda ekki áfram sem þjálfari Leiknis.

Hann tók við liðinu fyrir 6. umferð mótsins, 100 daga verkefni, og náði að bjarga liðinu frá falli með góðum endaspretti.

„Ég tók við liðinu í mjög erfiðri stöðu, það var ekki auðvelt að snúa genginu við og tók á. En við getum verið nokkuð sáttir við niðurstöðuna þegar uppi var staðið. Ég óska Leikni alls hins besta og þakka þjálfarateyminu, leikmönnum, stjórn og stuðningsmönnum fyrir tímann," segir Gústi.

Mögulega var þetta lokagiggið í þjálfuninni
100 daga verkefnið, var eitthvað rætt um möguleikann að þú yrðir áfram á næsta tímabili?

„Þeir komu til mín fyrir rúmum tveimur vikum síðan og við ræddum aðeins málin. Ég vildi klára mótið, sjá hvernig staðan yrði, ég var þá ekki búinn að ákveða eitt né neitt. Ég vildi bara klára þessa 100 daga og sjá hvert það myndi leiða okkur. Svo ræddum við aðeins saman á lokahófinu og þá sagði ég við þá að ég væri búinn að ákveða að segja þetta bara fínt. Mögulega var þetta loka giggið mitt í fótboltanum sem aðalþjálfari - þó að ég loki ekki endilega á allt. Í bili ætla ég að njóta aðeins og núllstilla mig aðeins."

Gústi hafði verið án starfs frá því að hann og Stjarnan slitu samstarfi sínu snemma tímabils 2023. Í fjarverunni milli starfsins hjá Stjörnunni og svo starfsins hjá Leikni, saknaðir þú ekkert boltans?

„Nei, í rauninni ekki. Ég saknaði ákveðna augnablika, saknaði þess að upplifa sigurtilfinninunga, klefans og að vera úti á æfingasvæði. Ég fann fyrir neistanum koma þegar ég steig inn í klefa á fyrstu æfingunni upp í Breiðholti. Mér leið eins og ég væri kominn heim. Maður er í vinnunni og svo æft sex sinnum í viku. Þetta var mikil áskorun að púsla öllu saman. En eldmóðurinn hefur ekkert fjarað út, mér finnst rosalega gaman að vera í kringum æfingasvæðið, stýra leikjum og vera í öllum samskiptunum, maður þekkir það mjög vel. En það er erfitt að púsla saman vörustýringu í fullri vinnu og á sama tíma verið 100% í fótbolta líka, tekur alveg á."

Gengur sáttur frá borði
Gústi hóf þjálfaraferil sinn í Grafarvogi og náði eftirtektarverðum árangri með lið Fjölnis. Hann fór næst í Kópavoginn þar sem hann stýrði liðinu í tvígang í 2. sætið. Næst tók hann við Gróttu í erfiðu verkefni í efstu deild og var svo hjá Stjörnunni í rúmt tímabil.

Ef þú lítur til baka, hefur þú náð að gera það sem þú vildir gera sem þjálfari?

„Ég sækist eftir sigrum; bæði litlum og stórum. En mitt mottó, bæði sem leikmaður og svo þjálfari, er að vilja gera aðra í kringum mig betri. Mér finnst ég klárlega hafa gert það bæði sem leikmaður og þjálfari. Ég er sáttur við það sem ég hef áorkað, fyrst sem fótboltamaður og svo sem þjálfari. Ég geng sáttur frá borði."

Opinn fyrir því að koma inn í ráðgjafahlutverk
Gústi hefur sagt við Leikni og fleiri félög að hann sé opinn fyrir því að koma að einhverju leyti að starfinu, býður fram sína krafta sem ráðgjafi ef óskað er eftir því.

„Hvort sem það sé ráðgjöf til leikmanna, framkvæmdastjóra eða þjálfara. Það gæti verið andlegi þátturinn, taktík eða hvað sem er - svipað og Óli Jó hefur gert hjá Val. Ég er alveg tilbúinn að koma þannig að hlutunum og sé alveg fyrir mér að það gæti gagnast einhverjum. Ég er kannski ekki alveg tilbúinn að kúpla mig alveg út úr öllu, en eins og staðan er núna vil ég fókusa á aðra hluti, fjölskylduna, börn og barnabarn. Það mikilvægasta í lífinu er umgjörðin í kringum þig; fjölskyldan."

Skrítið að vera ekki með lið í BOSE
Gústi hefur haldið úti BOSE-mótinu sem hefur verið fyrsta undirbúningsmót vetrarins.

„Ég er búinn að vera með BOSE mótið í öll þessi ár, tengingin við boltann í gegnum það finnst mér mjög skemmtileg. Það var skrítið að vera ekki með lið sjálfur í mótinu, þá var ég að stýra mótinu án þess að vera með lið. Að vera í samskiptum við þjálfarana, fá smá smjörþefinn af fótboltanum, halda því við, er mjög skemmtilegt," segir Gústi.

BOSE-mótið verður haldið í vetur, spilað í nóvember og desember en úrslitaleikurinn verður svo spilaður í mars eins og á síðasta móti.
Athugasemdir
banner