Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mið 23. ágúst 2017 13:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ráðningarferli knattspyrnuþjálfara - Atriði til íhugunar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Merki
Mynd: Getty Images
Nú líður að háannatímabili í ráðningarmálum knattspyrnuþjálfara. Af því tilefni vill stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands (KÞÍ) beina nokkrum atriðum/heilræðum til þjálfara og íþróttafélaga við ráðningarferli þjálfara:

• Knattspyrnuþjálfarastarfið er krefjandi starf þar sem reynt getur á forystu, stjórnun, kennslu og uppeldi. Því fylgir mikil ábyrgð.
• KÞÍ lítur fremur á þjálfarastarfið sem ráðningarsamband en verksamband.Við ráðningu þjálfara og alla samningsgerð þarf þetta að liggja ótvírætt fyrir enda mismunandi réttindi og skyldur sem gilda, eftir því hvort þjálfari er launamaður eða verktaki. Það hvort heiti samnings er „ráðningarsamningur“ eða „verksamningur“ sker ekki úr um hvort þjálfari sé launamaður eða verktaki.
• Ekkert stéttarfélag er að baki knattspyrnuþjálfurum og engir kjarasamningar taka til þeirra starfa sérstaklega. Að því leyti nýtur þjálfarastarfið takmarkaðrar réttarverndar.Inn í það blandast auknar kröfur um árangur sem alltof oft er mældur í úrslitum einvörðungu. Af þessum sökum er starfsöryggi þjálfara takmarkað.
• Þegar íþróttafélag og þjálfari gera ráðningarsamning ætti að hafa kjarasamninga á vinnumarkaði til hliðsjónar, t.d. kjarasamning VR, sem væri ráðningarsamningi til fyllingar. Ef samið er um slíkt fyrirfram, auðveldar það alla úrvinnslu á síðari stigum, ef upp kemur ágreiningur um réttindi og skyldur. Er þetta ekki síður til þess fallið að tryggja réttarstöðu þjálfara og bæta starfsumhverfi og -öryggi þeirra.
• Við samningsgerð ríkir samningsfrelsi og almennt eru samningar ekki formbundnir. Á vinnumarkaði er þó almennt gerð krafa um skriflegan ráðningarsamning. KÞÍ mælist til þess að stuðst sé við ákveðna fyrirmynd af formi þjálfarasamnings sem er „ráðningarsamningur“.
• Í þjálfarasamningi þarf ótvírætt að mæla fyrir um helstu meginskyldur beggja samningsaðila. Orðalag um það hverjar helstu skyldur þjálfara eru þarf að vera skýrt og ótvírætt. Dæmi eru um að með óskýru orðalagi sé unnt að auka í sífellu skyldur þjálfara, án endurgjalds. Er þessu atriði ekki síst beint að ungum þjálfurum sem eru að stíga sín fyrstu skref í þjálfun.
• Um greiðslur og önnur hlunnindi þarf að mæla skýrt fyrir, þ. á m. hvernig fara eigi með allar breytingar á samningstíma. Sé þjálfari t.d. ráðinn til þess að sinna þjálfun á einum stað og aðstoðarþjálfun á öðrum stað, væri skýrara að sundurgreina hvernig greiðslum er háttað. Dæmi eru um að þjálfara sé ætlað að sinna ýmiss konar þjálfun hjá félagi, fyrir eina tiltekna upphæð, en starfskyldum, og greiðslum að sama skapi, svo breytt einhliða, án þess að um slíkt hafi verið samið.
• Við samningsgerð er brýnt að mæla fyrir um gildistíma samnings. Að jafnaði eru samningar við þjálfara tímabundnir. Meginreglan er sú að tímabundnum samningi verður ekki sagt upp nema um það sé sérstaklega samið. Á þessu er mikill misbrestur í framkvæmd. KÞÍ brýnir fyrir íþróttafélögum og þjálfurum að hafa ákvæði um það skýr og ótvíræð, eigi að vera unnt að segja upp tímabundnum samningi.Þá er einnig algengt við starfslokað ekki sé greint á milli riftunar og uppsagnar. Við starfslok kann þetta að hafa þýðingu því riftun byggir á vanefnd en uppsögn ekki.
• Þjálfarasamningar hafa, að jafnaði, að geyma ákvæði um samningsbrot og riftun. Aldrei er unnt að mæla fyrir um öll þau atvik sem kunna að fela í sér samningsbrot og kunna að leiða til riftunar. Eðli máls samkvæmt kann það að fela í sér samningsbrot ef t.d. ekki er staðið við meginskyldur samnings. Slíkar vanefndir kunna ótvírætt að vera grundvöllur riftunar. Að mati KÞÍ er of algengt að samningar feli í sér matskennd ákvæði um riftun og atriði, sem á engan hátt teljast til meginskyldna, séu grundvöllur skilyrðislausar riftunar. Almennt ætti sú grundvallarregla að gilda, að sé litið svo á að þjálfari hafi brotið gegn starfsskyldum sínum og þau brot séu ekki þeim mun alvarlegri, að gefa ætti þjálfara kost á að bæta úr annmörkum.
• Við uppsögn þjálfara verður, að jafnaði, breyting á réttarsambandi þjálfara og félags. KÞÍ hvetur íþróttafélög og þjálfara til þess að semja um starfslok með formlegum hætti, um leið og þau hafa verið ákveðin. Of mörg dæmi eru um að þjálfurum sé sagt upp án þess að gengið sé frá starfslokum.
• Innan knattspyrnuhreyfingarinnar er ekki til staðar málsskotsúrræði komi til ágreinings milli þjálfara og íþróttafélags. Oftast lýtur ágreiningur um uppgjör við starfslok og lögmæti uppsagnar. Ef þjálfari er félagsmaður í KÞÍ getur hann leitað til félagsins ef upp kemur ágreiningur. KÞÍ reynir að hafa milligöngu um að samið sé formlega um uppgjör við starfslok og að tryggja að rétt sé staðið að því. Þegar ágreiningur er um lögmæti uppsagnar eru ekki önnur úrræði en að skjóta þeim ágreiningitil íslenskra dómstóla. Slík mál eru fátíð.
• KÞÍ brýnir fyrir íþróttafélögum og þjálfurum þaðgrundvallaratriði við samningsgerð að sýna viðsemjanda tillitssemi og trúnað. Gildir slíkt ekki síður við starfslok, t.d. um ástæður starfsloka. Þjálfun byggir á trausti og gildishlaðnar og óræðar yfirlýsingar um ástæður starfsloka kunna að grafa undan trausti þjálfara sem langan tíma getur tekiðað endurheimta.
• Loks hvetur KÞÍ hlutaðeigandi að flýta sér hægt við samningsgerð og huga vel að gerð „smáa letursins“.

Reykjavík, ágúst 2017,
Stjórn KÞÍ.
Athugasemdir
banner
banner