Sportbloggið - Jóhann Ólafur Sigurðsson skrifar:
Pistillinn birtist upphaflega á Sportblogginu
Gerardo Martino var ráðinn nýr þjálfari Barcelona á mánudaginn, 22. júlí, og kom sú ráðning ýmsum á óvart. Það eru án efa margir sem hafa lítið sem ekkert heyrt um Martino, enda hefur allur þjálfaraferill hans farið fram í S-Ameríku. Sportbloggið ákváð því að líta stuttlega á feril hans.
Gerardo Martino var ráðinn nýr þjálfari Barcelona á mánudaginn, 22. júlí, og kom sú ráðning ýmsum á óvart. Það eru án efa margir sem hafa lítið sem ekkert heyrt um Martino, enda hefur allur þjálfaraferill hans farið fram í S-Ameríku. Sportbloggið ákváð því að líta stuttlega á feril hans.
Gerardo “Tata” Martino fæddist 20. nóvember 1962 í Rosario í Argentínu. Stærstur hluti ferils hans sem leikmanns fór fram hjá heimaliði hans, Newell´s Old Boys en þar lék hann í heildina 505 leiki í öllum keppnum. Hann á einnig einhverja leiki með Lanús í Argentínu, Barcelona SC í Ekvador og O´Higgins í Chile. Einnig lék hann 15 leiki með Tenerife á Spáni og er það eini hluti ferils hans hingað til sem farið hefur fram utan S-Ameríku.
Martino náði góðum árangri sem leikmaður Newell´s Old Boys þar sem hann varð meistari þrisvar sinnum. Þess má geta að í kosningu meðal stuðningsmanna liðsins var hann valinn besti leikmaður félagsins frá upphafi. Martino er hins vegar þekktari fyrir þjálfaraferil sinn, og þá helst fyrir tíma sinn sem þjálfari Paragvæ. Hann þjálfaði liðið á árunum 2006-2011 og kom því t.a.m. í 8-liða úrslit HM 2010, en þar féll liðið út gegn verðandi meisturum Spánar, en eina mark leiksins kom ekki fyrr en á 83. mínútu leiksins. Hann náði fyrst árangri sem þjálfari í Paragvæ, þar sem honum tókst að næla sér í fjóra meistaratitla, en þar þjálfaði hann liðin Libertad og Cerro Porteno.
Þrjá titla náði hann sér í með Libertad og einn með Cerro Porteno. Það var einmitt í ljósi þessa árangurs og þekkingar hans á Paragvæsku knattspyrnunni sem hann var ráðinn landsliðsþjálfari Paragvæ árið 2006. Þar beið hans erfitt starf við að byggja upp nýtt lið eftir að lykileikmenn líkt og José Luis Chilavert, Carlos Gamarra, Fransisco Arce og Celso Ayala höfð lagt landsliðsskóna á hilluna eftir HM 2006. Paragvæ spilaði í fyrstu mjög opinn sóknarbolta undir stjórn Martino en eftir að hafa verið gjörsigrað af Mexíkó, 6-0, í 8-liða úrslitum Copa America 2007 ákvað Martino að breyta leikaðferð liðsins gegn vissum liðum til að forðast álíka niðurlægingu. Hann náði ótrúlegum árangri með liðið í undankeppni HM 2010 en þar endaði það með 33 stig, aðeins stigi á eftir Brasilíu og fimm stigum á undan Argentínu.
Eins og áður hefur komið fram stóð liðið sig gríðarlega vel í lokakeppni mótsins þar sem það var ekki langt frá því að slá út verðandi meistara Spánar. Þess má geta að á 61 mínútu leiksins fékk liðið vítaspyrnu, en Iker Casillas varði skot Oscar Cardozo. Martino sagði síðan starfi sínu lausu eftir Copa America 2011 þar sem liðið komst, ótrúlegt en satt, í úrslitaleikinn án þess að vinna leik. Þrjú jafntefli í riðlakeppninni komu því áfram, sigrar í vítaspyrnukeppnum gegn Brasilíu og Venesúela fylgdu síðan áður en liðið tapaði 3-0 í úrslitaleiknum gegn Úrúgvæ.
Martino var þrálátlega orðaður við þjálfarastarf Argentínu eftir að hann hætti með Paragvæ en á endanum var það Alejandro Sabella sem var ráðinn. Hann tók sér þá frí frá boltanum í eitt ár áður en hann sneri aftur til Newell´s Old Boys, núna sem þjálfari liðsins. Þar náði hann ótrúlegum árangri á þeim tveimur árum sem hann þjálfaði liðið. Tókst honum að vinna fyrsta titil liðsins frá árinu 2004 þegar liðið stóð uppi sem sigurvegari í seinni hluta Argentínsku deildarinnar, Torneo Final 2013. Sá árangur er nokkuð magnaður þar sem að liðið endaði í 19. og 18. sæti tímabilin áður en hann tók við þjálfun liðsins.
Síðasti leikur Martino með liðið var í undanúrslitum Copa Libertadores þar sem Newell´s féllu úr leik eftir vítaspyrnukeppni gegn Atletico Mineiro. Gjörðir stuðningsmanna Newell´s eftir leikinn sýna best hversu mikilvægur Martino hefur verið fyrir félagið í gegnum tíðina. Þeir fjölmenntu fyrir utan heimili hans, sungu söngva með nafni hans og veifuðu fánum. Það má með sanni segja að hann sé svokallað “club legend”.
Hvað var það sem gerði það að verkum að Barcelona ákvað að ráða þjálfara sem aðeins hefur starfað í S-Ameríku? Lionel Messi er talinn hafa þar átt hlut að máli, en hann hefur sagt eftir ráðninguna að Martino sé frábær þjálfari sem láti lið sín spila góðan fótbolta. Annað sem hefur mjög líklega haft áhrif er það að Martino hefur sjálfur sagt það opinberlega að hann sé lærisveinn hins “fallega leiks”, að sá leikstíll sem Guardiola innleiddi hjá Barca sé sá stíll sem hann sjálfur vill helst spila. Martino hefur verið þekktur fyrir að spila t.a.m. 4-3-3 með svokallaða “false 9″ sem hentar Barca fullkomlega.
Hann hefur spilað “góðan” fótbolta með félagsliðum sínum, en á sama tíma skapaði hann ótrúlega varnarsinnað lið með Paragvæ. Er ekki bara gott að geta náð árangri jafnt með varnar- sem sóknarbolta? Sá þjálfari sem hefur hins vegar haft mest áhrif á Martino er Marcelo Bielsa, en hann þjálfaði einmitt Newell´s árin 1990-1992 og lék Martino undir hans stjórn. Bielsa er þekktur fyrir að leika mjög opinn sóknarbolta, Chile og Athletic Bilbao undir hans stjórn eru góð dæmi um það.
Leikmönnum Barcelona virðist a.m.k. lítast vel á ráðninguna, en nokkrir hafa verið fljótir að tjá sig um hana. Áður hefur verið minnst á áhrif Lionel Messi en aðrir leikmenn hafa einnig látið í sér heyra. Andrés Iniesta telur að ráðning Martino sé fullkomin fyrir liðið, en það sem hann sagði orðrétt er: ,,Hvað sem félagið ákveður þá er það hið besta fyrir Barca. Ég held að hann passi vel inn í skipulagið okkar,” áður en hann bætti við ,,ef félagið hefur ákveðið að ráða hann, þá er hann fullkominn þjálfari fyrir okkur.” Hann hefur svo sannarlega tröllatrú á félagi sínu hann Iniesta.
Þjálfarar sem hafa fært sig frá S-Ameríku til Evrópu hafa oft ekki náð sama árangri og þeir höfðu áður náð. Á miðað við þann fótbolta sem Martino “aðhyllist” ætti hann að smella eins og flís við rass hjá Barcelona og því er ekkert að vanbúnaði að hann nái frekari árangri með þetta frábæra Barcelona lið. Að lokum læt ég hér fylgja skemmtilegt myndband af samskiptum Martino við dómara einn í Argentínu.
Velkominn til Spánar Gerard Martino.
Athugasemdir