„Þetta leggst virkilega vel í mig. Við erum að mæta sterku liði frá Albaníu, meisturunum frá Albaníu. Að sama skapi eru þeir ekki alveg búnir að byrja sitt tímabil. Við verðum að eiga góð úrslit í heimaleiknum," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, þegar hann ræddi við Fótbolta.net í dag.
Á morgun spilar Víkingur fyrri leik sinn gegn Egnatia frá Albaníu í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Fyrri leikurinn fer fram á Víkingsvellinum.
Á morgun spilar Víkingur fyrri leik sinn gegn Egnatia frá Albaníu í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Fyrri leikurinn fer fram á Víkingsvellinum.
„Reynslan okkar á móti Shamrock segir okkur það að við verðum að ná í betri úrslit á heimavelli því útileikurinn verður erfiður í þeirra aðstæðum. Við leggjum mikla áherslu á það að fara út með gott forskot í veganestinu."
Arnar segir að það hafi gengið vel að skoða andstæðinginn og Víkingar séu að horfa svolítið í það hvað Valsmenn voru að gera gegn Vllaznia frá Albaníu á dögunum. „Við eigum von á erfiðum leik. Þetta er Evrópuleikur. Eitt augnablik getur kostað þig dýrt."
Ég vil að við verðum dirty aftur
Víkingur tapaði gegn Shamrock Rovers frá Írlandi í forkeppni Meistaradeildarinnar þrátt fyrir að hafa verið sterkari aðilinn í einvíginu.
„Frá því ég kom hingað hef ég gert upp alla leiki okkar, hvort sem við vinnum eða töpum, ekki byggt út frá tilfinningum eða hvað mér finnst. Einfaldlega út frá staðreyndum. Hvað eru staðreyndir í fótbolta? Það er gamla góða tölfræðin. Tölfræðin er lygilega góð sem sýnir að það er ekki mikið sem þarf að laga," segir Arnar.
„En það er eitthvað sem þarf að laga. Það er fimm prósent hér og fimm prósent þar. Einbeitingarleysi og hvernig menn mæta tilbúnir til leiks, það er mitt verkefni líka."
Arnar vill að Víkingar nái aftur í það að vera svolítið „dirty" í sínum leik.
„Við erum búnir að missa smá af því sem gerði okkur að mjög sterku liði. Að brjóta á andstæðingnum, það sem menn voru mikið að væla yfir í fyrra og framan af sumri núna. Við vorum svolítið dirty og ég vil fá það til baka aftur. Ég vil að við verðum dirty aftur. Út í Írlandi lentum við í því að boltastrákarnir voru seinir að gefa okkur boltann og ég bara fíla það, fíla svona klækjabrögð í Evrópuleikjum. Við megum ekki vera barnalegir, við þurfum að vera alvöru fullorðið fótboltalið sem er ekki bara gott í fótbolta," sagði Arnar.
Sumarið okkar er ekki verra en það
Ef Víkingur vinnur albönsku meistarana í Egnatia mæta Íslandsmeistarnir annað hvort Virtus frá San Marínó eða Flora Tallinn frá Eistlandi. Fyrri leikurinn yrði í Fossvoginum. Það eru góðir möguleikar á að komast í umspilið um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
„Það eru virkilega góðir möguleikar en við megum ekki fara fram úr okkur. Við þurfum að klára Albanina og þá bíða okkur góðir möguleikar," sagði Arnar.
„Það tók tíma að minna strákana á að við erum í annarri umferð Sambandsdeildarinnar eins og Breiðablik, Stjarnan og Valur. En eini munurinn er að við erum efstir í deildinni og í úrslitum í bikar. Sumarið okkar er ekki verra en það. Við verðum að gjöra svo vel að hætta að vorkenna okkur. Við eigum 'down' kafla eins og öll góð lið eiga. Núna þurfum við að rífa okkur upp af rassgatinu og sýna hvers við erum megnugir."
Allt viðtalið er í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir