Alexander Máni Guðjónsson leikmaður Stjörnunnar fékk sínar fyrstu mínútur í meistaraflokk í kvöld. Alexander er aðeins 14 ára gamall og því stór stund fyrir ungan leikmann.
Lestu um leikinn: Stjarnan 5 - 0 KA
„Þetta var bara geggjaður leikur, mér fannst þetta bara flottur leikur hjá okkur. Gott spil, skoruðum nú hvað var það? 5 mörk. Þetta var rosalegur leikur. Ég er bara sáttur með fyrsta leikinn í Bestu og þetta er bara fyrsti af vonandi fleirum til viðbótar."
Þetta var í fyrsta skipti í deildinni í sumar sem Alexander er á bekknum og hann bjóst því ekkert endilega við því að fá mínútur í dag.
„Nei eða, þegar ég sá að það var komið 3-0 þá hugsaði ég: „Vonandi fæ ég nokkrar mínútur." Ég er bara sáttur, bara takk Jökull fyrir tækifærið. Vonandi bara í næsta leik fæ ég aðeins fleiri mínútur og vonandi skora ég næst. En ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri. Vonandi er þetta bara fyrsta af mörgum."
Alexander er uppalinn hjá félaginu og var það stór stund þegar hann kom inn á fyrir uppeldisfélagið.
„Það er bara geggjað að koma inn á fyrir uppeldisfélagið. Pabbi minn er Gaui Bald (Guðjón Baldvinsson) þannig ég ólst upp við að sjá hann spila hérna. Það var frábært að koma inn á og Silfurskeiðin hélt uppi frábærri stemningu. Þannig ég er sáttur með þetta."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.