Róbert Haraldsson skrifar:
Hvað geta litlu liðin á landsbyggðinni gert í baráttunni við stærri félög um unga efnilega leikmenn?
Hér í Fjallabyggð hefur oft verið rætt um of marga aðkomumenn í meistaraflokki og hvers vegna ekki fleiri heimamenn séu í liðinu. Satt getur það verið að uppbyggingastarf hefur ekki verið nægilega gott í fjölda ára og því hafa þessir drengir ekki skilað sér upp í meistaraflokk. En, nú í vetur var það ákveðið hjá KF að tefla fram 2.-3.og 4.flokki karla í samvinnu við Dalvík. Samið var við þessa ungu efnilegu drengi (hjá KF), ráðinn metnaðarfullur þjálfari, stefnan að byggja upp öflugt starf og hugsa til framtíðar.
Töluverð aukning varð á útgjöldum fyrir félögin. Eins og gefur að skilja, þá eru leikmannahóparnir tæpir og sumir drengjanna að spila upp fyrir sig og fá þá fleiri leiki og meiri reynslu. Úrslitin láta á sér standa, en það er reynslan sem skiptir máli, drengirnir fá að spila 11 manna bolta og mun meiri líkur á að þeir skili sér upp sem leikmenn í meistaraflokkum félaganna í framtíðinni.
Tveir uppaldir heimamenn eru í meistaraflokki KF! Leikmenn Þórs frá Akureyri eru uppistaðan í meistaraflokki Dalvíkur! Er þetta framtíðin? Gengur þetta til lengdar?
Ástæðan fyrir skrifum mínum eru þær, að á dögunum voru tveir mjög efnilegir drengir í 3. flokki Dalvík/KF að skipta úr Dalvík yfir í KA. Hvernig stendur á því að KA er að falast eftir þessum drengjum, eða eru þeir kannski ekki að því? 3. flokks leikmenn KF/Dalvík telja 14-16 leikmenn, þeir sem þekkja til vita að það er mjög tæpur hópur í 11 manna bolta.
Einn efnilegasti 3. flokks drengur á Siglufirði er að spila með Þór, þrír 2. flokks drengir frá Siglufirði eru að spila með KA. Þjálfari 3. flokks KA er búsettur á Siglufirði og hefur hann verið hvað háværastur að gagnrýna aðkomuleikmenn í meistaraflokki í Fjallabyggð í áratug, samt er hann að taka við leikmönnum úr heimabyggð, vitandi af uppbyggingunni sem er að eiga sér stað.
Yfirþjálfari yngri flokka KA er tengiliður við KSÍ varðandi úrtaksæfingar fyrir yngri landslið Íslands, hefur það eitthvað að segja með þessi félagaskipti? Þjálfari 2. flokks KA spyr foreldri samningsbundins leikmanns í KF hvort að sonur þeirra sé ekki að koma í KA í haust? Á KF að kæra þetta? Hvað getum við gert? Nú er ég að geta svolítið í eyðurnar, sama hvort ástæðan fyrir þessum félagaskiptum liggur hjá leikmönnum sjálfum eða starfsmönnum KA, þá finnst mér þetta vera röng þróun.
Að sjálfsögðu getur það verið að þessir drengir og foreldrar þeirra haldi að þeir nái betri árangri með því að vera í stærra félagi, að aðstaðan og slíkt sé betri þar. Það er að algjörlega þeirra val. KF hefur aldrei hindrað neinn um félagaskipti, en ef þróunin er þessi þá er það nánast ógerlegt fyrir lítil félög að halda úti starfi fyrir elstu flokkana, sem leiðir af sér að meistaraflokkar félaganna verður að vera skipaður mörgum aðkomumönnum.
Hvað er til ráða? KF hefur nú gert samninga við 3. og 2.flokks leikmenn sína, lagt út mikinn kostnað vegna þessa, sem vonandi skilar sér í framtíðinni, en ef stóru liðin ætla sér að ná í efnilegustu leikmennina, þá gera þau það og litlu félögin geta lítið sem ekkert gert til að stöðva það. Kannski er þetta eðlilegt í augum sumra, en fyrir mér er þetta rangt. Þetta verður til þess að færri leikmenn skila sér í meistaraflokka félaga í landinu, vegna þeirrar einföldu ástæðu að lítil félög ná ekki að manna lið, færri iðkendur og aðeins þeir sterkustu skila sér upp í meistaraflokk. Er knattspyrnuheimurinn orðinn svo harður á Íslandi að lítil félög þurfa að hafa áhyggjur af því að nýfermda drengir verða lokkaðir í önnur félög? Hvar endar þetta? Getur KSÍ gert eitthvað? Kannski á þetta bara að vera svona – hvað veit ég!
Er samt ekki betra að allir vinni saman að því að búa til fleiri góða knattspyrnumenn á Íslandi?
Virðingarfyllst,
Róbert Haraldsson, Formaður KF.
Athugasemdir