Walker til Mílanó - Conte vill Garnacho - Araujo vill komast burt frá Barcelona sem fyrst
   fim 26. september 2013 15:10
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Takk fyrir allt Guðni
Pistill af vefsíðunni siggiraggi.is
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
Sigurður Ragnar og Guðni Kjartansson.
Sigurður Ragnar og Guðni Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Ragnheiður Jónsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Bróðir minn í þjálfun A-landsliðs kvenna var Guðni Kjartansson. Eftir lokakeppni Evrópumótsins í sumar kíkti Guðni á skrifstofuna til mín eins og hann gerir oft og sagði “jæja nú finnst mér þetta komið gott hjá mér”.

Guðni fæddist árið 1946 og nú var komið að tímamótum hjá honum. Hann var að tilkynna mér að hann væri hættur vegna aldurs. Það var sem tíminn stoppaði smá stund og ég horfði á Guðna sitjandi í stólnum á móti mér og á örskotsstundu rann í gegnum hugann minn stórkostlegur ferill hans og ég fann í senn fyrir mikilli auðmýkt og virðingu.

Leikmaðurinn Guðni Kjartansson var hetja og fyrirmynd fyrir alla íslenska leikmenn. Guðni varð margfaldur Íslandsmeistari með Keflavík. Hann lék hvern einasta landsleik Íslands frá 1967-1973 og var kjölfesta landsliðsins. Fjölmarga landsleiki var hann fyrirliði. Besti leikmaðurinn sem hann spilaði gegn var Johan Cruyff. Guðni spilaði líka í 14-2 tapinu gegn Danmörku. Guðni spilaði gegn Real Madrid og á ennþá treyjuna. Guðni var frábær leikmaður og ávann sér mikla virðingu bæði samherja og mótherja og var vel við hæfi að hann var fyrsti knattspyrnumaðurinn sem var valinn Íþróttamaður ársins en það er mesti heiður sem íslenskur íþróttamaður getur fengið. Ferill Guðna sem leikmanns styttist vegna erfiðra meiðsla og þá fór hann út í þjálfun.

Menn sáu fljótt að Guðni var góður þjálfari. Hann leit á þjálfunarstarfið sem köllun og kennslu og var langt á undan sinni samtíð í þjálfun. Árið 1977 eftir að hann hafði þjálfað Keflavík um tíma fór hann að starfa hjá KSÍ við að halda stutt þjálfaranámskeið og að aðstoða þáverandi landsliðsþjálfara. Það markaði upphafið að löngum og glæstum þjálfunarferli Guðna með landslið KSÍ. Guðni hefur starfað nánast sleitulaust öll árin síðan við þjálfun landsliða KSÍ, hann hefur þjálfað A, U-21 og U-19 ára landslið Íslands með frábærum árangri ásamt því að vera ítrekað aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. Ég fékk að njóta starfskrafta Guðna svo síðustu árin þar sem hann var aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna 2006-2013. Enginn þjálfari hefur stýrt landsliðunum í fleiri leikjum en þeir eru sennilega orðnir vel fleiri en 300 talsins. Árangur Guðna með A-landslið karla er einn sá besti sem hefur náðst. Árangur Guðna sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna er sá besti sem hefur nokkurn tímann náðst.

Guðni lagði alla tíð áherslu á að mennta sig, kláraði íþróttakennaranám og stundaði nám við Íþróttaháskólann í Köln. Guðni gekk jafnframt í gegnum langan þjálfaraskóla hjá enska knattspyrnusambandinu. Guðni var fræðslustjóri KSÍ áður en ég tók við af honum. Guðni var jafnframt fyrsti þjálfarinn sem fékk UEFA B þjálfaragráðu frá Knattspyrnusambandi Íslands. Guðni hefur setið í fræðslunefnd KSÍ í sjálfboðastarfi öll árin síðan ég man eftir mér. Áratugi hefur Guðni kennt á þjálfaranámskeiðum KSÍ og þar deilt þekkingu sinni með næstu kynslóðum íslenskra þjálfara.

Guðni hefur þjálfað alla fremstu knattspyrnumenn þjóðarinnar síðustu áratugina og þegar við höfum verið saman og hitt þessa fyrrum knattspyrnuhetjur þjóðarinnar á förnum vegi hef ég alltaf séð skína í gegn djúpstæða virðingu og væntumþykju í augum hvers einasta þeirra. Ég hef aldrei heyrt Guðna tala illa um nokkurn mann og aldrei heyrt neinn tala illa um hann. Ég þekki ekki marga sem eru svoleiðis. Guðni var maðurinn sem þjálfaði mig á fyrstu æfingunni minni með meistaraflokki KR. Ég man hann skammaði mig fyrir að “dást að sendingunni minni” og hann stoppaði leikinn og spurði mig “hvað ert þú að gera?”. Þetta hafði aldrei neinn þjálfari gert við mig. Guðni fékk mig til að hugsa sem leikmaður og líka sem þjálfari.

Guðni var maðurinn sem kenndi mér að þjálfa. Hann stóð alltaf 100% við bakið á mér og veitti mér innblástur og stuðning í landsliðsþjálfarastarfinu. Traustari mann get ég ekki fundið og mun sennilega aldrei finna. Hans hjálp var mér algjörlega ómetanleg og hann á afskaplega stóran og oft á tíðum vanmetinn þátt í árangri kvennalandsliðsins. Það mun enginn skilja það til fullnustu hvað hann hefur gefið kvennalandsliðinu nema ég. En þannig er hann, hann hefur aldrei sóst eftir viðurkenningu á sínum störfum. Hann var kennari og köllun hans var að kenna fótbolta.

Þjálfarinn sem kvaddi þjálfarastarfið í stólnum á skrifstofunni minni í sumar skrifaði knattspyrnusögu Íslands. Auðmýkt og virðing. Orð eru fátækleg. Hvað gat ég sagt?

Ef ég næ að áorka aðeins litlum hluta af því sem þú áorkaðir sem þjálfari og manneskja Guðni þá verð ég stoltur.

Takk fyrir allt Guðni.

Þú ert fyrirmynd mín í þjálfun.

Þinn vinur
Siggi Raggi
Athugasemdir
banner
banner