Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 27. apríl 2017 11:50
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Bikarrómantík
Þórir Hákonarson skrifar:
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Þórir Hákonarson.
Þórir Hákonarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: KSÍ - Hilmar Þór Guðmundsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óánægja með fyrirkomulag bikarkeppninnar
Bergmann Guðmundsson skrifar nýlega pistil hér á þessum sama vettvangi þar sem hann lýsir yfir mikilli óánægju með skipulag bikarkeppni KSÍ og telur að „rómantíkin“ sé horfin úr bikarkeppninni. Hann telur aðallega til tvær ástæður fyrir óánægju sinni, annars vegar að forkeppni bikarsins sé svæðaskipt og þar með sé oftar en ekki verið að spila við sömu liðin á milli ára og hins vegar að keppnin hefjist alltof snemma þegar heimavellir liðanna á tilteknum svæðum a.m.k. séu ekki tilbúnir.

Ég skil vel þessar ábendingar Bergmanns og deili að hluta til þessari óánægju en hins vegar verður að horfa til staðreynda mála og til þess hvernig þróunin hefur verið innan hreyfingarinnar undanfarin ár.

Hvað hefur breyst frá „rómantíkinni“?
Liðum í deildarkeppni og bikar hefur fjölgað verulega á undanförnum árum sem þýðir einfaldlega fleiri leikir, liðum hefur fjölgað í deildum og svigrúmið er takmarkað, það er takmarkað hvað lið geta leikið marga leiki á viku. Félögin sjálf ákváðu á ársþingi að færa bikarúrslitaleikinn fram í miðjan ágúst í stað mánaðarmóta september/október áður og það augljóslega þrengir enn frekar að leikjaniðurröðun og hefur einfaldlega í för með sér að þegar yfir 80 lið eru skráð til leiks í bikarnum þá þarf að hefja leik snemma þannig að hægt verði að spila allar umferðir fyrir miðjan ágúst. Hafa verður í huga að inni á tímabilinu maí til miður ágúst mánuður er landsleikjahlé í ca 10 daga í júní auk þess sem lið í Evrópukeppni þurfa að leika í júlí og þrengir það að niðurröðun í deild og bikar líka.

Lið sem komast áfram í 2 umferð í Evrópukeppninni og eru jafnframt að taka þátt í bikarnum gætu þurft að leika 8-9 leiki í júlí og ekki á það bætandi fyrir þau lið. Á meðan bikarúrslitaleikur er settur á um miðjan ágúst er því svigrúmið nánast ekki neitt á tímabilinu maí – ágúst og hlýtur því að verða að byrja fyrr, enda hefur öllum væntanlega verið ljóst þegar samþykkt var að færa bikarúrslitaleikinn fram um einn og hálfan mánuð að keppnin yrði þ.a.l. að hefjast fyrr.

Leikir gegn „stóru“ liðunum
Fyrirkomulag bikarkeppninnar hér er skv. forskrift elsta knattspyrnumóts heims, þ.e. ensku bikarkeppninnar þar sem umferðum keppninnar er styrkleikaraðað, þ.e. sterkustu lið keppninnar koma inn á síðari stigum (og það fyrirkomulag er í nær öllum bikarkeppnum Evrópu) en ástæðan fyrir því er sú að álagið á þessum liðum eryfirleitt meira. Það er reyndar rangt að möguleikar hafi eitthvað minnkað á því að „stóru“liðin dragist á móti minni liðum, líkur á því að fá stórlið í heimsókn hafa aukist á síðustu árum. Liðin í efstu deild koma inn í bikarkeppnina nú í 32 liða úrslitum en áður fyrr komu þau inn í 16 liða úrslitum, það voru semsagt 10 efstu deildar lið í 16 liða úrslitum áður fyrr en nú eiga „minni“ liðin möguleika á því að leika gegn „stórliði“ í 32 liða úrslitum keppninnar.

Af handahófi er tekið árið 2001 en þá léku 6 lið utan efstu deildar í 16 liða úrslitum, fjögur lið utan efstu deildar fengu „stórlið“ í heimsókn, þ.e. lið úr efstu deild, KS lék við Grindavík, Stjarnan við FH, Sindri við Keflavík og Víkingur lék við ÍA. Aðrir leikir voru innbyrðisleikir liða úr efstu deild eða leikir liða úr neðri deildum. Árið 2016 lék FH við KF, ÍBV við Huginn, ÍA við KV, Víkingur R við Hauka, Keflavík við Fylki, KR við Selfoss, Þróttur við Völsung og Breiðablik við Kríu, það voru semsagt í 32 liða úrslitum 8 leikir þar sem efstu deildar félög léku við félög úr neðri deildum. Í 16 liða úrslitum 2016 lék Grindavík við Fylki, Þróttur við Gróttu og FH við Leikni þannig að í þessum tveimur umferðum árið 2016 voru 11 leikir þar sem efstu deildar félög léku við neðri deildar félög á móti 4 leikjum í sömu umferðum árið 2001.

Mótsögnin
Menn geta auðvitað haft þá skoðun að öll liðin eigi bara að vera dregin saman strax í upphafi og keppnin eigi ekki að vera svæðaskipt.Þá þyrfti semsagt að leika um 40 leiki í fyrstu umferð bikarsins og gætu félögin, hvort sem um er að ræða landsbyggðarlið eða lið frá höfuðborgarsvæðinu, átt von á því að spila hvar sem er á landinu með tilheyrandi ferðalögum, kostnaði og auknu álagi. Það gæti reyndar haft letjandi áhrif á minnstu félögin til þátttöku, þ.e. ef þau gætu átt von á mjög kostnaðarsömu ferðarlagi i upphafi móts. Ég er jafnframt ekkert endilega viss um að það fyrirkomulag væri gott að draga öll félögin saman í fyrstu umferð, það myndi augljóslega hafa í för með sér að keppnin þyrfti að hefjast enn fyrr. Það er því ákveðin mótsögn í því að vilja öll liðin inn í keppnina í upphafi og hefja hana jafnframt seinna, það gengur einfaldlega ekki upp.

Hvenær er heimavöllurinn tilbúinn?
Það er skiljanlegt að menn séu ekki sáttir við það að fá ekki að leika sína heimaleiki á heimavelli, þurfa að fara með þá annað þar sem vallaraðstæður bjóða ekki upp á annað svo snemma vors. Þetta verður alltaf vandamál og skemmst er að minnast þess að lið í 3. deild á síðasta keppnistímabili lék sinn fyrsta heimaleik á sínum velli 24. júní, það verður aldrei hægt að stilla neinu móti þannig upp að bikarkeppni með um 80 þátttökuliðum hefjist svo seint og úrslitaleikur fari fram um miðjan ágúst.

Að ofangreindu má sjá að fyrirkomulag bikarkeppninnar hefur ekkert að gera með landsbyggð vs höfuðborgarsvæðið eða að stóru liðin telji fyrir neðan sína virðingu að spila við minni liðin, þetta snýst alls ekki um það. Málið snýst um að bregðast við breyttum aðstæðum, aðstæðum sem ekki voru í minningunni þegar liðin voru mun færri í deildarkeppni, deildirnar voru skipaðar færri liðum, leikir voru færri almennt og úrslitaleikur keppninnar var í lok tímabils en ekki um miðjan ágúst. Það vilja allir veg keppninnar sem mestan en það er óhjákvæmilegt að hún taki breytingum miðað við breyttar aðstæður. Það er afar gott að umræða fari fram á slíkum vettvangi um hvernig við getum bætt úr og reynt að taka tillit til fjölmargra sjónarmiða innan hreyfingarinnar, vonandi náum við að lokum ásættanlegri niðurstöðu en hún næst ekki með því að horfa til fortíðar með óraunhæfan nostalgíuglampa í augum.

Þórir Hákonarson
Athugasemdir
banner
banner