Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 27. júlí 2022 16:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Umfjöllun
Wiegman trompar forvera sína: Búið til skrímsli sem tætir allt í sig
Sarina Wiegman.
Sarina Wiegman.
Mynd: EPA
England mun leika til úrslita á EM á sunnudag.
England mun leika til úrslita á EM á sunnudag.
Mynd: EPA
Wiegman ræðir við fyrirliðann, Leuh Williamson.
Wiegman ræðir við fyrirliðann, Leuh Williamson.
Mynd: EPA
Fran Kirby fagnar marki í gær.
Fran Kirby fagnar marki í gær.
Mynd: EPA
Steph Houghton var skilin eftir heima.
Steph Houghton var skilin eftir heima.
Mynd: Getty Images
Phil Neville stýrði liðinu áður en Wiegman tók við.
Phil Neville stýrði liðinu áður en Wiegman tók við.
Mynd: Getty Images
Ian Wright segist aldrei hafa verið stoltari af ensku liði.
Ian Wright segist aldrei hafa verið stoltari af ensku liði.
Mynd: Getty Images
Wembley bíður.
Wembley bíður.
Mynd: Getty Images
Það hefur verið hrein unun að horfa á enska landsliðið á Evrópumótinu í sumar.

Liðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum í gærkvöld er þær burstuðu Svíþjóð, 4-0.

Það má með sanni segja að grunnurinn að þessum árangri hafi verið lagður þegar Phil Neville steig frá borði og hin hollenska Sarina Wiegman var ráðin í hans stað. Gæðin voru alltaf til staðar í enska liðinu en Wiegman hefur tekist að finna lyklana og opna dyrnar að hliðinu; svo England geti spilað sem allra best og náð stórkostlegum árangri. Það var eitthvað sem Neville, fyrrum landsliðsmanni, tókst ekki að gera þó hann hafi komið liðinu í undanúrslit á HM 2019.

Á þeim um það bil tíu mánuðum sem Wiegman hefur stýrt liðinu, þá hefur England ekki tapað leik. Liðið hefur unnið 17 af 19 leikjum, skorað 104 mörk og aðeins fengið á sig fjögur mörk. Þessi árangur er engin tilviljun.

Þriðji úrslitaleikurinn í röð
Wiegman átti flottan feril sem leikmaður og spilaði 99 landsleiki fyrir Holland. Hún var miðjumaður og gat einnig spilað sem varnarmaður.

Þegar hún var 37 ára þá tók hún við þjálfun kvennaliðs ADO Den Haag í Hollandi. Það var hennar fyrsta 100 prósent starf við þjálfun en áður hafði hún samtvinnað þjálfun með íþróttakennslu í grunnskóla.

Hún fékk góðan skóla í Bandaríkjunum þar sem hún lék í háskólaboltanum. Hún segist hafa tekið meira með sér en medalíu frá Bandaríkjunum; það var afskaplega góður skóli fyrir hana. Í Hollandi var ekki eins mikil virðing borin fyrir kvennaboltanum og í Bandaríkjunum, en Wiegman er metnaðargjörn og hún krefst þess að hlutirnir séu gerðir almennilega. Wiegman, sem er mikil baráttukona, á stóran þátt í því að mikill uppgangur hefur verið í hollenska kvennaboltanum upp á síðkastið.

Henni tókst að byggja upp nýtt lið hjá ADO Den Haag og gerði liðið einu sinni að hollenskum deildarmeistara og tvisvar varð liðið bikarmeistari undir hennar stjórn.

Hún tók svo við hollenska landsliðinu árið 2014 og þar tókst henni að byggja upp gríðarlega sterka liðseiningu. Hollenska liðið fór óvænt alla leið og tók gullið á EM 2017. Liðið fékk svo að kynnast því að spila í úrslitum HM tveimur árum síðar en bandaríska landsliðið var of sterkt fyrir þær. Núna er hún komin í þriðja úrslitaleikinn á þriðja stórmótinu í röð - magnaður árangur.

Það sést hversu öflugur þjálfari hún er þegar horft er í hollenska liðið á þessu móti sem er núna í gangi; liðið hefur dalað nokkuð mikið frá því hún hætti.

Veit hvernig á að lesa í fólk
Wiegman er sögð vera gríðarlega góð í því að lesa fólk, hún veit hvernig á að koma fram við leikmenn sína. Ákveðnir leikmenn þurfa hlýju og væntumþiggju á meðan aðrir leikmenn þurfa hörku og hreinskilni. Wiegman skilur það og les leikinn vel. Hún leggur mikla áherslu á það að leikmönnum líði vel utan vallar því þá er líklegra að þeim líði vel innan vallar.

Jeanet van der Laan, fyrrum liðsfélagi Wiegman, sagði frá skemmtilegri sögu í samtali við The Athletic.

„Þegar ég var 19 ára langaði mig að búa ein, svo ég gerði það. Ég var í skóla og ég spilaði fótbolta. Sarina kom í heimsókn til mín vegna þess að hún vildi sjá hvar ég ætti heima. Ég var bara með þvottavél en ekki þurrkara. Hún spurði mig: 'Hvernig ætlarðu að gera þetta? Þú þarft að æfa, æfa nánast á hverjum degi. Hvernig ætlarðu að þurrka æfingabúnaðinn þinn?'

„Ég sagði: 'Ég veit það ekki, ég á enga peninga'. Svo hún gaf mér þurrkarann sinn. Og það er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma."

Wiegman leggur ríka áherslu á að leikmönnum sínum líði vel og þetta er eitt dæmi um það.

Hún er mjög skipulögð og er alltaf með plan A, B, C og D. Hún vill spila góðan og skemmtilegan fótbolta en er ekki hrædd við að leita í gamla skólann - langir boltar og einvígi - ef hún telur að þörf sé á því. Það sást gegn Spánverjum í átta-liða úrslitum, liðið breytti út af vananum eftir að hafa lent 1-0 undir og það virkaði. Hún gerir það sem hún þarf til að vinna.

Hún er sigurvegari og er ekki hrædd við að taka stórar ákvarðanir ef hún telur að það sé best fyrir liðið og árangurinn inn á vellinum. Að skilja eftir Steph Houghton, fyrirliða enska liðsins til margra ára, heima fyrir þetta mót var svo sannarlega stór ákvörðun en hún taldi hana besta. Hún taldi að aðrir leikmenn ættu meira skilið að fara á mótið.

Á EM 2017 tók Wiegman fyrirliða hollenska liðsins, Mandy van den Berg, út úr liðinu í riðlakeppninni. Hún var ekki sátt með hennar frammistöðu. Á endanum var það rétt að gera það því Holland fór alla leið.

Er að breyta Englendingum í sigurvegara
Þegar kemur að enskum landsliðum, þá virðist pressan alltaf verða of mikil.

England er mekka fótboltans og umræðan í kringum landsliðin er mikil. Það getur verið mikil pressa sem fylgir því og á síðustu stórmótum hefur enska liðið fallið á síðustu hindrun; liðið hefur ekki höndlað pressuna.

En núna virðist sjálfstraustið meira og leikmenn eru afslappaðari. Wiegman er með gríðarlegt sigurhugarfar og það virðist vera að smitast út í hópinn. „Sarina heldur okkur á tánum og hún mun alltaf búast við meiru frá okkur. Ekkert lið er fullkomið en hún er að leitast eftir fullkomnun og það er það sem við viljum líka," segir Beth Mead, sem hefur slegið í gegn undir stjórn Wiegman.

Wiegman er búin að búa til skrímsli sem virðist tæta allt sem stendur í vegi fyrir því. En nær liðið að gleyma draugum fortíðarinnar og taka gullið á heimavelli? Það skýrist um helgina er þær mæta annað hvort Frakklandi eða Þýskalandi í úrslitaleiknum. Þetta stórkostlega lið getur orðið fyrsta enska A-landsliðið til að vinna gull á stórmóti í 56 ár; enska kvennalandsliðið getur skrifað söguna og unnið sitt fyrsta gull á stórmóti.

Aldrei verið stoltari af ensku liði
Ian Wright, fyrrum leikmaður enska karlalandsliðsins, hefur verið að fjalla um mótið fyrir BBC. Í gær var hann að fjalla um undanúrslitaleik Englands við Svíþjóð. Að honum loknum sagði hann: „Ég hef aldrei verið stoltari af ensku landsliði en ég er núna."

Það er vel hægt að ímynda sér að mikið af fólki líði akkúrat þannig þessa stundina.

En þetta lið og Sarina Wiegman eru líklega að gera meira fyrir enskan fótbolta en maður gerir sér almennilega grein fyrir. Enskur kvennabolti hefur verið að vaxa mikið síðustu ár og þessi árangur mun ýta enn frekar undir þann vöxt. Fólk sem vissi ekki að enska kvennalandsliðið væri til fyrir nokkrum vikum, það mun vita það núna. Umfjöllunin um liðið hefur verið gríðarleg í Bretlandi og það hefur verið gaman að sjá. Ungar stelpur vilja vera eins og Leah Williamson, Beth Mead og Georgia Stanway. Þetta eru stjörnur og það á að fjalla um þær.

Þær eru að fara að spila úrslitaleik fyrir framan 90 þúsund manns á Wembley um næstu helgi og það er eitthvað sérstakt í loftinu.

Greinar frá BBC, Daily Mail og The Athletic voru nýttar í þessa umfjöllun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner