Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var sáttur með marga leikmenn í 2-0 sigrinum á Preston í enska deildabikarnum í kvöld, en hann var sérstaklega hrifinn af miðjumanninum Tyler Morton.
Klopp gerði ellefu breytingar á byrjunarliðinu og gaf tveimur 18 ára gömlum leikmönnum tækifærið. Þeir Harvey Blair og Tyler Morton fengu að spila og var Klopp heillaður af frammistöðu Morton.
„Hann er með þvílíkan fótboltaheila. Ef hann fer aðeins meira í ræktina og styrkir líkamann þá verður hann rosalegur fótboltamaður," sagði Klopp.
„Við þurfum að sjá til þess að hjálpa honum að styrkja líkamann. Hann er alls ekki of lítill eða mjór, en hann þarf að styrkja sig aðeins og við þurfum að gera hann kláran. Þetta var mjög jákvæð frammistaða frá honum í kvöld."
Þýski stjórinn viðurkenndi að það hafi gengið brösulega að spila sem lið eftir að hafa gert allar þessar breytingar.
„Þetta var gott. Við byrjuðum vel en spiluðum ekkert sérstakan fótbolta. Preston átti sín augnablik og við vorum of opnir og töpuðum strúkturnum. Við sköpuðum ekki mikið í fyrri hálfleik en örlitlar breytingar í hálfleik hjálpaði."
„Við ákváðum að færa Neco aðeins hærra upp völlinn og koma með Conor inn. Það var mikill andi í Preston og almennt gott andrúmsloft á meðan leik stóð.
„Ég sá mikið af góðum einstaklingsframmistöðum en við gætum spilað betur sem lið. Það voru nokkrir leikmenn sem spiluðu mjög vel og það er líka í góðu lagi. Þetta snérist bara um að komast áfram í næstu umferð sem og við gerðum. Enginn meiddist, þannig þetta var fullkomið kvöld."
Seinna mark leiksins gerði Divock Origi sem skemmtilegri sporðdrekaspyrnu af stuttu færi.
„Markið hjá Divock var bara klassískur Divock Origi. Þetta var augljóslega ekkert sérstakur leikur fyrir framherja því við spiluðum ekki mjög vel og því erfitt fyrir framherja, en markið sem hann skoraði var einstakt," sagði hann í lokin.
Athugasemdir