Jorginho, Graham Potter, Zinedine Zidane, Xabi Alonso, Ramsdale og fleiri koma við sögu
banner
   mán 27. nóvember 2023 17:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Logi kórónaði frábæran leik með því að eyðileggja kveðjustund gamla KR-ingsins
Logi hefur byrjað síðustu fimm leiki Strömsgodset, fjórir sigrar, eitt mark og ein stoðsending.
Logi hefur byrjað síðustu fimm leiki Strömsgodset, fjórir sigrar, eitt mark og ein stoðsending.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Andre Hansen í KR.
Andre Hansen í KR.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Frábær vinstri fótur.
Frábær vinstri fótur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Tómasson innsiglaði í gær sigur Strömsgodset á Rosenborg með marki undir lokin. Norska félagið keypti Loga af Víkingi í ágúst og hefur hann leikið virkilega vel með liðinu að undanförnu. Hann missti aðeins dampinn þegar hann fékk covid fljótlega eftir komuna til Noregs en hefur komið sterkur til baka.

Hann hefur leikið það vel að einhverjir Víkingar eru farnir að kalla eftir því að hann byrji jafnvel leik Íslands gegn Ísrael í umspilinu í mars. Logi fær væntanlega tækifæri til að sanna sig fyrir Age Hareide í janúar þegar Ísland leikur tvo vináttuleiki. Áður en hann var seldur hjálpaði hann Víkingi að leggja grunninn að Íslandsmeistaratitlinum og var hann valinn í lið ársins hér á Fótbolti.net fyrir hans spilamennsku með Víkingi í sumar.

En aftur að markinu, það kom í uppbótartíma og tryggði Strömsgodset 1-3 sigur á Lerkendal. Markið var glæsilegt, Logi tók skot vinstra megin úr teignum og sneri hann utan fótar í fjærhornið. Þremur mínútum var bætt við leikinn en mark Loga kom eftir að uppgefinn uppbótartími var liðinn.

Á þessum tímapunkti var Andre Hansen, fyrrum landsliðsmarkvörður Noregs, kominn í markið hjá Rosenborg. Leikurinn var liður í næst síðustu umferð deildarinnar og var um síðasta heimaleik Rosenborg að ræða. Hansen er fyrrum leikmaður KR, lék í Vesturbænum á láni seinni hluta tímabilsins 2009. Samningur hans við Rosenborg er að renna út, hann verður ekki áfram og var hann að kveðja stuðningsmen eftir níu timabil hjá félaginu.

Hansen hefði viljað sleppa því að fá á sig mark á þeim fjórum mínútum sem hann spilaði en Logi kom í veg fyrir það. „Þetta var ekki gott," sagði Hansen um markið. „Það hefur verið heiður og forréttindi að spila fyrir Rosenborg í þetta mörg ár," bætti hann við.

Logi hafði áður átt risastóran þátt í öðru marki Strömsgodset, sýndi listir sínar úti á vinstri kantinum, klobbaði fyrst leikmann Rosenborgar og átti svo utanfótar sendingu yfir á fjærsvæðið í teignum. Sendingin reyndist sú næst síðasta fyrir mark því í kjölfarið kom sending inn á markteig og gestirnir komust í 1-2.

Ari Leifsson lék líkt og Logi allan leikinn í liði Strömsgodset.


Athugasemdir
banner
banner
banner