KR vann 5-0 stórsigur gegn ÍA í 4. umferð Bestu deildarinnar í gær, þetta var fyrsti sigur KR í deildinni og í fyrsta sinn sem liðið hélt hreinu. KR er með sex stig eftir fjórar umferðir, fyrir kvöldið í kvöld annað af tveimur liðum deildarinnar sem hefur ekki tapað leik. KR hefur skorað tólf mörk í fyrstu fjórum leikjunum og fengið á sig sjö.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var spurður út í mikilvægi þess að hafa haldið hreinu, sérstaklega eftir að liðið gerði það ekki í fyrstu þremur leikjunum.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, var spurður út í mikilvægi þess að hafa haldið hreinu, sérstaklega eftir að liðið gerði það ekki í fyrstu þremur leikjunum.
Lestu um leikinn: KR 5 - 0 ÍA
„Æi, mér gæti ekki staðið meira á sama um það, ef ég á bara að vera alveg heiðarlegur. Það er gott fyrir Dóra (Halldór Snæ Georgsson markmann) og gott fyrir varnarmennina. Auðvitað er það skemmtilegt, en það stendur ekki upp úr," sagði Óskar og hélt áfram.
„Aron Sig er kominn á blað, kominn með tvö mörk. Matthias Præst er kominn á blað, Eiður Gauti skorar í öðrum leiknum í röð og það er enginn sem meiðist. Það er í rauninni miklu mikilvægara heldur en hvort við höfum haldið hreinu eða ekki. En auðvitað er það fínt, en við erum ekki í fótbolta til að halda hreinu, við erum í fótbolta til að skora mörk."
Segir að Aron eigi töluvert inni
Óskar var svo spurður út í fyrirliðann Aron Sigurðarson sem skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í leiknum. Þetta var fyrsti deildarleikur Arons frá því að hann fékk tveggja leikja bann eftir að hafa fengið rautt spjald í fyrstu umferð mótsins.
„Það gefur auga leiða að hvert lið finnur fyrir því þegar leikmaður í hans gæðaflokki er í burtu. Ég segi samt að við eigum eftir að sjá Aron töluvert betri en hann var í dag. Hann á ennþá eftir að komast í enn betri takt og enn betra leikform. Hann er fyrirliði liðsins, leiðtogi, er frábær fótboltamaður og frábær karakter. Það er frábært að fá hann til baka," sagði Óskar. Viðtalið við hann má sjá í heild sinni hér að neðan.
Hitt taplausa liðið í deildinni er Valur sem mætir Víkingi klukkan 19:15 í kvöld.
Athugasemdir