Thomas Frank, stjóri Tottenham, vill ekki missa Mathys Tel og Yves Bissouma frá félaginu fyrir gluggalok og gaf það sterklega til kynna fyrir leikinn gegn Burnley að þeir verði áfram út tímabilið.
Frank segist ekki vera með stóran hóp og því sé erfitt að leyfa leikmönnum að fara.
Mathys Tel vill komast frá Tottenham á láni, en hann hefur fengið fáar mínútur og var ekki valinn í Meistaradeildarhópinn fyrir seinni hluta keppninnar.
Það er ólíklegt að hann fái sínu framgengt.
„Við verðum að halda þeim leikmönnum sem við erum með í hópnum svo við höfum úr nægu að moða. Í Dortmund-leiknum vorum við ekki með marga til taks og það er erfitt að breyta leikjum þegar þú þarft á því að halda eða til þess að fá meiri ferskleika í spilið.“
„Við settum Jun'ai (Byfield) inn á sem var yndiaslegt og gerði hann frábærlega hluti. Þetta er leikmaður með mikla hæfileika og síðan kom Pedro Porro inn á miðsvæðið. Þannig maður þarf að vera svolítið hugmyndaríkur inn á milli.“
„Það er alveg klárt mál að við erum með fleiri sem eru klárir í slaginn fyrir leikinn í dag, en við þurfum á öllum að halda,“ sagði danski stjórinn.
Yves Bissouma hefur einnig verið orðaður frá félaginu, en Frank ítrekaði það að félagið er ekki með nógu marga leikmenn og treystir hann á að halda Bissouma.
„Það er óhætt að segja það að við erum ekki með marga leikmenn. Hann er góður leikmaður. Bissouma gerði vel á móti West Ham og það eina sem við erum að einbeita okkur að að hann verði klár gegn Burnley,“ sagði Frank.
Athugasemdir




