Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR var ánægður með úrslit kvöldsins eftir að liðið hans vann ÍA 5-0 á Avis-vellinum.
Lestu um leikinn: KR 5 - 0 ÍA
„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna á löngum köflum í leiknum, ánægður með orkuna, ánægður með andann og dugnaðinn sem við sýndum." Sagði Óskar Hrafn
„Við stigum ekki af bensíngjöfinni í 90 mínútur og ég er ánægður með það. Við vorum ekki verja eitthvað heldur reyndum að sækja allan tímann. Mér fannst við vera einbeitingalausir fyrstu 20 mínúturnar, þá vorum við að gefa of mikið af feilsendingum. Ég get samt ekkert kvartað, en þó að við séum ánægðir með sigurinn þá vitum við samt að við eigum töluvert inni. Mér finnst við eiga töluvert inni í að ná heildstæðum takt í liðið."
ÍA byrjaði leikinn betur en fóru illa með færin sem þeir fengu. KR-ingar skoruðu svo fyrsta mark leiksins á 24. mínútu og tóku yfir eftir það.
„Ég var ekkert ósáttur beint við það hvernig menn komu inn í leikinn. Ég man nú ekki eftir því hvort þetta voru einhver risa færi. Eins og Hallgrímur Jónasson (þjálfari KA) sagði að hann hafi fengið sjö dauðafæri á móti okkur í fyrstu umferðinni. Ég bið hann um að senda mér klippu af þeim öllum."
„Þeir komust í hættulegar stöður, það er alveg ljóst. Við vissum það fyrir leikinn að þeir eru með Gísla Laxdal og Viktor Jóns upp á topp. Viktor er frábær í loftinu, góður target maður. Gísli Laxdal er frábær að hlaupa bakvið varnir og er mjög fljótur. Þeir eru góðir að tímasetja hlaup bakvið. Þannig við vissum alveg að við þurftum að vera á tánum, og það getur alveg skapað hættu. Eðlilega ná Skagamenn að skapa einhverja hættu þannig."
„Það sem að pirraði mig meira var að við vorum að gefa feilsendingar sem við erum ekkert vanir að gera, og ekki undir pressu. Heldur bara svona kæruleysi og smá einbeitingarleysi. Þá fannst mér þeir vera að fá hættulegustu stöðurnar sínar, svo svona lagaðist það. Mér fannst ekki við koma eitthvað illa stemndir til leiks, við áttum fínar sóknir en við hleyptum þeim of nálægt okkur of oft, sem er eitthvað sem við þurfum að laga."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.