Íslenski varnarmaðurinn Alfons Sampsted er formlega genginn til liðs við Go Ahead Eagles í Hollandi, en hann kemur til félagsins frá Birmingham City. Hann skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning.
Greint var frá því í vikunni að Alfons væri á leið aftur til Hollands eftir að hafa eytt síðasta eina og hálfa árinu hjá Birmingham.
Þar hann vann C-deildina á síðustu leiktíð en tókst aldrei að vinna sér fast sæti í byrjunarliðinu. Alls lék hann 31 leik með liðinu, flesta sem varamaður.
Alfons, sem er 27 ára gamall, var áður á mála hjá Twente, en hann er nú mættur aftur í hollensku úrvaldeildina. Hann samdi við Go Ahead Eagles til 2028, en það er fyrrum félag Willums Þórs Willumssonar, sem Alfons lék með bæði hjá Birmingham og Breiðabliki.
„Ég hef viljað snúa aftur til Hollands í einhvern tíma. Ég naut tímans hjá Birmingham á Englandi og spilaði þar með Willum, sem ég hef þekkt alla mína ævi. Ég fylgdist vel með honum þegar hann spilaði með Go Ahead Eagles og sá marga leiki með liðinu. Ég hef líka spilað á De Adelaarhorst þannig ég hafði mikinn áhuga á því að koma þegar tækifærið kom upp. Ég talaði auðvitað líka við Willum um félagið.“
„Ef það verður sama andrúmsloft og var þar þegar ég spilaði á leikvanginum með Twente, þar sem áhorfendur sitja nálægt vellinum og eru með mikil læti þá mun það reynast öðrum liðum erfitt að spila þarna. Þetta verða rafmagnaðir og spennandi leikir.“
„Planið er að aðlagast hópnum sem allra fyrst því ég leggja mitt af mörkum fyrir liðið,“ sagði Alfons.
Þetta verður sjöunda liðið sem Alfons mun leika með í atvinnumennsku en hann lék einnig með Bodö/Glimt, Norrköping, Sylvia, Landskrona ásamt auðvitað Birmingham og Twente. Hann er uppalinn í Breiðabliki og spilaði þá á láni hjá Þór sumarið 2015.
???????????? pic.twitter.com/urRURfaDIU
— Go Ahead Eagles ???? (@GAEagles) January 24, 2026
Athugasemdir




