Garnacho á leið til Chelsea - Milan hefur áhuga á Nkunku og Akanji - Newcastle gerir nýtt tilboð í Larsen
banner
   fim 28. ágúst 2025 21:02
Ívan Guðjón Baldursson
Sambandsdeildin: Þægilegt fyrir Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: UTAN VALLAR
AC Virtus 1 - 3 Breiðablik (2-5 samanlagt)
0-1 Kristófer Ingi Kristinsson ('17)
1-1 Abdoul Aziz Niang ('41)
1-2 Davíð Ingvarsson ('58)
1-3 Tobias Thomsen ('77)
Rautt spjald: Matteo Zenoni, Virtus ('42)

Lestu um leikinn: Virtus 1 -  3 Breiðablik

Breiðablik er búið að tryggja sér þátttöku í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar eftir sigur gegn AC Virtus í San Marínó.

Blikar höfðu unnið fyrri leikinn 2-1 á heimavelli og tóku forystuna á útivelli þegar Kristófer Ingi Kristinsson fylgdi föstu skoti Davíðs Ingvarssonar eftir með marki af stuttu færi.

Skömmu síðar skallaði varnarmaður Virtus aukaspyrnu Höskulds Gunnlaugssonar í sína eigin slá og voru Blikar sterkari aðilinn.

Þrátt fyrir yfirburði gestanna úr Kópavogi tókst heimamönnum að jafna metin með skallamarki eftir fyrirgjöf. Abdoul Aziz Niang var þar á ferðinni eftir fyrirgjöf frá Matteo Zenoni, sem var rekinn af velli mínútu síðar.

Zenoni fékk gult spjald fyrir tuð á 32. mínútu og var svo rekinn af velli með seinna gula spjaldið sitt tíu mínútum síðar fyrir heldur litlar sakir. Heimamenn í San Marínó mótmæltu harðlega sem varð til þess að úkraínski dómari leiksins gaf nokkrum leikmönnum gul spjöld.

Tíu leikmenn Virtus réðu ekki við Blika og tók Davíð Ingvarsson forystuna á ný eftir fyrirgjöf frá Ágústi Orra Þorsteinssyni. Hann var einn og óvaldaður á fjærstönginni og skoraði.

Seinni hálfleikurinn var nokkuð rólegur og innsiglaði Tobias Thomsen sigur Breiðabliks á 77. mínútu. Tobias potaði boltanum inn eftir fyrirgjöf frá Valgeiri Valgeirssyni.

Lokatölur urðu 1-3 úti í San Marínó og er Breiðablik annað félagið í sögu íslenska boltans til að taka þátt í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar eftir að Víkingar náðu mögnuðum árangri þar á síðustu leiktíð.

Blikar komust einnig í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar fyrir tveimur árum áður en keppnin breytti um snið. Kópavogsstrákarnir töpuðu öllum sínum leikjum það skiptið.

Þeir töpuðu heimaleikjum sínum gegn Zorya Luhansk, Gent og Maccabi Tel Aviv með eins marks mun.
Athugasemdir