Vinicius Jr færist nær því að vera áfram hjá Real - Liverpool gæti gert janúartilboð í Semenyo
   fös 28. nóvember 2025 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Yfirgefur Stjörnuna - Varla spilað í fjögur ár en stefnir á endurkomu
Ætlar sér að snúa aftur á völlinn.
Ætlar sér að snúa aftur á völlinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frábæru marki gegn Víkingi árið 2021 fagnað.
Frábæru marki gegn Víkingi árið 2021 fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tristan Freyr Ingólfsson hefur einungis komið við sögu í fjórum leikjum frá því að hann sleit fyrst krossband í júlí 2021. Meiðsli hafa sett mjög stórt strik í reikninginn hjá Tristani.

Hann kom við sögu í þremur leikjum seinni hluta tímabilsins 2022, hann sleit svo krossbandið aftur eftir það. Tristan lék einn leik í Lengjubikarnum í febrúar 2024, sleit krossbandið í þriðja sinn og hefur ekki spilað síðan.

Hann er 26 ára, lék sem vinstri bakvörður hjá Stjörnunni, en getur spilað ofar á vellinum. Hann stefnir á að snúa aftur á völlinn í vetur en það verður ekki með Stjörnunni. Samningur hans við félagið rann út fyrr í þessum mánuði.

„Ég er að vinna í því að komast í gang, aðeins byrjaður að æfa með bolta og svona. Planið er að vera kominn á fullt í byrjun febrúar," segir Tristan við Fótbolta.net. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur HK sýnt honum áhuga.

„Ég verð ekki áfram hjá Stjörnunni, en það er ekkert orðið klárt með framtíðina. Ég er bara að skoða mig um og sjá hvaða möguleikar eru í boði. Það eru einhverjar pælingar í gangi, en ekkert sem er komið af stað."

„Ég er mjög bjartsýnn og spenntur fyrir framhaldinu. Það sem skiptir mig mestu máli núna er að komast aftur í leikform, fá mikið af mínútum og að ég nái að byggja mig aftur upp eftir meiðslin,"
segir Tristan.

„Ég er mjög þakklátur Stjörnunni fyrir hjálpina og stuðninginn sem félagið hefur sýnt mér í gegnum meiðslin. Ég er spenntur að fá ferska byrjun á nýjum stað þar sem ég get haldið áfram með ferilinn."

Hann er uppalinn hjá Val Reyðarfirði, Álftanesi og Stjörnunni. Hann raðaði inn mörkum á lokaári sínu í 2. flokki, skoraði þá 16 mörk í 18 leikjum með Stjörnunni og hóf meistaraflokksferilinn með KFG árið 2019.

Seinni hlutann 2020 var hann á láni hjá Keflavík og hjálpaði liðinu að fara upp úr Lengjudeildinni og hans eina alvöru tímabil með Stjörnunni var 2021.

Hann er með mjög öflugan vinstri fót og heyrðist af því á sínum tíma að Breiðablik hefði verið að fylgjast með honum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner