fim 30. október 2025 17:00
Kári Snorrason
Sigurður Egill opinn fyrir öllu - „Get alveg séð fyrir mér að fara til Akureyrar“
Sigurður Egill er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild.
Sigurður Egill er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nafnarnir störfuðu saman í Val þegar Sigurður Höskuldsson var aðstoðarþjálfari liðsins.
Nafnarnir störfuðu saman í Val þegar Sigurður Höskuldsson var aðstoðarþjálfari liðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Sigurður Egill Lárusson, fyrrum leikmaður Vals, er líkt og flestum er kunnugt runninn út af samningi. Mörg lið eru á höttunum eftir honum en hann segist ekki hafa tekið ákvörðun um framtíð sína.

Sigurður Egill er 33 ára og hefur síðustu ár leikið sem vinstri bakvörður. Hann var í herbúðum Vals í 13 ár og er sá leikmaður sem hefur spilað flesta leiki fyrir félagið í efstu deild. 

Í slúðurpakka Fótbolta.net segir hann vera á blaði hjá Þór, Víkingi R., Þrótti R, KR, Breiðabliki og Fram.

Sjálfur segir hann vera í viðræðum við nokkur félög og að hann haldi öllu opnu, Fótbolti.net ræddi við Sigurð fyrr í dag.


„Ég er afskaplega rólegur. Ég er í viðræðum við nokkur félög en er að fara núna til útlanda í tíu daga, ég ætla að hlaða batteríin og sjá hvað kemur á borðið. Ég stefni á að taka ákvörðun eftir tvær vikur,“  segir Sigurður.

Sigurður hefur verið orðaður við hin ýmsu félög en hann þekkir vel til Sigurðar Heiðar Höskuldssonar þjálfara Þórs.

„Ég er opinn fyrir öllu. Ég hef heyrt aðeins frá þeim, ég get alveg séð fyrir mér að fara til Akureyrar. Ég þekki Sigga Höskulds náttúrulega mjög vel. Ég þarf að skoða allt og taka mér smá tíma í að hugsa þetta.“ 

Heillar Þór þá meira en annað?

„Nei, ekkert endilega frekar en annað lið. Ég ætla að taka mér tíma með fjölskyldunni, hugsa þetta í fríinu og tek síðan ákvörðun eftir 2-3 vikur.“ 



Athugasemdir
banner