Þá er komið að fyrsta slúðurpakkanum úr íslenska boltanum þetta haustið. Það er mikið af kjaftasögum í gangi, bæði hvað varðar þjálfara og leikmenn þó að fótboltasumarið sé ekki alveg búið.
Slúðurpakkinn er einungis til gamans og ef menn hafa ábendingar varðandi pakkann eða um slúður hafið þá samband á [email protected]
Slúðurpakkinn er einungis til gamans og ef menn hafa ábendingar varðandi pakkann eða um slúður hafið þá samband á [email protected]
Besta karla
Víkingur R.
Íslandsmeistararnir vilja fá Birni Snæ aftur frá KA. Ef KR fellur þá eru Aron Sigurðarson, Eiður Gauti Sæbjörnsson og Júlíus Mar Júlíusson ofarlega á óskalistanum. Sigurður Egill Lárusson gæti þá komið heim í Víking þar sem krafta hans er ekki lengur óskað hjá Val. Víkingur er eitt af fjölmörgum liðum sem hefur áhuga á Hrannari Snæ Magnússyni hjá Aftureldingu og þá er Marcel Zapytowski á lista þrátt fyrir að vera nýbúinn að skrifa undir samning við ÍBV. Danijel Dejan Djuric gæti komið heim úr atvinnumennsku en Valdimar Þór Ingimundarson vill komast aftur í atvinnumennsku og það er möguleiki að tækifæri opnist fyrir Svein Gísla Þorkelsson erlendis. Pablo Punyed verður væntanlega ekki áfram hjá Víkingum en það er ekki útilokað að hann haldi áfram að spila og getur hann valið úr mörgum tilboðum. Tarik Ibrahimagic er mögulega á förum líka og Atli Þór Jónasson sömuleiðis.
Valur
Túfa verður ekki áfram þjálfari Vals og Hermann Hreiðarsson er langt kominn í viðræðum um að taka við sem þjálfari liðsins. Chris Brazell og Halldór Geir Heiðarsson verða í teyminu hans. Valur ætlar að taka til í leikmannahóp sínum en það verður ekki framlengt við Sigurð Egil Lárusson og þá er Aron Jóhannsson ekki áfram í plönum félagsins. Það er sögð mikil ólga innan Vals út af því hvernig mál Sigga Lár voru tækluð. Hlynur Freyr Karlsson er eftirsóttur af félögum í Bestu deildinni og þar á meðal er hann orðaður við Val. Aron Elí Sævarsson er enn eina ferðina á óskalista Valsara og spurning hvort það gangi eftir hjá þeim núna, en Hrannar Snær Magnússon er líka á lista hjá Val. Bróðir Arons, Birkir Már, er mögulega á heimleið og gæti spilað með KH, venslafélagi Vals, næsta sumar. Valur er orðað við Eið Aron Sigurbjörnsson hjá Vestra, Kára Kristjánsson frá Þrótti, Hrannar Snæ frá Aftureldingu og Guðmundur Þórarinsson er nafn sem heyrist um ganga Hlíðarenda.
Stjarnan
Birnir Snær Ingason er efstur á óskalista Stjörnunnar og eru menn í Garðabænum sagðir bjartsýnir á að landa þeim stóra bita. Júlíus Mar er líka orðaður við Stjörnuna ef KR fellur á morgun. Róbert Frosti Þorkelsson gæti komið heim en hann er lítið að spila í Svíþjóð. Tveir Fylkismenn eru orðaðir við Garðabæinn, þeir Benedikt Daríus Garðarsson og Thedór Ingi Óskarsson.
Breiðablik
Tobias Thomsen vill fara aftur til Danmerkur eftir eitt tímabil í Kópavogi, en svo heyrist líka að Blikar séu að reyna að endursemja við hann. Ef hann fer, þá eru Blikar með augastað á Sigurði Bjarti Hallssyni frá FH og Eiði Gauta Sæbjörnssyni hjá KR. Hlynur Freyr Karlsson er sagður á lista Blika ef hann skyldi koma heim. Sigurður Egill Lárusson er líka orðaður við Breiðablik en hann er á förum frá Val. Kristinn Jónsson er hugsanlega á förum frá Breiðabliki og það er spurning með Damir Muminovic. Það gætu orðið breytingar á bak við tjöldin hjá Blikum og ný stjórn tekið við.
FH
Jóhannes Karl Guðjónsson er að taka við FH og gæti Atli Guðnason orðið aðstoðarþjálfari hans með liðið. Nafn bróður hans, Árna Freys Guðnasonar, heyrist líka í tengslum við það starf. FH er að kaupa Ahmad Faqa sem hefur spilað vel í vörn liðsins í sumar. Hrannar Snær Magnússon er á óskalista FH-inga og heyrst hefur að FH leiði kapphlaupið um Kára Kristjánsson, miðjumanns Þróttar. Matthias Rosenörn verður ekki áfram í markinu í Kaplakrika og er FH að skoða þau mál, en William Eskelinen, fyrrum markvörður Vestra, er eitt af þeim nöfnum sem heyrist. Björn Daníel Sverrisson verður ekki áfram í FH en er orðaður við Sindra þar sem hann gæti gerst spilandi þjálfari. FH er sagt vera að skoða Ármann Inga Finnbogason sem spilaði með Grindavík á láni frá ÍA í sumar.
Fram
Hrannar Snær er á lista hjá Fram eins og mörgum öðrum félögum í Bestu deildinni. Fram ætlar að spýta í lófana fyrir næsta tímabil og eru Ægir Jarl Jónasson, Adam Árni Róbertsson, Kristján Flóki Finnbogason og Sigurður Egill Lárusson á óskalista félagsins. Sömuleiðis hefur Fram mikinn áhuga á því að fá Eið Gauta frá KR. Breki Baldursson gæti komið aftur heim í Fram. Þá gæti Eysteinn Rúnarsson fylgt bróður sínum, Sigurjóni, í Úlfarsárdalinn. Alex Freyr Elísson mun yfirgefa Fram í vetur.
KA
Akureyrarfélagið vill auðvitað halda Birni Snæ í sínum röðum eftir að hann kom inn af miklum krafti í liðið. Það eru margir að verða samningslausir og má búast við breytingum hjá KA í vetur. Hrannar Snær er á lista hjá KA eins og hjá mörgum öðrum liðum og Adam Árni Róbertsson, sem hefur skorað mikið í Lengjudeildinni, er orðaður við félagið. Það er spurning hver verður í markinu hjá KA á næsta tímabili en Rasheed og Stubbur eru báðir orðaðir frá félaginu. Stubbur gæti farið aftur í Magna. Hrannar Björn Steingrímsson er líka orðaður frá KA en Þór, Magni og Völsungur eru mögulegir áfangastaðir fyrir hann.
ÍBV
Vestmannaeyingar vonast til að halda þeim kjarna sem hefur verið í sumar og byggja ofan á hann. ÍBV hefur áhuga á Bjarka Rúnari Jónínusyni sem átti frábært tímabil með Ægi í 2. deild og Atla Þór Jónassyni, sóknarmanni Víkinga. Adam Árni Róbertsson, sóknarmaður Grindvíkinga, er líka á lista í Eyjum. Það er áhugi á Marcel Zapytowski en ÍBV er búið að endursemja við hann. Hjörvar Daði Arnarsson, sem var varamarkvörður ÍBV í sumar, er líklega á förum frá félaginu. Sverrir Páll Hjaltested og Nökkvi Már Nökkvason gætu líka farið frá ÍBV.
ÍA
Það virðist bara vera orðið ansi líklegt að Lárus Orri Sigurðsson haldi áfram með ÍA en ef það gengur ekki eftir þá er Gunnar Heiðar Þorvaldsson líklegur kostur til að taka við liðinu. Kári Kristjánsson er á óskalista Skagamanna sem vonast líka til að fá Tryggva Hrafn Haraldsson heim frá Val. ÍA er eitt af þeim félögum sem hefur áhuga á Atla Þór, sóknarmanni Víkinga, og Benedikt Daríus úr Fylki er einnig orðaður við Skagann. Jón Gísli Eyland gæti farið erlendis en það er áhugi á honum. Rafael Máni Þrastarson, ungur sóknarmaður úr Fjölni, er undir smásjá Skagamanna.
Vestri
Ólíklegt er að Jón Þór Hauksson stýri Vestra á næsta tímabili og ef svo er, þá er spurning hver tekur við og stýrir liðinu í Evrópukeppni á næsta tímabili. Það eru afar margir leikmenn að verða samningslausir og er verið bjóða marga þeirra í önnur félög. Miklar breytingar gætu orðið á leikmannahópnum. Eiður Aron Sigurbjörnsson er að flytja suður og er sterklega orðaður við Val. Aron Snær Friðriksson gæti komið í markið hjá Vestra og þá er Theodór Ingi Óskarsson úr Fylki áfram orðaður við félagið.
KR
Það er mikil óvissa hjá KR þar sem félagið er í harðri fallbaráttu fyrir lokaumferðina. Eitthvað hefur heyrst að Óskar Hrafn Þorvaldsson verði ekki áfram þjálfari liðsins en þá verður Halldór Árnason, hans fyrrum aðstoðarmaður, fyrsti kostur í starfið. Ef KR fellur þá er ljóst að nokkrir leikmenn gætu farið. Aron Sigurðarson hlýtur þá að verða heitasti bitinn á leikmannamarkaðnum og nokkur félög eru með augastað á Júlíusi Mar og Eiði Gauta Sæbjörnssyni. Sigurður Egill Lárusson og Theodór Ingi Óskarsson eru orðaðir við KR og Tómas Johannessen gæti komið frá Hollandi, en hann er reyndar nýbúinn að framlengja við AZ.
Afturelding
Magnús Már Einarsson, þjálfari liðsins, er að verða samningslaus og á þessum tímapunkti er talið ólíklegt að hann haldi áfram með liðið. Lykilmenn gætu horfið á braut ef félagið heldur sér ekki upp en þar ber helst að nefna Aron Elí og Hrannar Snæ sem eru á lista hjá félögum í Bestu deildinni. Hrannar Snær getur farið frítt erlendis og er það líka kostur fyrir hann. Aron Jóhannsson gæti haldið áfram í Bestu deildinni ef Mosfellingar falla.
Þór
Þórsarar ætla að styrkja sig fyrir Bestu deildina. Þeir vonast til að fá Atla Sigurjónsson, Jakob Franz Pálsson og Ágúst Hlynsson heim í Þorpið. Sigurður Egill Lárusson, Kristinn Jónsson og Jón Vignir Pétursson, fyrirliði Selfyssinga, eru einnig á blaði sem og Hrannar Björn Steingrímsson úr KA. Nokkrir leikmenn eru nú þegar horfnir á braut frá félaginu.
Keflavík
Keflvíkingar vonast til að fá Samúel Kára Friðjónsson heim frá Stjörnunni og þá er Elías Már Ómarsson líka draumur, en hann er að spila í Kína í dag. Kári Sigfússon er hugsanlega á förum frá félaginu. Keflavík er að vinna í því að endursemja við sína menn og þar á meðal er fyrirliðinn Frans Elvarsson.
Lengjudeild karla
Njarðvík
Davíð Smári Lamude er sterklega orðaður við þjálfarastarfið hjá Njarðvík en Kjartan Henry Finnbogason hefur einnig fundað með Njarðvíkingum og þá var Nenad Zivanovic, sem hefur gert frábæra hluti með Ægi, einnig á lista.
Þróttur R.
Kári Kristjánsson, besti leikmaður Þróttar, mun að öllum líkindum spila í Bestu deildinni næsta sumar og er FH líklegasti áfangastaðurinn. Þróttur vill halda Hrafni Tómassyni sem kom sterkur inn á láni frá KR í sumar og Sigurður Egill Lárusson er á óskalistanum.
HK
Hemmi Hreiðars er að taka við Val. Viktor Bjarki Arnarsson er efstur á lista yfir arftaka hans í Kórnum en hann er í þjálfarateymi Íslandsmeistara Víkings í dag. Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Baldur Sigurðsson og Túfa eru einnig á blaði í Kórnum. Sóknarmennirnir Atli Þór Jónasson og Jordan Adeyemo eru orðaðir við Kórinn. Kristófer Dagur Arnarsson, leikmaður Fjölnis, er á lista hjá HK og þá er áhugi á Tuma Þorvarssyni eftir góða frammistöðu hans í sumar.
ÍR
Breiðhyltingar ætla að halda svipuðu liði og á tímabilinu sem var að klárast og Jóhann Birnir kemur til með að stýra þeim áfram. Kristófer Dagur úr Fjölni er einnig á lista hjá ÍR-ingum og Aron Lucas Vokes úr Selfossi líka.
Völsungur
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson er hættur sem þjálfari Völsungs en líklegastur til að taka við af honum er Guðmundur Óli Steingrímsson sem hefur gert góða hluti með Magna. Dragan Stojanovic, Slobodan Milisic og Bjarni Jóhannsson eru líka orðaðir við starfið sem og Haraldur Árni Hróðmarsson. Ef Guðmundur Óli tekur við, þá gæti reynt að fá bróður sinn, Hrannar Björn, með sér heim á Húsavík. Stubbur, markvörður KA, er orðaður við Völsung.
Fylkir
Heimir Guðjónsson er að taka við Fylki og það er ráðning sem ætti að lyfta Árbænum upp á næsta stig. Það eru þó nokkrir leikmenn orðaðir við brottför úr Árbænum og má þar helst nefna Benedikt Daríus og Theodór Inga.
Leiknir R.
Jón Guðni Fjóluson er orðaður við þjálfarastöðuna hjá Leikni og Haraldur Árni Hróðmarsson er líka kostur. Þá tók Gunnar Heiðar Þorvaldsson fund með Leiknismönnum. Andri Freyr Jónasson er á óskalista Leiknismanna.
Grindavík
Adam Árni Róbertsson, besti leikmaður Grindavíkur, er sterklega orðaður við félög í Bestu deildinni. Þá eru aðrir leikmenn í liðinu að vekja áhuga félaga í Bestu deildinni, þar á meðal Ármann Ingi Finnbogason sem var á láni frá ÍA.
Ægir
Nenad Zivanovic og Arnar Logi Sveinsson verða áfram þjálfarar Ægis. Það er spurning hvort Ægismenn nái að halda sínum bestu mönnum en Jordan Adeyemo og Bjarki Rúnar Jónínuson eru orðaðir við önnur félög.
Grótta
Andri Freyr Jónasson spilaði frábærlega með Gróttu á láni seinni hluta síðasta tímabils og vilja Seltirningar halda honum. Annars er búist við því að Grótta byggi áfram á því liði sem kom þeim upp úr 2. deild. Grótta er eitt af þeim félögum sem vill fá Jordan Adeyemo frá Ægi.
Neðri deildir karla
Fjölnir
Rafael Máni Þrastarson, ungur sóknarmaður Fjölnis, er eftirsóttur af félögum í Bestu deildinni. Fjölnir hefur hins vegar sett stóran verðmiða á hann, en Rafael kostar um 12 milljónir króna. Fjölnir vill fá Andra Frey Jónasson.
Selfoss
Árni Freyr Guðnason hafnaði að taka við sem þjálfari Selfoss en Óli Stefán Flóventsson hefur einnig verið orðaður við starfið. Jón Vignir Pétursson, fyrirliði Selfyssinga, er orðaður við félög í Lengjudeildinni og þá er spurning hvað gerist með Jón Daða - hvort hann taki slaginn í 2. deild næsta sumar.
Hamar
Bræðurnir Markús Andri Martin (2010) og Ísak Sindri Martin (2008) úr Hamri eru eftirsóttir af félögum úr Lengjudeildinni og Bestu deildinni. Þeir geta valið á milli nokkurra félaga.
Sindri:
Björn Daníel Sverrisson gæti tekið við sem spilandi þjálfari Sindra og þá er Jóhann Frans Ólason, strákur fæddur 2009, orðaður við félög í Bestu deildinni og við Hadjuk Split í Króatíu.
Besta deild kvenna
Breiðablik
Nik Chamberlain er auðvitað að hætta sem þjálfari Blika og hann gæti tekið Samönthu Smith með sér til Kristianstad í Svíþjóð. Samantha er líka orðuð við Bandaríkin. Pétur Pétursson er líklegur til að taka við Blikaliðinu af Nik og ef það gerist, þá eru miklar líkur á því að Adda Baldursdóttir verði aðstoðarþjálfari hans. Magnús Már Einarsson er einnig orðaður við Breiðablik sem og Gunnar Borgþórsson. Það heyrist annars úr Kópavoginum að það eigi að skera niður í kringum kvennalið félagsins og samningamál leikmanna eru í mikilli óvissu. Linda Líf Boama er orðuð við Blikana og Björg Gunnlaugsdóttir úr FHL líka. Blikar hafa áhuga á Tindastólstvennunni, Elísu Bríeti Björnsdóttur og Birgittu Rún Finnbogadóttur en þær eru tvær af efnilegustu leikmönnum landsins.
FH
Thelma Karen Pálmadóttir er væntanlega á leið í atvinnumennsku eftir magnað tímabil. Roma hefur sýnt henni áhuga en nokkur af stærstu félögum Evrópu eru með augastað á henni. Rosenborg og Rosengård, tvö af stærstu félögum Norðurlanda, eru þar á meðal. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir er orðuð við FH en hún er á förum frá Þór/KA. Natasha Anasi, leikmaður Vals, er orðuð við FH og þá FH-ingar einnig með Björgu, Elísu Bríet og Birgittu Rún á sínum lista.
Þróttur R.
Jelena Tinna Kujundzic er leikmaður sem gæti farið með Nik Chamberlain til Kristianstad en hún átti mjög gott sumar með Þrótti. Kimberley Dóra er líka orðuð við Þrótt en hún þekkir nýjan þjálfara liðsins, Jóhann Kristinn Gunnarsson, vel. Þá eru Björg, Elísa Bríet og Birgitta Rún líka á óskalistanum í Laugardalnum. Katie Cousins er að verða samningslaus og er mögulega á leið aftur til Bandaríkjanna og þá gæti Þórdís Elva Ágústsdóttir farið aftur út í atvinnumennsku.
Stjarnan
Fanney Lísa Jóhannesdóttir, ungur leikmaður Stjörnunnar, er á óskalista annarra félaga í Bestu deildinni sem og félaga erlendis. Murielle Tiernan, sóknarmaður Fram, er orðuð við Stjörnuna og Natasha Anasi, varnarmaður Vals, sömuleiðis. Það var óvissa um framtíð Jóhannesar Karls Sigursteinssonar, þjálfara liðsins, en núna bendir flest til þess að hann verði áfram með liðið.
Víkingur R.
Víkingar eru stórhuga fyrir næsta tímabil. Linda Líf Boama er eftirsótt en hún er að verða samningslaus. Víkingur vill auðvitað halda henni en það er áhugi á henni frá félögum á Íslandi og erlendis. Nik Chamberlain gæti reynt að taka hana með sér til Kristianstad. Elísa Birta Káradóttir, ungur leikmaður HK, er á lista hjá mörgum félögum í Bestu deildinni en Víkingur er líklegasti áfangastaðurinn fyrir hana. Þá eru Elísa Bríet, Birgitta Rún og Björg einnig á lista Víkinga fyrir næsta tímabil. Sigdís Eva Bárðardóttir gæti komið heim í Víking úr atvinnumennsku.
Valur
Valur ætlar að halda áfram að yngja lið sitt. Arna Sif Ásgrímsdóttir og Natasha Anasi eru mögulega á förum og þá er spurning með framtíðina hjá Elísu Viðarsdóttur og Fanndísi Friðriksdóttur. Fanndís gæti lagt skóna á hilluna eftir að hafa átt mjög gott tímabil. Murielle Tiernan er leikmaður sem Valur er að skoða og er Valur eitt af þeim félögum sem vill fá Fanney Lísu frá Stjörnunni. Elísa Bríet og Birgitta Rún eru líka auðvitað orðaðar við Val.
Þór/KA
Það er verið að skoða leikmannamálin eftir að Aðalsteinn Jóhann Friðriksson tók við liðinu, en Arna Sif Ásgrímsdóttir er líklega að snúa aftur heim á Akureyri frá Val. Alli Jói ætlar þá að taka Höllu Bríeti Kristjánsdóttur með sér frá Völsungi en hún var einn besti leikmaður 2. deildar í sumar.
Fram
Elísa Bríet Björnsdóttir er efst á óskalista Framara fyrir næsta tímabil og þá er Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, einnig orðuð við félagið.
ÍBV
Vestmannaeyingar ætla sér að byggja á því liði sem komst upp úr Lengjudeildinni í sumar. Elísa Viðarsdóttir, sem hefur lengi verið fyrirliði Vals, er á óskalista Eyjakvenna fyrir næstu leiktíð og Natasha Anasi sömuleiðis.
Grindavík/Njarðvík
Natasha Anasi er efst á óskalistanum hjá nýliðunum en Grindavík/Njarðvík vonast til að halda þeim leikmönnum sem spiluðu með liðinu í sumar.
Neðri deildir kvenna
Tindastóll
Hrafnhildur Guðnadóttir er orðuð við þjálfarastarfið hjá Tindastóli. Elísa Bríet Björnsdóttir og Birgitta Rún Finnbogadóttir verða ekki áfram hjá Stólunum en flestöll liðin í Bestu deildinni vilja fá þær. María Dögg Jóhannesdóttir er á förum frá Stólunum og Bryndís Rut Haraldsdóttir er sögð vilja spila áfram í Bestu deildinni.
FHL
Björg Gunnlaugsdóttir ætlar að færa sig á höfuðborgarsvæðið og er orðuð við nokkur af bestu liðum landsins þar á meðal Breiðablik þar sem Áslaug Munda, systir hennar, er á meðal leikmanna. Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL, gæti líka spilað áfram í Bestu deildinni.
HK
Elísa Birta Káradóttir, unglingalandsliðskona úr HK, er eftirsótt af félögum í Bestu deildinni. Eins og áður kemur fram er Víkingur líklegasti áfangastaðurinn.
KR
John Andrews er tekinn við KR og hann er búinn að vera duglegur að heyra í leikmönnum sem eru að verða samningslausir. Hann ætlar að mæta með öflugt lið til leiks á næsta tímabili. Katla Guðmundsdóttir er leikmaður sem félög í Bestu deildinni vilja fá í sínar raðir.
Haukar
Sóknarmaðurinn Elín Björg Norðfjörð Símonardóttir er eftirsótt en Haukar vilja auðvitað halda henni.
Einherji
Einherji er í þjálfaraleit, spilandi þjálfari kemur til greina.
Athugasemdir

